• 29/01/2020

    In Memoriam – Hafdís Halldórsdóttir (21.06.1951-20.01.2020)

    Þann 20. janúar sl. lést Hafdís Halldórsdóttir, fyrrum skrifstofustjóri Árbæjarsafns. Hafdís (f. 21.06.1951) hóf störf á Árbæjarsafni árið 1979 og starfaði þar í 37 ár eða til ársins 2016, er hún varð að láta af störfum vegna veikinda.
    Árbæjarsafn var hennar aðal starfsvettvangur og þar var hún lengst af skrifstofustjóri og hélt utan um rekstur og fjármál safnsins sem og safnbúðum Árbæjarsafns. Hún var félagi í FÍSOS og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið og sat meðal annars í stjórn þess.
    Samstarfsfélagar Hafdísar á Árbæjarsafni í gegnum árin minnast hennar með hlýhug og væntumþykju. Hafdís var einstaklega traust, skipulögð og glögg og hún var öllum hnútum á safninu kunn. Hún var alltaf fús til að miðla af reynslu sinni og þekkingu, enda bóngóð, hjálpsöm og einkar lausnamiðuð. Hún sinnti stöfum sínum af alúð og natni. Hún tók einnig virkan þátt í og setti mark sitt á starf og þróun Árbæjarsafns og alltaf bar hún hag safnsins fyrir brjósti.  Hafdís tók einnig virkan þátt í félagsstarfi safnmanna á landsvísu og lagði sitt lóð á vogarskálarnar við að efla íslenskt safnastarf, stuðla að vexti þess og aukinni fagmennsku.
    Útför Hafdísar mun fara fram frá Grafarvogskirkju fimmtudaginn 30. janúar og hefst athöfnin kl. 13.