• 17/01/2022

  Stjórn FÍSOS ákvað að gera fjóra félaga að heiðursfélögum á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Stykkishólmi 13. október sl., Heiðursfélagar í FÍSOS eru nú tuttugu talsins, þegar þau Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Inga Lára Baldvinsdóttir, Jón Sigurpálsson og Lilja Árnadóttir hafa bæst í hópinn.

  Frá vinstri: Heiðursfélagarnir Lilja Árnadóttir, Jón Sigurpálsson, Inga Lára Baldvinsdóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir ásamt Anitu Elefsen og Sigríði Þorgeirsdóttur stjórnarmönnum FÍSOS.

  Öll hafa þau sinnt safnamálum af miklum metnaði í gegn um tíðina og tekið virkan þátt í samfélagi safnmanna. Félag íslenskra safna og safnmanna var stofnað árið 1981 og kom hópur safnafólks að stofnun þess. Inga Lára Baldvinsdóttir, Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Lilja Árnadóttir eru meðal stofnfélaga – og hafa allar starfað af miklum heilindum í þágu félagsins og safnastarfs almennt. Tilgangur félagsins hefur frá upphafi verið að efla samstarf og menntun þeirra sem starfa á söfnum á Íslandi og er árlegur farskóli bein afurð þess markmiðs.

  Guðný Gerður Gunnarsdóttir er eins og fram hefur komið meðal stofnenda FÍSOS og var þar að auki í hlutverki farskólastjóra, ásamt Ragnhildi Vigfúsdóttur, á fyrsta farskólanum sem haldinn var á Skógum árið 1989. Guðný Gerður hóf starfsferilinn á Ábæjarsafni, stýrði Minjasafninu á Akureyri í tæpan áratug, starfaði því næst á Þjóðminjasafni Íslands og var skipuð Borgarminjavörður árið 2000. Guðný Gerður starfði síðast hjá Minjastofnun Íslands og hefur sannarlega látið til sín taka á sviði safnastarfs og minjavörslu.

  Inga Lára Baldvinsdóttir er meðal stofnfélaga FÍSOS og hefur verið mikill hvatamaður farskólans frá upphafi og var síðast í farskólastjórn þegar skólinn var haldinn í Berlín árið 2015. Hún hefur jafnframt komið mikið að útgáfu safnablaðsins Kvists, sem hóf útgáfu árið 2014.
  Inga Lára hóf störf á Þjóðminjasafninu árið 1977 en gerðist svo hreppstjóri Eyrarbakka og var jafnframt umsjónarmaður og stjórnarformaður Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka um skeið. Árið 1990 sneri hún aftur á Þjóðminjasafnið og starfaði í ljósmyndadeild safnsins, á Ljósmyndasafni Íslands í þrjá áratugi.
  Inga Lára hefur látið húsverndarmál sig miklu varða – bæði í störfum sínum innan minjavörslunnar sem og persónulega.

  Jón Sigurpálsson stýrði Byggðasafni Vestfjarða á Ísafirði í þrjá áratugi. Jón er menntaður myndlistarmaður og hafa fallegar og listrænar uppsetningar á sýningum safnsins í Neðstakaupstað borið þess merki. Jón hefur unnið mikið í þágu varðveislu skipa og báta og var hann meðal stofnenda Sambands íslenskra sjóminjasafna og lengi formaður félagsins. Jón hefur gefið sig að safnamálum og menningarmálum af heilum hug, fágætum áhuga og innlifun, og er sannarlega í hópi þeirra safnmanna sem sett hafa mark sitt á fagið undanfarna áratugi.

  Lilja Árnadóttir hóf störf á Þjóðminjasafni Íslands árið 1977 og starfaði þar allan sinn starfsferil. Lilja var lengst af sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins. Hún var meðal stofnenda FÍSOS og spannaði starfsferill hennar hjá Þjóðminjasafninu rúmlega fjörtíu ár. Lilja hafði þar áhrif á alla þætti starfseminnar, þá sérstaklega gagnvart munasafninu sem og húsasafninu.
  Lilja lét nýlega af störfum en er þó hvergi nærri hætt að starfa á vettvangi safnanna – var til að mynda við störf á Seyðisfirði í síðustu viku, stýrir málstofu hér á Farskólanum á morgun og svona mætti áfram telja. Lilja hefur verið ötul í störfum sínum í þágu minjavörslunnar og hefur krafta hennar sannarlega notið við víðar en innan veggja Þjóðminjasafnsins.