• 02/01/2008

  Farskóli FÍSOS
  Á síðasta aðalfundi FÍSOS lagði formaður félagsins fram þá tillögu fyrir hönd stjórnar að farskólinn 2007 yrði haldinn á erlendri grundu, t.d. á Bretlandseyjum. Á fundinum var kosin farskólastjórn, skipuð Ágústu Kristófersdóttur, Helgu Maureen Gylfadóttur og Birni Pétursson sem starfaði um skeið með nefndinni. Nefndinni var falið í samráði við stjórn FÍSOS að kanna möguleika þessarar hugmyndar og vinna að nánari útfærslu.
  Það þarf ekki að fara fleiri orðum um vel heppnaða farskóla félagsins í Glasgow og Edinborg þar sem farskólaskýrsla liggur nú fyrir. Alls tóku 78 félagar þátt í farskólanum og var skipulagning hans til fyrirmyndar í alla staði. Fullyrða má að Skotlandsferðin hafi í heild sinni verið félaginu til mikils sóma.
  Með farskóla FÍSOS 2007 var mörkuð ný og söguleg slóð í starfi félagsins. Sýndu þátttakendur og sönnuðu með krafti sínum og virkni að farskóla félagsins er vel hægt að halda á erlendri grundu,  og mætti hugsa sér slíkt fyrirkomulag með reglulegu millibili í framtíðinni.
  Endurmenntunarnámskeið 2007.
  Yfirskrift námskeiðsins var: Skráning safngripa- mikilvæg undirstaða safnastarfs. Námskeiðið fór fram15. og 16. mars og var hið sjötta í röðinni sem FÍSOS heldur í samstarfi við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.
  Á námskeiðinu var fjallað um grunnatriði skráningar og mikilvægi staðlaðrar skráningar í safnastarfi. Einnig var athyglinni beint að því hvernig þessar upplýsingar eru nýttar af fræðimönnum og hvernig þær eru gerðar aðgengilegar fyrir almenning.
  Umsjónarmenn námskeiðsins voru Dagný Heiðdal og Hanna Rósa Sveinsdóttir og fengu þær til liðs við sig valinkunnan hóp íslenskra sérfræðinga. Hátt í 40 manns tóku þátt í námskeiðinu sem heppnaðist mjög vel og vil ég færa þeim Dagnýju og Hönnu Rósu bestu þakkir fyrir vel heppnaða framkvæmd.
  Safnaráð
  Formaður félagins hefur tekið þátt í starfi safnaráðs sem að jafnaði fundar einu sinni í mánuði. Safnmenn eru hvattir til að kynna sér starfsemi ráðsins á heimasíðunni: www.safnarad.is.
  Nám á meistarastigi í safnafræði við HÍ
  Formaður félagsins hefur tekið þátt í undirbúningsvinnu undir handleiðslu Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands er varðar MA nám í safnafræði við HÍ. Þeirri vinnu er ekki lokið en málið komið í ákveðinn farveg.
  Heimasíða
  Félagið tók við tæknilegri umsjón heimasíðunnar á árinu úr hendi kerfisfræðings sem yfirfærði gömlu síðuna yfir í nýtt síðugerðartól. Til þess að annast umsýslu heimasíðunnar fékk stjórnin Þröst Sverrisson til samstarfs og hefur hann lagt á sig talsverða vinnu vegna þessa. Fyrir liggur að daglegt utanumhald og endurskoðun er umfangsmeira verkefni en svo að hægt sé að sinna því eingöngu í sjálfboðavinnu. Enda er vinna að góðri heimasíðu sem öðru starfi FÍSOS nær endalaust viðfangsefni.
  Póstlisti
  Safnlistinn – póstlisti félagsins hentað ágætlega sem sameiginlegur tilkynningavettvangur og stundum urðu til líflega skoðanaskipti þegar umræðan fangaði umræðan á árinu athygli safnamanna svo dæmi sé tekið þegar minnst var á safnmenn sem dragbíta og náttröll. Utanumhald um kerfið sjálft hefur hvílt að mestu á herðum Ágústu Kristófersdóttur meðstjórnanda félagsins.
  Ályktun og athugasemd
  Félagið sendi frá sér ályktun vegna Náttúrugripasafns Íslands og skoraði á
  stjórnvöld að tryggja Náttúrugripasafninu framtíðarhúsnæði hið fyrsta og gera því kleift að vinna samkvæmt lögbundnum skyldum sínum sem höfuðsafn.
  Þá sendi stjórn félagsins nefndarsviði Alþingis athugasemd varðandi frumvarp til laga um Náttúruminjasafn Íslands. En í frumvarpsdrögum var sérstaklega tiltekið orðið „sýningarmunir“. Frá sjónarhóli safna og safnmanna eru allir munir sem á söfn eru skráðir, flokkaðir sem safnmunir og er ekki gerður greinarmunur á því hvort skráðir safnmunir eru nýttir til sýninga eða rannsókna.
  Íslenski safnadagurinn
  Safnadagurinn var þann 8.  júlí 2007 og tók formaður FÍSOS þátt í starfi undirbúningsnefndar vegna dagsins og sá um að ákvarða útfærslu. Skrifstofa Safnaráðs hélt hins vegar utan um sameiginlega kynningu dagsins.
  Íslensku safnaverðlaunin
  Af  Íslensku safnaverðlaununum er það að frétta þau voru síðast afhent við hátíðlega athöfn á Farskólanum á Egilsstöðum. En það er hins vegar sameiginleg ákvörðun félaganna FÍSOS og Íslandsdeildar ICOM, sem að verðlaununum standa, að afhenda þau annað hvert ár.  Verðlaunin verða því afhent við hátíðlega athöfn á ný árið 2008.
  Erlend samskipti NEMO og NODEM
  FÍSOS á aðild að NEMO (Network of European Museum Organisations) en ársfundur samtakanna er haldinn í nóvember mánuði 2007. Erlend samskipti eru mikilvæg en þau eru líka kostnaðarsöm. Sú stefna hefur verið tekin, að takmörkuðu fjármagni FÍSOS verði beint fremur til innri starfsemi í stað þess að kosta fulltrúa félagsins til utanfarar á fundi
  FÍSOS er þátttakandi í Norræna samstarfinu NODEM sem er norrænt verkefni um eflingu stafrænnar miðlunar á söfnum. Næsta NODEM ráðstefna verður haldin hér á landi í desember 2008. Að hálfu félagins hefur Ágústa Kristófersdóttir og Karl Rúnar Þórsson komið mest að þessari vinnu en Helga Maureen Gylfadóttir hefur nú nýverið fallist á að vera fulltrúi félagsins í starfshópi sem vinnur að þessu verkefni. Auk FÍSOS starfa í hópnum fulltrúar frá Háskóla Íslands, Minjasafns Reykjavíkur – Árbæjarsafns, Þjóðminjasafns Íslands og hugbúnaðarfyrirtækisins Gagarín.
  Ný félagsskírteini
  Á starfsárinu voru hönnuð og prentuð ný félagsskírteini og fór útsending skírteina fram gegnum þjónustubanka félagsins. Misræmis gætti í félagatali og skírteinaframleiðslu sem ný stjórn þarf að skoða. Ljóst er að framkvæmd skírteinaútsendingar þarf að endurskoða enda mikilvægt að útsending skírteina og innheimta félagsgjalda gangi vel fyrir sig en um glæsilega hönnun þeirra sá Alma Dís Kristinsdóttir ritari félagsins.
  Ráðstefna FÍSOS og safnaráðs, farskóli og árshátíð
  Þar sem sú ákvörðun var tekin að halda Farskóla félagsins á erlendri grundu var hefðbundnum aðalfundi ekki við komið í þéttri dagskrá þar ytra. Til að ná félögum frekar saman til fundarhalda að farskóla loknum var ákveðið að bjóða upp á einskonar FÍSOS dag sem innihéldi ráðstefnu í samstarfi við Safnaráð þar sem efnistök tengdust farskóla. Boðið var upp á samantekt á starfi farskólans í Skotlandi, aðalfund félagsins og deginum lauk með árshátíð um kvöldið. Stjórn félagsins renndi blint í sjóinn hvernig til tækist sérstaklega með hliðsjón af dreifðri búsetu félaga. Með deginum var félögum FÍSOS boðið upp á bæði faglegt og skemmtilegt félagsstarf og þeir félagar sem þátt tóku voru ánægðir með framtakið.
  Fjölgun félaga
  Það er gaman að segja frá því að á starfsárinu hefur félagið vaxið og dafnað, en í ár hafa 25 nýir félagsmenn skráð sig í félagið, fjórir félagsmenn voru teknir af félagsskrá og því teljast félagar í FÍSOS þegar þetta er ritað vera alls 196.
  Að lokum
  Að síðustu langar mig að fá að bæta við nokkrum orðum, en ég hef tekið þá ákvörðun að gefa ekki kost á mér til endurkjörs sem formaður félagsins. Vil ég nota tækifærið og þakka  stjórn félagsins fyrir kraftmikið starf og gefandi samstarf. Sömuleiðis þakka ég félagsmönnum fyrir ánægjuleg kynni og gott samstarf. Einnig vil ég koma á framfæri þökkum til Byggðasafns Hafnar-fjarðar sem gefið hefur mér tækifæri til að sinna félagstörfum fyrir FÍSOS síðastliðin sjö ár.
  Karl Rúnar Þórsson
  formaður FÍSOS