Byggðasafn Skagfirðinga hlaut íslensku safnaverðlaunin 2016. Voru þau afhent við hátíðlegt tilefni á Bessastöðum 13. júlí síðastliðinn. FÍSOS óskar byggðasafninu til hamingju með verðlaunin!
Í rökstuðningi dómnefndar segir um Byggðasafn Skagfirðinga
Starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga er fjölþætt og metnaðarfull. Þar er fagmannlega að verki staðið og hver þáttur faglegs safnastarfs unninn í samræmi við staðfesta stefnu og starfsáætlanir.
Í safninu er ríkulegur safnkostur sem safnast hefur allt frá stofnun þess árið 1952 og um þessar mundir beita starfsmenn aðferðum við söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun sem mæta kröfum samtímans um safnstörf. Byggðasafnið leggur áherslu á að rækta samstarf við stofnanir og fyrirtæki heima og heiman. Sú samvinna og samþætting skipar safninu í flokk með fremstu safna á Íslandi í dag.
Öflugar og sérhæfðar rannsóknir safnsins varpa ljósi á mannauð sem það býr yfir og sýna fram á hvers byggðasöfn eru megnug þegar þau hafa náð viðurkenndum sessi. Í safninu fara fram rannsóknir á safnkostinum auk víðtækra fornleifarannsókna í héraðinu, oft í alþjóðlegu samstarfi. Skráning, kennsla og rannsóknir á starfssviði safnsins hafa enn frekar víkkað út starfssvið safnsins og birtast m.a. í gegnum Fornverkaskólann og byggingarsögurannsóknir. Gefnar eru út rannsóknaskýrslur og sýningaskrár sem eru jafnframt aðgengilegar í gagnabanka á vefsíðu safnsins.
Starfsemi safnsins nær langt út fyrir eiginlega staðsetningu þess. Sýningar þess eru víðar um héraðið en í höfuðstöðvunum að Glaumbæ, s.s. sýningin í Minjahúsinu á Sauðárkróki og aðalsýning í Vesturfarasetrinu á Hofsósi, sem einnig er dæmi um samstarfsverkefni undir undir faglegri handleiðslu byggðasafnsins. Samstarf við skóla, uppeldisstofnanir og fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem og samstarf í miðlun og sýningagerð sýnir hvernig safn getur aukið fagmennsku í sýningagerð, ferðaþjónustu og miðlun menningararfs.
Safnið hefur á að skipa hæfu starfsfólki sem með vökulum áhuga og metnaði hefur tekist að skipa safninu í flokk með þeim fremstu sinnar tegundar á Íslandi.