• 14/05/2014

  Úthlutun forsætisráðherra á fyrri hluta ársins til ýmissa verkefna tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa vakti athygli. Vinnubrögðin voru gagnrýnd töluvert því svo virtist sem að ekki hafi verið gætt jafnræðis við úthlutun né aðilum sem starfa á þessu sviði veitt tækifæri til að sækja um hlutdeild í þessari fjárúthlutun.
  Undanfarin ár hafa ýmsum sjóðum verið komið á fót til þess að sinna fjárveitingum ríkissjóðs á sviði menningar. Með sjóðum eins og Safnasjóði er reynt að tryggja að opinberu fé sé úthlutað með eins sanngjörnum og faglegum hætti eins og mögulegt er. Til samanburðar má nefna að úthlutun forsætisráðherra nam um 205 milljónum króna á meðan Safnasjóður hafði úr 120 milljónum króna að moða.
  Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) gagnrýndi úthlutun forsætisráðherra á sínum tíma þar sem fjármunir á þessu sviði eru takmarkaðir. Ekki þarf að draga í efa að ráðherra gangi gott eitt til, en vinnubrögðin eru ekki til eftirbreytni.
  Annað mál sem FÍSOS gagnrýndi og snýr að sama ráðuneyti er tilfærsla ríkisstjórnarinnar á málaflokkum tengdum söfnum. Nú er svo komið að Þjóðminjasafn og Minjastofnun Íslands heyra undir forsætisráðuneytið. Hið fyrrnefnda, eitt af þremur höfuðsöfnum landsins, er eina safnið í forsætisráðuneytinu! Á meðan málefni allra annarra safna heyra undir Mennta- og Menningarmálaráðuneytið. Bæði þessi mál vekja upp spurningar um framtíð safna, starfsumhverfi þeirra og fagleg vinnubrögð.
  Söfn eru stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru flest rekin af almannafé. Þau varpa ljósi á listasögu, náttúru- og menningararf landsins. Þau varðveita, skrá og rannsaka þennan merkilega arf og með starfi sínu tryggja söfnin aðgengi að honum um ókomna framtíð.
  Til þess að sátt ríki um störf safna er því mjög mikilvægt að fjárveitingar til þeirra séu ákvörðuð með sem bestum hætti. Annað hefur ekki eingöngu áhrif á jafnræði í úthlutun opinbers fés heldur hefur slæm fjársýsla einnig vond áhrif á orðspor safna meðal almennings.
  Orðsporið viðhelst meðal annars með því að halda uppi faglegu starfi innan safna. Sem æðsta vald í safnamálum þarf hið opinbera að standa sig í stykkinu, það þarf að tryggja að fjárveiting sé sanngjörn og uppfyllir faglegar kröfur, eins þarf það að hafa á snærum sínum sérfræðinga sem þekkja fagið og geta framfylgt kröfum um jafnræði. Málefni safna þurfa því að eiga sér góðan samastað. Hvar sá staður er, skiptir ekki meginmáli. Það verður samt sem áður að liggja fyrir góður rökstuðningur fyrir því að höfuðsöfn séu færð til á milli ráðuneyta.
  Auðvitað gleðjumst við yfir því að ráðamenn þjóðarinnar lýsi yfir áhuga á söfnum, minjavörslu og tengdri starfsemi. Það er ekki þar með sagt að slíkt eigi að ráða för í stefnumótun og umsýslu hins opinbera í þeim málaflokki.
  FÍSOS er fagfélag safnafólks í landinu og boðar nú til málþings um stöðu og framtíð safna á fimmtudaginn (15. maí) í Odda stofu 101 kl.13-17 í samstarfi við Íslandsdeild ICOM og safnafræði við Háskóla Íslands. Helstu umræðuefni þingsins eru þekkingaruppbygging, boðleiðir styrkveitinga og tilfærsla og skipting safna á milli ráðuneyta. Nánari dagskrá og fyrirlesara má sjá á heimasíðu félagsins undir safnmenn.is . Allir velkomnir
  Höfundur greinar: Bergsveinn Þórsson listfræðingur og safnafræðingur . Safnkennari Landnámssýningar og formaður Félags íslenskra safna og safnmanna, FÍSOS. bergsveinn.thorsson@reykjavik.is