Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Þjóðminjasafni Íslands Íslensku safnaverðlaunin 2020 við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu mánudaginn 18. maí kl. 16.00. Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi
Þjóðminjasafn Íslands hlaut verðlaunin fyrir varðveislu- og rannsóknarsetur í Hafnarfirði og Kópavogi ásamt Handbók um varðveislu safnskosts. Var það mat valnefndar að þessi verkefni séu mikilvægt framlag til minjaverndar á landsvísu. Samstarf og miðlun þekkingar er þýðingarmikið og sú sérhæfða aðstaða sem sköpuð hefur verið fyrir varðveislu ómetanlegra minja er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.
Athöfnina sóttu ásamt forseta Íslands Lilja Alfreðsdóttir, mennta- menningarmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ásamt fulltrúum stjórna ICOM og FÍSOS og fulltrúum tilnefndra safna. Þar sem í gildi voru samkomutakmarkanir vegna Covid 19 sóttu einungis 50 manns athöfnina en henni var streymt í rauntíma á samfélagsmiðlum.
Árið 2020 voru fimm verkefni tilnefnd en þau voru Borgarsögusafn Reykjavíkur, Listasafn Reykjavíkur, Náttúruminjasafn íslands og sameiginlega Minjasafns Austurlands, Tækniminjasafn Austurlands, Sjóminjasafn Austurlands og Gunnarsstofnun.
Tilkynnnt var um tilnefningar til verðlaunnan 4. maí sl. Valnefnd íslensku safnaverðlaunanna 2020 skipuðu: Inga Jónsdóttir, formaður og fyrrverandi forstöðumaður Listasafn Árnesinga, Jón Jónsson, þjóðfræðingur, Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa, Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður Grasagarðs Reykjavíkur, Sigrún Ásta Jónsdóttir, sérfræðingur Gljúfrasteini og Hanna Rósa Sveinsdóttir, sérfræðingur Minjasafninu á Akureyri. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir þeirra framlag til verðlaunanna.
FÍSOS óskar Þjóðminjasafni Íslands innilega til hamingju með verðlaunin og öllum tilnefndum söfnum til hamingju með tilnefninguna. Þá þakkar FÍSOS Íslandsdeild alþjóðaráði safna, ICOM, kærlega fyrir ánægjulegt samstarf.