• 16/05/2016

    listasafn Árnesinga
    Í tengslum við alþjóðadag safna efnir Listasafn Árnesinga til dagskrár sunnudaginn 22. maí kl. 15:00 með listamannaspjalli Péturs Thomsen og Rúríar um verk þeirra á sýningunum Tíð / Hvörf og Tíma – Tal sem nýlega voru opnaðar í safninu. Viðfangsefni þeirra tengjast vel þema alþjóðlega safnadagsins sem í ár er: söfn og menningarlandslag.

    Á alþjóðadegi safna, 18. maí ár hvert, hafa söfn um allan heim skipulagt dagskrá þann dag, helgina eða jafnvel alla vikuna sem 18.maí ber upp á og hefur það verið gert öll árin síðan 1977. Á síðasta ári tóku þátt yfir 30 þúsund söfn sem staðsett eru í yfir 120 löndum. Þema hvers árs er valið af alþjóðlegri nefnd með það í huga að draga fram mikilvægi safna og þátt þeirra í samfélagslegri þróun.
    Með þessu þema söfn og menningarlandslag er áherslan lögð á ábyrgð safna gagnvart umhverfi sínu og er ákall til þeirra um að leggja til þekkingu og taka virkan þátt í stjórnun, verndun og viðhaldi þeirrar menningararfleifðar sem felst í menningarlandslagi bæði innan og utan veggja safnsins.
    Listamennirnir Pétur og Rúrí eru bæði þekkt fyrir það að fjalla um samskipti manns og náttúru og hafa bæði lagt áherslu á mikilvægi þess að vera meðvitaður um áhrif mannsins á náttúruna og þær afleiðingar sem afskipti hans geta valdið, neikvæðar sem jákvæðar. Núverandi sýningar í Listasafni Árnesinga falla því einkar vel að þema safnadagsins í ár og gestir hvattir til þess að koma og eiga spjall við listamennina.
    Listasafn Árnesinga er í eigu allra sveitarfélaganna í Árnessýslu en það er staðsett í Hveragerði. Á safninu er tekið vel á móti barnafjölskyldum og ýmislegt í boði fyrir börn. Safnið er opið alla daga kl. 12-18. Aðgangur er ókeypis, líka á listamannaspjallið, en hægt er að kaupa sér kaffi og léttar veitingar.