Kæra safnafólk.
Farskóli safnmanna 2018 verður haldinn dagana 11. – 14. september í Dublin.
Wow ásamt Gaman ferðum munu sjá um að koma farskólanemum á áfangastað og gist verður á O’Callaghan Hotels. Um er að ræða þrjú hótel: The Alex Hotel, The Davenport Hotel og The Mont Clare Hotel sem eru einungis í um mínútu göngufæri hvert við annað. Hótelin eru staðsett á góðum stað í miðborginni (http://www.ocallaghanhotels.com/about-us/ ) og stutt að fara þaðan á helstu söfn borgarinnar.
Tilkynnt verður um heildarupphæð ferðar, staðfestingargjald og skráningu á næstu dögum. Í boði verða tveir verðpakkar þar sem eitt hótelanna býður ódýrari gistingu.
Fjöldi þeirra sem komast í farskólann mun takmarkast við 120 manns svo það er um að gera að skrá sig sem fyrst þegar opnað hefur verið fyrir skráningu.
Skráningarsíða fyrir farskólann verður sett upp í næstu viku á heimasíðu FÍSOS þar sem hægt verður að skrá sig í ferðina.
Síðar verður haft samband við farskólanema og þeim kynnt dagskrá farskólans. Þeim gefst þá færi á að skrá sig í safnaheimsóknir og ferðir sem boðið verður upp á.
Það er mér sönn ánægja og heiður að vera skipuð farskólastjóri í ár. Hlín Gylfadóttir og Þóra Sigurbjörnsdóttir sitja með mér í farskólanefnd og vinnum við hörðum höndum þessa dagana að því að undirbúa fróðlegan og skemmtilegan farskóla.
Hlökkum til að hitta ykkur í Dublin í haust!
Helga Einarsdóttir, Hlín Gylfadóttir og Þóra Sigurbjörnsdóttir