• 18/09/2020

    FÍSOS, Íslandsdeild ICOM og safnaráð stóðu fyrir könnun á meðal safnstjóra viðurkenndra safna og ríkissafna í maí og júní 2020. Könnunin var um áhrif heimsfaraldurs COVID-19 á safnastarf á Íslandi og var hún jafnframt unnin í samstarfi við höfuðsöfnin þrjú.
    Markmiðið var að kalla eftir upplýsingum um þær áskoranir sem söfn stóðu skyndilega frammi fyrir og kanna líðan starfsfólks. Þá vildi safnaráð afla upplýsinga um rekstur safnanna, afla gagna fyrir ráðið og samstarfsaðila svo unnt væri að finna lausnir og auka stuðning við söfn. Auk þess var markmið að veita upplýsingum til viðeigandi hagsmunaaðila, ríkisstofnana og annarra stofnana.

    48 söfn svöruðu könnuninni, 43 að öllu leyti og 5 að einhverju leyti, en svör allra þátttakenda voru nýtt. Niðurstöður könnunarinnar voru tekin saman í skýrslu sem nú er komin út, „Áhrif COVID-19 á safnastarf á Íslandi. Höfundar skýrslunnar eru Guðný Dóra Gestsdóttir, formaður ICOM á Íslandi, Helga Maureen Gylfadóttir, formaður FÍSOS og Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs.

    Ljóst er að áhrifanna gætir víða, tekjur af erlendum ferðamönnum, sem að jafnaði halda uppi sértekjum mjög margra safna á Íslandi, dróst nær algerlega saman, en erlendir ferðamenn eru um 62% af gestum safnanna. Auk samdráttar í tekjum, þurftu söfn að glíma við lokanir, breytingar á áætlunum og starfshögum og jafnvel fækkun starfsfólks.

    Enn sér ekki fyrir endann á áhrifum COVID-19, nú í september 2020, en áætlað er að fylgja eftir þessari könnun veturinn 2020/2021, þar sem skoðuð verður raunstaða ársins 2020 og hvernig næstu misseri leggjast í safnafólk.