Reglulega munum við beina sviðsljósinu að safngrip sem leynist á einu af þeim fjölmörgu söfnum á Íslandi. Söfnin velja gripinn og segja stuttlega frá honum.
Hönnunarsafn Íslands
Hver er gripurinn?
Íbúðir prestskandídata á Hallgrímskirkju, 1974 eftir Einar Þorsteinn Ásgeirsson (1942-2015)
Hugmynd Einars frá 1974 að byggja kúlulaga íbúðir utan á Hallgrímskirkju fyrir prestskandídata er gáskafull. Einar Þorsteinn lýsti því fyrir vini sínum, Trausta Valssyni arkitekt hvernig kirkjan, í líki móður, hefði hangandi prestsefnin utan á sér. Móðurkirkja er einnig ágætt orð fyrir þessa táknrænu útfærslu á stærstu kirkju landsins, þar sem framkirkjan með áföstum kúlunum mætti einnig líkja við skip með plastbelgi á skipshliðum – skipsskrokknum til varnar þegar lagst er að bryggju.
Einar Þorsteinn Ásgeirsson var einn frumlegasti arkitekt okkar Íslendinga. Snemma fór hann að kalla sig hönnuð og vann að rannsóknum á rúmfræði og burðarþoli. Kúluhús Einars eru mjög þekkt og má finna á nokkrum stöðum hér á landi. Samvinna Einars Þorsteins og Ólafs Elíassonar myndlistarmanns var gjöful. Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús er klædd formi er styðst við gullinfang, formeiningu sem Einar Þorsteinn þróaði. Árið 2014 færði Einar Þorsteinn Hönnunarsafninu módelsafn sitt ásamt ýmsum gögnum um verkefni sín og störf.