• 16/01/2023

  Reglulega munum við beina sviðsljósinu að safngrip sem leynist á einu af þeim fjölmörgu söfnum á Íslandi. Söfnin velja gripinn og svara nokkrum laufléttum spurningum um hann. 

  Byggðasafnið í Görðum

  Hver er gripurinn?

  Loðfeldur úr Vísundaskinni

  Til hvers var hann notaður?

  Eigandi loðfeldsins Guðjón Þórðarson (f.1885-d.1941) gerði sér þennan feld til að klæða af sér vetrarhörkur Kanada í kringum 1908.

  Hver er saga hans?

  Guðjón Þórðarson (f.1885 – d.1941) frá Vegamótum á Akranesi var 12 ára þegar hann steig um borð í strandferðaskipið Laura í Reykjavíkurhöfn árið 1897. Fyrirheitna landið var Winnipeg í Kanada. Vegna mikillar fátæktar höfðu foreldrar Guðjóns þegið boð um að senda eitt af börnum sínum níu í fóstur til frændfólks í Kanada. Í upphafi hafði elsti sonurinn valist til ferðarinnar en sá harðneitaði og því var það hlutskipti þess næst elsta sem var Guðjón að fara í ferðina. Við komuna til Winnipeg beið Guðjón spenntur eftir frænda sínum en hann kom aldrei. Eftir það hvarf Guðjón og var ekkert vitað um afdrif hans fyrr en 12 árum seinna eða árið 1909. Í mars 1909 stendur ungur maður við bryggjuna í Steinsvör á Akranesi, íklæddur vísundaloðfeldi með riffil um öxl og koffort sér við hlið. Frá því að Guðjón hvarf 1897 voru foreldrar hans búin að telja hann af og höfðu ekki gert ráð fyrir að sjá hann aftur á lífi.   Til marks um það er að þau höfðu m.a. eignast tvo syni eftir að Guðjón hvarf og skýrt þá báða Guðjón, en annar þeirra lést ári áður en sá síðari fæddist. Ein helsta ástæðan fyrir því að hann fór aftur til Ísland var sú að hann var einhleypur og vildi fá íslenska konu og stofna fjölskyldu. Eftir heimkomuna stundaði Guðjón sjómennsku, oftast sem formaður. Árið 1912 kvæntist hann Ingiríði Bergþórsdóttur og eignuðust þau 5 börn. Guðjón átti jörð í Kanada og ætlaði alltaf að flytjast þangað aftur en kona hans Ingiríður þvertók fyrir það og ílengdust þau á Akranesi og stofnuðu þar heimili. Guðjón lést árið 1941 einungis 56 ára gamall og tók með sér í gröfina alla vitneskju um sína ævintýraferð og lífsbaráttu í Kanada.

  Hvernig og hvenær rataði hann á safnið?

  Ættingjar Guðjóns Þórðarsonar gefa safninu loðfeldinn árið 2009. Guðjón vildi lítið sem ekkert ræða um dvöl sína í Kanada eftir að hann kom aftur heim til Akraness. Barnabarn hans Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir rannsakaði og leitaði í nokkur ár ýmissa leiða til þess að komast á slóð afa síns og grafa upp hans sögu og lífshlaup. Niðurstöðu rannsókna sinna skráði hún í söguform og gaf út í nokkrum eintökum árið 2009 og nefndist “Vestur um haf og heim aftur”. Í tilefni útgáfu var sett upp sýning um lífshlaup Guðjóns Þórðarsonar í sýningarsal Byggðasafnsins í Görðum árið 2009.

  Af hverju völduð þið þennan safngrip?

  Ein lítil saga af Vesturheimsferð ung drengs af Akranesi við lok 19.aldar. Þessi saga er hugsanlega ekki einsdæmi á Íslandi um hvernig lífshlaupið hefur verið hjá fátækufólki sem hefur haft fá úrræði sér og sínum til bjargar. Feldurinn er til sýnis á grunnsýningu safnsins og þar er sögð ferðasaga hans ásamt lífshlaupi vesturheimsfara við lok 19.aldar.