Á Listasafni Einars Jónssonar verður haldið uppá alþjóðlega safnadaginn með útiveru í höggmyndagarðinum. Í hádeginu sér hornaflokkurinn Kanselíbrass um ljúfa tóna og flytur íslensk og erlend lög sem henta vel fyrir lautarferð í garðinum. Gestir eru hvattir til að koma með teppi og nestiskörfur en einnig verða léttar veitingar í boði, svo sem kaffi og kleinur. Um kl. 12:30 mun safnstjóri, Sigríður Melrós segja frá garðinum, vinnu Einars og konu hans Önnu við uppbyggingu hans og styttunum sem settar voru upp eftir þeirra dag.
Listasafnið verður einnig opið frá kl. 10 – 17 og er þetta fyrsti dagur sumaropnunar. Verður það opið framvegis alla daga kl. 10 – 17, nema mánudaga. Frítt er í garðinn en aðgangur að safninu kostar 1000 fyrir fullorðna. Frítt fyrir börn undir 18 ára aldri. Nánar um opnunartíma og aðgangseyri http://www.lej.is/safnid/heimsokn/