• 04/05/2017

    PyroglyphsYfirskrift alþjóðlega safnadagsins, 18. maí, er söfn og umdeild saga:
    Að segja það sem ekki má segja í söfnum
    Í tilefni af alþjóðlega safnadeginum 2017, og yfirskrift hans, býður
    Listasafn Íslands gestum sínum að njóta frásagnar eins fremsta
    listamanns landsins; STEINU (Steina Briem Bjarnadóttir Vasulka, f.1940),
    um vídeóinnsetningu hennar  ELDRÚNIR  sem sýnd er í safninu um þessar
    mundir.
    Hér er hægt að lesa um Eldrúnir 
    Fimmtudaginn 18. maí kl.16:30 munu Hildur og Kristín Bjarnadætur, systur
    Steinu og Kristín Scheving, deildarstjóri Vasulka-stofu ræða við
    Steinu um verk hennar og um Vasulka-stofu; sérdeild innan Listasafns
    Íslands, sem stofnuð var árið 2014 og er starfrækt sem sýninga- og
    rannsóknarými á neðri hæð safnbyggingar Listasafns Íslands.
    Auk þess að bjóða gestum til samræðu við Steinu um list hennar vill
    Listasafn Íslands beina athygli gesta sérstaklega að verki WOODY
    VASULKA, eiginmanns og samverkamanns Steinu, sem sýnt er í Vasulka-stofu
    um þessar mundir og ber heitið  ART OF MEMORY.
    Vídeóverkið  Art of Memory frá árinu 1987 á í beinni samræðu við
    yfirskrift og áherslu alþjóðlega safnadagsins en í því staðsetur
    listamaðurinn sálrænt áfall sögu 20. aldar í kvikmyndum af
    ofbeldisverkum, þar á meðal eru spænska borgarastyrjöldin, rússneska
    byltingin, seinni heimsstyrjöldin og tilkoma kjarnorkusprengjunnar. Undir
    yfirgnæfandi vængjaðri veru samviskunnar virðast sagan og minningin
    grátt leiknar af sögunni og myndrænum minningum. Í hrífandi
    sambræðslu stríðstóla og véla sögunnar og fjölmiðla tekst Vasulka
    að byggja upp napurt og að endingu átakanlega harmrænt
    minningaleikhús.
    Art of Memory er mikilfenglegt verk, frumleg og þroskuð framsetning á
    rannsókn Vasulka á merkingu skrásettra mynda. Með því að byggja upp
    reimleikaleikhús minninga úr sjónarspili kvikmynda og rafrænna mynda,
    fellir Vasulka saman og umbreytir sameiginlegu minni og sögu í torræðu
    rými og tíma. Hið stórfenglega landslag suðvesturríkja Bandaríkjanna
    er goðsagnakenndur vettvangur sem hann greypir í fréttakvikmyndir úr
    stríðinu — draugalegar myndir sem verða að sveigjanlegum,
    skúlptúrískum formum fyrir tilstilli stöðugra rafrænna ummyndana.
    Opið er í safninu frá 10 – 17
    Frítt inn í tilefni alþjóðlega safnadagsins.