Nú, á síðasta aðalfundi FÍSOS, sem haldinn var 2. október 2019 í Skjaldborgarbíó á Patreksfirði, var Ólafur Axelsson útnefndur heiðursfélagi FÍSOS.
Í umsögn stjórnar segir: “ Heiðursfélagi FÍSOS árið 2019 er Ólafur Axelssson. Ólafur hefur verið öflugur félagi í FÍSOS til fjölda ára. Hann ber hag félagsins fyrir brjósti og er vakinn og sofinn fyrir framgangi þess, þá sérstaklega reikningum félagsins sem hann fylgist með haukfránum augum. Ólafur efur verið dyggur talsmaður farskóla félagsins og er eftirtektarvert hve hann hefur lagt sig fram við að kynnast félagsmönnum. Hans heimspeki er sú að hann lítur á skólann líkt og ættarmót og auðvita situr maður ekki hjá sínum nánustu ættingum heldur gerir sér far um að kynnast sem flestum. Ólafur er af Árbæjarsafnsfjölskyldunni (ef við höldum áfram með ættarmótalíkinguna) en hann fór á eftirlaun árið 2014 eftir að hafa starfað við safnið í um 30 ár. Ólafur var vel liðinn af samstarfsfólki, enda skemmtilegur, fljótur til verka og með ljúfa lund.“
Ólafur hafði ekki tök á að sækja aðalfundinn en fyrir hans hönd tók Hanna Rósa Sveinsdóttir við heiðurskjalinu og flutti fundarmönnum kveðjur og þakklæti frá Ólafi.
Fimmtudaginn 17. október færðu fulltrúar stjórnar FÍSOS Ólafi heiðurskjalið og blómvönd með kærum þökkum fyrir þátttöku hans í starfi félagsins.