• 19/06/2014

  Íslensku safnaverðlauninÍslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Sem fyrr gátu almenningur, stofnanir og félagasamtök sent inn ábendingar um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. Í ár var söfnum í fyrsta skipti heimilt að senda inn kynningar á eigin verkefnum.

  Valnefnd skipa Haraldur Þór Egilsson, formaður valnefndar,  Valgerður Guðmundsdóttir, Ágústa Kristófersdóttir og Sif Jóhannesdóttir. Valnefnd hefur tilnefnt eftirfarandi þrjú söfn og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna  Safnaverðlaun 2014 og 1.000.000 króna að auki.  Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn þann 6. júlí á Bessastöðum. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaunin.
  Tilnefningar dómnefndar eru í stafrófsröð:

  HAFNARBORG, MENNINGAR OG LISTAMIÐSTÖÐ HAFNARFJARÐAR er tilnefnd til íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir metnaðarfulla sýningardagskrá og samfélagslega virkni þar sem þátttaka almennings er lykilatriði.
  Hafnarborg hefur á síðustu árum unnið að stefnumótun í virku samráði við nærsamfélagið. Sýningardagskráin er fjölbreytt með ákveðinni áherslu á hafnfirska listamenn eins og sjá má í sýningarröð safnsins á verkum Eiríks Smith og  glæsilegri yfirlitssýning um feril Rúnu, Sigrúnar Guðjónsdóttur. Auk sýninga á samtímalist og hönnun af ýmsum toga.
  Eftirtektarverð nýbreytni í sýningargerð var sýningin Þitt er valið þar sem almenningi var boðið að velja verk á sýninguna í gegnum menningarsögulega gagnasafnið Sarp. Allir gátu sent inn tillögu að verki úr safnkosti Hafnarborgar sem síðan var sett upp á sýningunni. Þátttakendur skiluðu einnig inn texta með lýsingu á því hvers vegna viðkomandi verk varð fyrir valinu. Sýningin endurspeglaði fjölbreyttan safnkost Hafnarborgar, verk innlendra og erlendra listamanna, á sama tíma og persónuleg tengsl almennings við myndlist urðu sýnileg.
  Gestir Hafnarborgar hafa haft tækifæri til þátttöku í öðrum verkefnum t.d.  Þinn staður okkar umhverfi – Skipulag-verkefni í vinnslu sem var opin vinnustofa um umgjörð daglegs lífs í Hafnarfirði og einn liður í endurskoðun aðalskipulags bæjarins.
  Safnið býður upp á metnaðarfulla hádegistónleikadagskrá, vinnustofur fyrir börn og fleira til  að efla tengsl sín við nærsamfélagið um leið og það sinnir öflugu sýningar og útgáfustarfi. Hafnarborg er safn sem leggur metnað sinn í að þjóna því fjölbreytta samfélagi sem það starfar í.
  REKSTRARFÉLAG SARPS er tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps.
  Á árinu 2013 urðu þau tímamót í íslensku safnastarfi að safnkostur þeirra safna sem eiga aðild að menningarsögulega gagnasafninu Sarpi varð aðgengilegur almenningi í gegnum veraldarvefinn. Þá var opnaður ytri vefur Sarps sem býður upp á leit í safnkosti 44 safna af ýmsum stærðum og gerðum. Mikilvægasti þáttur í starfi hvers safns er safneignin og skráning hennar. Hugmyndin um Sarp kviknaði árið 1998 á Þjóðminjasafni Íslands sem þróaðist í samvinnuverkefni margra safna og úr varð Rekstrarfélag Sarps árið 2002. Það er nú í eigu um 50 safna og hefur umsjón með þróun og rekstur gagnasafnsins Sarps.  Markmiðið hefur frá upphafi verið að tryggja varðveislu gagna safnanna.  Með ytri vefnum opnast gátt inn í skráningarkerfi safnanna þar sem upplýsingar um safnkost þeirra er að finna. Fjársjóður sá sem söfnin varðveita er einstaklega fjölbreyttur, þar má finna margskonar brúkshluti, ljósmyndir, myndlistarverk af ýmsu tagi, lýsingu á þjóðháttum fyrr og nú, ásamt upplýsingum um hús og margt fleira. Þessar upplýsingar eru nú aðgengilegar almenningi með einföldum hætti.
  Ytri vefur Sarps er bylting í aðgengi almennings að upplýsingum um menningararfinn og skapar tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á safnkosti íslenskra safna til að finna upplýsingar, skoða, bera saman og deila. Vefurinn nýtist nemendum á öllum skólastigum og eykur möguleika á rannsóknum á menningararfinum.
  Vefurinn gefur almenningi tækifæri til að bæta við þekkingarbrunninn  í gegnum sérstakt athugasemdakerfi . Gagnasafnið er því lifandi og kvikt,  tekur sífellt við nýjum upplýsingum, stækkar og batnar, meðal annars með myndvæðingu þess.
  Ytri vefur Sarps er mikilvægur til þess að söfnin í landinu séu virkir þátttakendur í   upplýsingasamfélaginu og opnar gátt milli almennings og safna.
  Þjóðminjasafn Íslands – er tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir dagskrá í tilefni 150 ára afmælis safnsins.

  Þjóðminjasafn Íslands hélt árið 2013 upp á 150 ára afmæli sitt með veglegri dagskrá. Hátíðarhöldin hófust snemma árs með útgáfu á kynningarblaði sem dreift var á hvert heimili í landinu og sjónvarpsþætti . Þar var vakin athygli á fjölbreyttri starfsemi safnsins og fólkinu sem vinnur störfin. Hátíðardagskrá, sýningar, útgáfur, málþing og leiðsagnir eru meðal þess sem almenningi var boðið upp á í tilefni afmælisins.

  Viðamiklum rannsóknum sem unnið hafði verið að í langan tíma voru gerð skil með glæsilegum sýningum og útgáfum. Annars vegar Silfur Íslands þar sem ítarleg rannsókn birtist bæði í efnismiklu ritverki og í ævintýralegri sýningu. Hins vegar útgáfa og sýning á ljósmyndum frumkvöðulsins Sigfúsar Eymundssonar sem varpaði nýju ljósi á myndheim hans í gegnum sjónarhorn fræðilegra rannsókna og greiningar. Bæði þessi verkefni endurspegla mikilvægi rannsókna í starfi safnsins og þær fjölbreyttu aðferðir sem nota má til að miðla niðurstöðum rannsókna til almennings.

  Afmælisárið var helgað íslenskri æsku og fékk æskufólk að spreyta sig á leiðsögn um safnið, taka þátt í vinnustofum, velja framtíðarminjar í tímahylki safnsins svo dæmi séu tekin. Þjóðminjasafnið sýndi á afmælisárinu að það er safn í fremstu röð, bæði í þjónustu sinni við almenna gesti, sýningum, rannsóknum og útgáfustarfsemi. Afmælisárið var jafnframt afmæli safnastarfs í landinu og vakti athygli á starfi safna og mikilvægi þess fyrir samfélagið.