• 16/08/2021

    Umræðufundur á Sjóminjasafninu í Reykjavík fimmtudaginn 19. ágúst kl. 16:00

    Stjórn Félags íslenskra safna- og safnmanna (FÍSOS) hvetur framboð til alþingiskosninga um land allt til að huga að söfnum landsins og setja þau á dagskrá. Söfn gegna mikilvægu hlutverki í varðveislu menningararfsins, fræðslu til skóla og sívaxandi hlutverki í ferðaþjónustu um land allt. Söfn eru bæði uppspretta þekkingar og sköpunar en einnig mikilvægur starfsvettvangur, ekki síst fyrir háskólamenntað fólk með sérfræðiþekkingu s.s. safnafræðinga, sagnfræðinga, forverði, þjóðfræðinga og listfræðinga og annarra sem sérhæfa sig í varðveislu menningararfsins fyrir komandi kynslóðir. Söfn á landsvísu miðla menningararfinum og varðveita hann til framtíðar.

    Á síðustu árum hefur ferðaþjónusta eflst til muna. Söfn hafa stuðlað að uppbyggingu í ferðaþjónustu um land allt. Þau geta verið drifkraftur í uppbyggingu atvinnulífs og varðveislu menningararfsins eins og hefur sýnt sig á Siglufirði með uppbyggingu Síldarminjasafnsins sem laðar að sér gesti og eru stolt bæjarbúa. Aukin áhersla á ferðamál má ekki koma niður á faglegu safnastarfi og auknar tekjur ekki verða til þess að stuðningur eigenda við söfnin sín minnki.


    Krafa um hagræðingu í rekstri veldur því oft að söfn eru undirmönnuð og skerðir það getu þeirra til að sinna lögboðinu hlutverki. Með tilkomu safnasjóðs og eflingu hans á undanförnum árum hefur staða safna batnað. Hlutverk og tilgangur safnasjóðs er að efla starfsemi safna með styrkjum. Viðurkennd söfn, önnur en söfn í eigu ríkisins, geta sótt um rekstrarstyrki til að efla starfsemi sína og öll viðurkennd söfn geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna. Önnur söfn, safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn. Mennta- og menningarmálaráðherra úthlutar styrkjum úr safnasjóði að fengnum tillögum safnaráðs.


    Félagsmenn FÍSOS brenna fyrir safnastarfi og er framtíðarskipulag safnanna þeim efst í huga. Í flestum kjördæmum landsins má finna að minnsta kosti  eina stofnun sem fellur undir safnalög. Ábyrgð þingmanna er því rík bæði er varðar rekstur safna og framtíðarsýn í málaflokknum.

    FÍSOS óskar eftir stefnu og afstöðu framboðsins/flokksins til meðal annars eftirfarandi spurninga sem varða safnamál:

    • Hver er stefna þíns flokks/framboðs í safnamálum og hverjar eru helstu áherslur til næstu fjögurra ára? Hvar má nálgast stefnuna? Hefur þinn flokkur/framboð kynnt sér nýja stefnumörkun stjórnvalda um safnastarf og menningararf?
    • Hvaða hlutverki gegna höfuðsöfnin að þínu mati?
    • Hvernig sér þinn flokkur/framboð fyrir sér eflingu safnasjóðs til framtíðar?
    • Hver er afstaða þíns flokks/framboðs til varðveislumála höfuðsafnanna, e.o. hjá Listasafni Íslands líkt og kom fram í þætti Kveiks frá 8. október 2020.
    • Í ljósi náttúruhamfara (eldgoss, jarðskjálfta og skriðufalla) hvernig sér þinn flokkur/framboð fyrir sér hvernig best er að tryggja örugga varðveislu menningararfsins samkvæmt viðurkenndum stöðlum?

    FÍSOS býður fulltrúum flokkanna/framboðanna á höfuðborgarsvæðinu á umræðufund kl. 16.00 þann 19. ágúst í Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8, þar sem málefni safna verða til umfjöllunar. Óskað er eftir viðbrögðum við fundarboði, ályktuninni og þeim spurningum sem þar eru settar fram: stjorn@safnmenn.is

    F.h. FÍSOS:

    Anita Elefsen, formaður FÍSOS

    Þóra Sigurbjörnsdóttir, meðstjórnandi í FÍSOS

    Sigurður Trausti Traustason, félagi í FÍSOS

    Helga Maureen Gylfadóttir, félagi í FÍSOS