Fréttir

Aðalfundur FÍSOS og fræðslu fundur Safnaráðs þann 3.október 2014

Fyrir aðalfund FÍSOS var Safnaráð með fræðslufund um umsóknir í safnasjóð, skilgreiningu verkefna og aðra styrki. Markmið fundarins er að efla þekkingu þeirra sem sækja um styrki í sjóðinn á fyrirkomulagi sjóðsins, hvernig skilgreina skuli verkefni og kynna styrki Þróunarsjóðs EFTA á sviði menningarmála sem margar fyrirspurnir bárust um s.l. vor. Til máls tóku:
Ágústa Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs -Umsóknir í safnasjóð 2015. Eiríkur Stephensen, sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís: Um skilgreind verkefni. Þorgeir Ólafsson, upplýsingafulltrúi í mennta- og menningarmálaráðuneyti: Þróunarsjóður EFTA og menningarsamstar. Haraldur Þór Egilsson, forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri: Að horfa út fyrir sjóndeildarhringinn. Samstarf safna á norður- og austurlandi við Norður Noreg.

Aðalfundur FÍSOS

Stjórn situr óbreytt og kynnti Bergsveinn Þórsson formaður störf félagsins ásamt verkefnastýru, Elísabetu Pétursdóttur. Jón Allansson gjaldkeri kynnti ársreikning félagsins og skýrði einstaka liði. Fyrir hönd farskólastjórnar 2014 tóku Linda Ásdísardóttir og Helga Maureen Gylfadóttir saman hvernig til tókst í Farskóla safnmanna í Berlín 14.-18. september. Farskóli 2015 með þemað forvörslu, verður á Höfn í Hornafirði og Farskólastjóri verður Vala Garðarsdóttir.  Þóra Sigurbjörnsdóttir var með öfluga kynningu fyrir hönd aðgerðarhóps um þörf á að auka virði og gildi safnastarfs og hvaða fyrstu skref hópurinn ætlar að stíga til þess að auka verðmæti þessa starfa.

Aðalfundur FÍSOS og fræðslufundur Safnaráðs 3. október

Minnum á aðalfund FíSOS og fræðslufund Safnaráðs, föstudaginn 3. október.

Spennandi og áhugaverð dagskrá í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins frá 13:30-17:00
ALLIR HVATTIR TIL AÐ MÆTA

Dagskrá
kl.13:30-15:00
FRÆÐSLUFUNDUR SAFNARÁÐS
VERKEFNI, UMSÓKNIR OG AÐRIR STYRKIR

Safnaráð boðar til fræðslufundar þann 3. október kl. 13:30 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns um umsóknir í safnasjóð, skilgreiningu verkefna og aðra styrki. Markmið fundarins er að efla þekkingu þeirra sem sækja um styrki í sjóðinn á fyrirkomulagi sjóðsins, hvernig skilgreina skuli verkefni og kynna styrki Þróunarsjóðs EFTA á sviði menningarmála sem margar fyrirspurnir bárust um s.l. vor.

Dagskrá:
13:30 – Ágústa Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs -Umsóknir í safnasjóð 2015

13:50 – Eiríkur Stephensen, sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís: Um skilgreind verkefni

14:20 – Þorgeir Ólafsson, upplýsingafulltrúi í mennta- og menningarmálaráðuneyti: Þróunarsjóður EFTA og menningarsamstarf

14:50 – Haraldur Þór Egilsson, forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri: Að horfa út fyrir sjóndeildarhringinn. Samstarf safna á norður- og austurlandi við Norður Noreg.

Að fundi loknum verður boðið upp á kaffi frá kl.15:00-15:15 og þá tekur við

AÐALFUNDUR FÍSOS. 

Dagskrá aðalfundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2. Skýrsla formanns um störf félagsins. Skýrðir reikningar félagsins. Umræður um þessa liði og afgreiðslu þeirra.

a) Lagabreytingar. Það hefur lengi verið ætlunin að skerpa betur á mismunandi aðild safna og síðan safnmanna. Utanfélagsgjald t.d gjald fyrir þá sem taka þátt í farskóla en eru utanfélags.

3. Kosning í stjórn. Kosning fimm stjórnarmanna og tveggja varamanna.

4. Kosning skoðunarmanns reikninga til tveggja ára. Eins skoðunarmanns annað árið og annars skoðunarmanns hitt árið.

5. Ákveðið árgjald félagsmanna og stofnanna.

6. Farskóli.

a) Kosning farskólastjóra 2015

b) Uppgjör og umræður á farskóla í Berlín 2014.

7. Önnur mál.

a) Aðgerðir kynntar til að auka virði og verðmæti starfa á sviði safna.

Sarpur hlýtur Safnaverðlaunin

 

Íslensku safnaverðlaunin 2014 033

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhenti Íslensku safnaverðlaunin 2014 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, sunnudaginn 6. júlí. Var það Rekstrarfélag Sarps sem hlaut viðurkenninguna fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps og 1.000.000 kr. að auki.

Þrjú söfn hlutu tilnefningu árið 2014 – Hafnarborg, menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar sem tilnefnd er fyrir metnaðarfulla sýningardagskrá og samfélagslega virkni, Þjóðminjasafn Íslands fyrir dagskrá í tilefni 150 ára afmælis safnsins og Rekstrarfélag Sarps fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps.

Í umsögn valnefndar segir:

Rekstrarfélag Sarps er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps. Á árinu 2013 urðu þau tímamót í Íslensku safnastarfi að safnkostur þeirra safna sem eiga aðild að menningarsögulega gagnasafninu Sarpi varð aðgengilegur almenningi í gegnum veraldarvefinn. Þá var opnaður svo kallaður ytri vefur Sarps sem býður upp á leit í safnkosti 44 safna af ýmsum stærðum og gerðum. Ytri vefurinn er gátt inn í skráningarkerfi safnanna þar sem upplýsingar um safnkost þeirra er að finna. Fjársjóður sá, sem söfnin varðveita, er einstaklega fjölbreyttur; þar má finna margskonar brúkshluti, ljósmyndir, myndlistarverk af ýmsu tagi, lýsingu á þjóðháttum fyrr og nú ásamt upplýsingum um hús og margt fleira.

Ytri vefur Sarps er bylting í aðgengi almennings að upplýsingum um menningararfinn og skapar tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á safnkosti íslenskra safna til að finna upplýsingar, skoða, bera saman og deila. Vefurinn nýtist nemendum á öllum skólastigum og eykur möguleika á rannsóknum á menningararfinum.

Vefurinn gefur almenningi tækifæri til að bæta við þekkingarbrunninn í gegnum sérstakt athugasemdakerfi. Gagnasafnið er því lifandi og kvikt, tekur sífellt við nýjum upplýsingum, stækkar og batnar meðal annars með myndvæðingu þess.
Ytri vefur Sarps er mikilvægur til þess að söfnin í landinu séu virkir þátttakendur í upplýsingasamfélaginu og opnar gátt milli almennings og safna.

Tilnefningar til íslensku safnaverðlaunanna 2014

Íslensku safnaverðlauninÍslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Sem fyrr gátu almenningur, stofnanir og félagasamtök sent inn ábendingar um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. Í ár var söfnum í fyrsta skipti heimilt að senda inn kynningar á eigin verkefnum. Continue reading

Staða og framtíð safna

Þann 15. maí 2014 boðaði FÍSOS til málþingsins “Staða og framtíð safna” í samstarfi við Íslandsdeild ICOM og safnafræði við Háskóla Íslands, um boðleiðir styrkveitinga, tilfærslu og skiptingu safna á milli ráðuneyta og þekkingaruppbyggingu. Hér má sjá upptöku af málþinginu í fimm þáttum, ásamt glærum frummælenda. Continue reading

Söfn í þágu almennings eða stjórnmálamanna ? Staða og framtíð safna

Úthlutun forsætisráðherra á fyrri hluta ársins til ýmissa verkefna tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa vakti athygli. Vinnubrögðin voru gagnrýnd töluvert því svo virtist sem að ekki hafi verið gætt jafnræðis við úthlutun né aðilum sem starfa á þessu sviði veitt tækifæri til að sækja um hlutdeild í þessari fjárúthlutun.

Undanfarin ár hafa ýmsum sjóðum verið komið á fót til þess að sinna fjárveitingum ríkissjóðs á sviði menningar. Með sjóðum eins og Safnasjóði er reynt að tryggja að opinberu fé sé úthlutað með eins sanngjörnum og faglegum hætti eins og mögulegt er. Til samanburðar má nefna að úthlutun forsætisráðherra nam um 205 milljónum króna á meðan Safnasjóður hafði úr 120 milljónum króna að moða.

Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) gagnrýndi úthlutun forsætisráðherra á sínum tíma þar sem fjármunir á þessu sviði eru takmarkaðir. Ekki þarf að draga í efa að ráðherra gangi gott eitt til, en vinnubrögðin eru ekki til eftirbreytni.

Annað mál sem FÍSOS gagnrýndi og snýr að sama ráðuneyti er tilfærsla ríkisstjórnarinnar á málaflokkum tengdum söfnum. Nú er svo komið að Þjóðminjasafn og Minjastofnun Íslands heyra undir forsætisráðuneytið. Hið fyrrnefnda, eitt af þremur höfuðsöfnum landsins, er eina safnið í forsætisráðuneytinu! Á meðan málefni allra annarra safna heyra undir Mennta- og Menningarmálaráðuneytið. Bæði þessi mál vekja upp spurningar um framtíð safna, starfsumhverfi þeirra og fagleg vinnubrögð.

Söfn eru stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru flest rekin af almannafé. Þau varpa ljósi á listasögu, náttúru- og menningararf landsins. Þau varðveita, skrá og rannsaka þennan merkilega arf og með starfi sínu tryggja söfnin aðgengi að honum um ókomna framtíð.

Til þess að sátt ríki um störf safna er því mjög mikilvægt að fjárveitingar til þeirra séu ákvörðuð með sem bestum hætti. Annað hefur ekki eingöngu áhrif á jafnræði í úthlutun opinbers fés heldur hefur slæm fjársýsla einnig vond áhrif á orðspor safna meðal almennings.

Orðsporið viðhelst meðal annars með því að halda uppi faglegu starfi innan safna. Sem æðsta vald í safnamálum þarf hið opinbera að standa sig í stykkinu, það þarf að tryggja að fjárveiting sé sanngjörn og uppfyllir faglegar kröfur, eins þarf það að hafa á snærum sínum sérfræðinga sem þekkja fagið og geta framfylgt kröfum um jafnræði. Málefni safna þurfa því að eiga sér góðan samastað. Hvar sá staður er, skiptir ekki meginmáli. Það verður samt sem áður að liggja fyrir góður rökstuðningur fyrir því að höfuðsöfn séu færð til á milli ráðuneyta.

Auðvitað gleðjumst við yfir því að ráðamenn þjóðarinnar lýsi yfir áhuga á söfnum, minjavörslu og tengdri starfsemi. Það er ekki þar með sagt að slíkt eigi að ráða för í stefnumótun og umsýslu hins opinbera í þeim málaflokki.

FÍSOS er fagfélag safnafólks í landinu og boðar nú til málþings um stöðu og framtíð safna á fimmtudaginn (15. maí) í Odda stofu 101 kl.13-17 í samstarfi við Íslandsdeild ICOM og safnafræði við Háskóla Íslands. Helstu umræðuefni þingsins eru þekkingaruppbygging, boðleiðir styrkveitinga og tilfærsla og skipting safna á milli ráðuneyta. Nánari dagskrá og fyrirlesara má sjá á heimasíðu félagsins undir safnmenn.is . Allir velkomnir

Höfundur greinar: Bergsveinn Þórsson listfræðingur og safnafræðingur . Safnkennari Landnámssýningar og formaður Félags íslenskra safna og safnmanna, FÍSOS. bergsveinn.thorsson@reykjavik.is

 

Könnun – Sameina íslenska safnadaginn við Alþjóðlega safnadaginn árið 2015 ?

Vinsamlegast gefið ykkur örfáar mínútur til þess að svara könnun um hvort sameina eigi íslenska safnadaginn við Alþjóðlega safnadaginn 2015.

Í umræðu á póstlistanum í mars 2014 kom fram sú hugmynd hvort sameina ætti íslenska safnadaginn í júlí við Alþjóðlega safnadaginn þann 18. maí 2015. Margt mælir með þessu og ekki síst hið alþjóðlega samhengi. Söfn eru alþjóðleg fyrirbæri og undanfarin ár hafa 30 þúsund söfn í 120 löndum tekið þátt með ýmsum viðburðum í kringum alþjóðlega safnadaginn. Í umræðunni kom einnig kom fram það sjónarmið að blóðugt er fyrir söfn að hafa frítt inn í júlí á íslenska safnadaginn þegar ferðamannastraumurinn er sem mestur. Hins vegar eru mörg söfn lokuð í maí og spurning hvort þau gætu og vildu opna söfnin á þessum tíma ?  Mögulega þjónustað þannig nærsamfélagið þegar ferðamannastraumurinn er minni ?

Það er nauðsynlegt að fá álit fleiri aðila á þessu máli, til þess að stjórn FíSOS geti tekið upplýsta og málefnalega ákvörðun.  Því biðjum við sérstaklega forstöðumenn safna að svara þessari örstuttu könnun um sameiningu Íslenska safnadagsins við alþjóðlega safnadaginn árið 2015.

könnunin opnast í öðrum glugga:

https://www.surveymonkey.com/s/775YQVC

sm-namskeid

Örnámskeið í samfélagsmiðlum

FíSOS í samstarfi við Safnabókina verður með örnámskeið í samfélagsmiðlum fyrir safnafólk því að kostnaðarlausu frá kl. 10-12 þann 15. maí í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.  Safnafólk getur mætt með tölvuna sína og fengið aðstoð Önnu Lísu Björnsdóttur til þess að stofna Facebook síður, Twitter reikninga, Instagram og Pinterest.  Farið verður yfir hvernig er hægt að nota þessa miðla til kynningar á starfsemi safna og auka þannig sýnileika safnanna á samfélagsmiðlum.  Á námskeiðinu skoðum við sérstaklega hvernig söfn geta nýtt sér samfélagsmiðla á viðburðum eins og hinni árlegu safnaviku Twitter og Alþjóðadag safna þann 18. maí.

Vinsamlegast skráið ykkur með því að senda línu á elisabet@safnmenn.is

Við minnum einnig á að málþing FÍSOS í samstarfi við íslandsdeild ICOM og safnafræði HÍ “Staða og framtíð safna”, hefst klukkan 13:00 sama dag í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands og því tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi.

Íslensku safnaverðlaunin 2014

Íslensku safnaverðlaunin verða afhend í ár

Safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.

Óskað er eftir ábendingum frá almenningi, stofnunum og félagasamtökum um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. Söfnum er jafnframt heimilt að senda inn kynningar á eigin verkefnum.

Til greina koma sýningar, útgáfur og annað er snýr að þjónustu við safngesti jafnt sem verkefni er lúta að faglegu innra starfi svo sem rannsóknir og varðveisla.

Valnefnd tilnefnir þrjú söfn eða verkefni og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna og 1.000.000 króna að auki. Safnaverðlaunin verða veitt í níunda sinn á íslenska safnadaginn 13. júlí 2014.

Ábendingum skal skilað í síðasta lagi 20. maí 2014.

Sendist:

Safnaverdlaun2014@icom.is

eða:

Safnaverðlaunin 2014, Pósthólf: P.O. Box 1489, 121 Reykjavík

Íslandsdeild ICOM – ALþjóðaráðs safna og FÍSOS – Félag íslenskra safna og safnmenna standa saman að verðlaununum.

malthing

Málþing um stöðu og framtíð safna

Málþing 15.maí 2014 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands kl.13-17

FÍSOS, félag íslenskra safna og safnmanna í samstarfi við Íslandsdeild ICOM og safnafræði HÍ stendur fyrir málþingi 15. maí. Meginmarkmið þingsins er að veita upplýsingar og skapa málefnalegan vettvang til þess að ræða mál sem söfn þurfa að fá skýr svör við.

Dagskrá

13:00 Allt í kerfi? Um flökkulíf safna og fasta búsetu. Bergsveinn Þórsson formaður FÍSOS

13:30 Tilfærsla safna innan mennta og -menningarmála ráðuneytis. Ragnheiður H. Þórarinsdóttir deildarstjóri skrifstofu menningarmála, mennta og- menningarmálaráðuneyti

14:00 Kaffihlé

14:15 Staða þekkingaruppbyggingar og rannsókna. Sigurjón B. Hafsteinsson dósent við Háskóla Íslands

14:50 Boðleiðir styrkveitinga. Katrín Jakobsdóttir þingmaður vinstri grænna og fyrrverandi menntamálaráðherra

15:30 Kaffihlé

15:45 Pallborðsumræður fyrirlesarar sitja í pallborði ásamt Margréti  Hallgrímsdóttur, skrifstofustjóra skrifstofu menningararfs hjá forsætisráðuneytinu.

17:00 Málþingi slitið

Málþingið verður tekið upp í hljóði og mynd

Sarpur

Sarpur og safnastarf

Í umræðunni um hækkanir hjá Sarpi hefur verið kallað eftir viðbrögðum stjórnar FÍSOS í þessu máli og að stjórnin beiti sér með einhverjum hætti. Umræðan hefur snúist um óvænta hækkun sem söfn eru misvel í stakk búin til að bregðast við. Fjárhagur safna er gjarnan þannig að ekki má við óvæntri hækkun sama hvers eðlis hann er.

Ef við byrjum á þessu óvænta, þá eru eflaust ýmsar leiðir færar til þess að draga úr óvissunni þegar kemur að kostnaði aðildarsafna að Rekstrarfélagi Sarps (RS). Nefna má aukið upplýsingaflæði, það er á ábyrgð allra sem eiga aðild að RS (stjórnar, safna, framkvæmdarstjóra o.s.frv.) Ef söfn víða um land eiga erfitt með að sækja aðalfundi í Reykjavík má jafnvel hugsa sér möguleikann á því að halda aðalfundinn í samhengi við farskóla, fyrir eða eftir. Svo er auðvitað ýmsar lausnir til staðar í upplýsingatækni nútímans!

Hækkunin er síðan annar handleggur í umræðunni. Er það óeðlilegt að með auknu umfangi fylgi aukinn kostnaður? Hvað er eðlilegt að söfn greiði fyrir gagnagrunn sem þennan? Á Sarpur að stækka eða standa í stað? Opnun sarps á netinu er gott dæmi um vöxt. Aðgangur fyrir almenning er gríðarlega mikilvægur fyrir safnastarf í landinu. Það er öllum söfnum í hag að almenningur átti sig á mikilvægi þess að söfn séu til, að söfn haldi utan um menningararfinn. Má því ekki segja að það sé þá frekar tilefni til að blása til sóknar heldur en að draga saman?

Stjórn FÍSOS gerir sér fyllilega grein fyrir þeim fjárhagsvanda sem flest söfn standa frammi fyrir og að hækkun sem þessi getur haft áhrif á annað safnastarf. Þeim er því vandi á höndum. Sá vandi, að mati stjórnar FÍSOS, felst þó síður í hækkunum á greiðslum til Sarps en, að öllum líkindum, fremur í slæmu aðgengi safna að nauðsynlegu fjármagni sem þarf í reksturinn. Það aðgengi má að mörgu leyti rekja til þess að eigendur safna sjá hvorki né skilja fjármagnsþörf safna. Það er á því sviði sem stjórn FÍSOS telur eðlilegt að íhlutun eigi sér stað. Gera þarf eigendum safna grein fyrir því að skráning og aðgengi að gögnum er lykilatriði í safnastarfi. Söfnin þurfa að fjárfesta í slíku tæki og þegar umræðan um Sarp er annars vegar er mikilvægt að draga fram kosti Sarps. Það þarf að styrkja rökstuðning fyrir því hversu þýðingarmikill þessi liður er í faglegu safnastarfi. Þar er komið inn á hlutverk FÍSOS, en markmið félagsins eru m.a. að auka þekkingu og fræðslu á söfnum og safnastarfi.

Getur verið að rót vandans liggi í viðhorfum til faglegs safnastarfs? Jafnvel skilningsleysi samfélagsins? Og þar sem flest söfn hér á landi eru rekin af sveitarfélögunum endurspeglast samfélagsviðhorfin í sveitarstjórnum sem síðan mynda stjórnir safna. Er ekki raunverulegi vandinn í þessu öllu saman að hækkunin komi sér verulega illa fyrir mörg söfn?

Umræðan á vissulega rétt á sér. Hins vegar held ég að það sé ekki hlutverk FÍSOS að skipta sér að rekstri RS eða að benda á leiðir til sparnaðar, hagræðingar eða álíka. Miklu frekar ætti að huga að leiðum til að stuðla að áframhaldandi framþróun Sarps, þar sem um er að ræða gríðarlega mikilvægt tæki í safnastarfi á landinu. Hlutverk FÍSOS í þeim efnum er að efla þekkingu á faglegu safnastarfi. Sem skilar sér með auknum skilningi eigenda safnanna á mikilvægi alls starfs þeirra, að kostnaður við skráningu er jafnsjálfsagður og kostnaður við sýningargerð.

FÍSOS vinnur nú hörðum höndum að því að auka sýnileika félagsins, gera það að gildandi talsmanni faglegs safnastarfs. Við höfum fengið starfsmann til liðs við okkur, á dagskránni er málþing og fyrirlestraröð m.a. Ýmsar leiðir eru færar og auðvitað eru allar hugmyndir félagsmanna vel þegnar!

Verkefnastjóri FÍSOS

Elísabet Pétursdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri FÍSOS og mun hún starfa í umboði stjórnar félagsins. Um er að ræða tímabundið starf sem felst  í því að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem félagið vill koma í framkvæmd.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að endurskoða hlutverk FÍSOS, meðal annars vegna nýrra safnalaga. Árið 2011 var breyting á lögum félagsins samþykkt sem gerir stjórn kleift að ráða til sín starfsmann til að annast daglegan rekstur félagsins. Á sama ári var samþykkt að stofnað yrði til samráðshóps sem ynni skýrslu um breytt hlutverk félagsins, í kjölfarið leit skýrslan Framtíð FÍSOS dagsins ljós.

FÍSOS stendur á tímamótum sem samráðsvettvangur allra safna og safnmanna og þar af leiðandi er mikilvægt að efla sýnileika félagsins, ekki síst til þess að gera félagið meira gildandi í faglegri umræðu um starfsemi safna. Þau verkefni sem eru á döfinni hjá FÍSOS verða vonandi til þess að styrkja starfsemi félagsins enn frekar. Ráðning verkefnastjóra fyrir félagið er skref í þá átt að efla félagið sem mun koma til góðs fyrir öll söfn í landinu og faglegt safnastarf.

Elísabet Pétursdóttir er með meistaragráðu í safnafræði frá Háskóla Íslands, og BA gráðu í þjóðfræði frá sama skóla. Lokaritgerð hennar í safnafræði fjallaði um safngestarannsóknir, hlutverk þeirra, aðferðir og væntingar. Nýlega hélt hún fyrirlestur um það efni á vegum þjóðfræðingafélagsins. Hún lauk starfsnámi í Víkinni – Sjóminjasafni og hafði áður unnið á Ljósmyndasafni Reykjavíkur meðal annars.

Elísabet hefur nú þegar tekið til starfa og hafið undirbúning á málþingi, sem áætlað er að halda um miðjan maí og fyrirlestraröð sem hefst í lok apríl. Þar að auki mun hún stýra hugmyndavinnu um eflingu heimasíðu félagsins og halda utan um ýmsa þætti sem snerta íslenska safnadaginn.

FÍSOS gagnrýnir úthlutun

Félag íslenskra safna og safnmanna gagnrýnir það verklag sem var viðhaft við úthlutun fjármagns af fjárlagalið græna hagkerfisins til minja- og húsverndar. Undanfarin ár hefur úthlutun styrkja verið komið í faglegri farveg í gegnum opinbera fagsjóði þar sem umsóknir eru metnar af fjölskipuðum fagnefndum, t.d. fornminjasjóð, safnasjóð og húsverndarsjóð. Fjármunir til málaflokksins eru takmarkaðir og gagnrýnivert að úthlutað skuli án möguleika á umsóknum og framhjá þeim verkferlum sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár.

Málefni safna: Forsætisráðuneytið og græna hagkerfið

Þann 22. janúar, síðastliðinn, fjallaði stjórn félagsins á stjórnarfundi um málefni tengd forsætisráðuneytinu. Heyrst hafði af því að ráðuneytið væri að veita styrki til ýmissa verkefna sem tengjast verndun menningartengdra byggða og fornleifa m.a. Um er að ræða lið 01-305 á fjáraukalögum 2013 sem kallast “Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl”.

Mig langar að ræða þetta mál aðeins nánar í von um að umræður skapist á meðal okkar um það. Margir félagsmenn þekkja eflaust til þessa máls að því leyti að vera handhafi styrks frá ráðuneytinu. Athygli vakti þó að aðdragandi þessarar úthlutunar var nánast enginn og ræddi stjórn félagsins það sérstaklega þar sem þetta snertir starf safna hér á landi. Þrátt fyrir að auknu fjármagni til málaflokksins beri að fagna má setja spurningarmerki við úthlutunina.

Um er að ræða umtalsverðar fjárhæðir, eins og kemur í ljós á mynd sem birtist á facebook síðu Minjastofnunar Íslands. Þar eru styrkirnir sagðir veittir vegna ákvörðunar forsætisráðherra til atvinnuskapandi verkefna. Samtals eru þetta 205 milljónir, til samanburðar má benda á að framlag hins opinbera til safnasjóðs eru 120 milljónir fyrir árið 2014. Hafa þarf samt í huga að styrkir forsætisráðuneytis ná einnig til verkefna á sviði húsafriðunar og fornminja. Þrátt fyrir að féð sé ekki eingöngu eyrnamerkt safnastarfi, snertir þessi úthlutun söfn landsins, safnastarf og þar af leiðandi FÍSOS.

Hér má sjá lista yfir þau verkefni sem hljóta styrki samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra

Hér má sjá lista yfir þau verkefni sem hljóta styrki samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra

Í þeirri litlu fjölmiðlaumfjöllun sem hefur átt sér stað um málið hefur ekkert annað komið fram en að úthlutun af fjárliðnum Græna hagkerfið… sé ákveðin af forsætisráðherra sjálfum. Hér þarf ekki að draga í efa að ráðherra gangi gott eitt til, en hins vegar má gagnrýna vinnubrögðin. Hvaða rök liggja að baki ákvörðun um úthlutun? Var haft eitthvert samráð við fagaðila vegna úthlutunar? Var jafnræðis gætt við úthlutun? Hvers vegna var fagaðilum sem fara með málaflokkinn ekki gefinn kostur á að sækja um styrki eða hafa eitthvað með það að segja hvar fjármunum yrði best varið?

Málið hefur fengið örlitla umfjöllun á Alþingi, en Brynhildur Pétursdóttir, þingkona, hefur sent fyrirspurn til forsætisráðherra um menningarminjar og græna hagkerfið. Þar óskar hún skriflegra svara við þeim spurningum sem hún leggur fram. Spurningarnar ná vel utan um málið og það verður upplýsandi að sjá svörin þegar þau berast.

Þetta mál verður að setja í samhengi við tilfærslur ýmissa menningartengdra málaflokka á milli ráðuneyta. Þar ber helst að nefna flutning Þjóðminjasafns Íslands til forsætisráðuneytis, ásamt minjasöfnum! Stjórn FÍSOS sendi mennta- og menningarmálaráðuneyti og forsætisráðuneyti fyrirspurn vegna þessa flutnings skömmu eftir að fréttist af flutningum. Lítið hefur borið á svörum hvernig ráðuneytin ætla að takast á við þessar breytingar. Síðan þá hefur það hins vegar gerst að Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, var skipuð skrifstofustjóri  nýrrar skrifstofumenningararfs hjá forsætisráðuneytinu. Það verður því vonandi eitthvað að frétta þaðan á næstunni.

Ekki veit ég hvort að þessi fjárliður muni síðar fara í gegnum nýja skrifstofu menningararfs, stjórn FÍSOS bíður enn svara vegna þessara breytinga. Þær snerta safnastarf landsins og sérkennilegt verður að teljast að slíta málefni minjasafna frá mennta- og menningarmálaráðuneyti sem hefur enn með lista- og náttúruminjasöfn að gera. Skipulag safnamála hér á landi er hins vegar ekki þess eðlis að engu megi breyta og það má vel vera að þessar breytingar verði til góðs, ef vel verður að þeim staðið.

Hingað til hefur þó lítið borið á svörum og ákvörðun forsætisráðherra um útlhutun styrkja er enn önnur óvænt uppákoman. Þetta má ekki vera það sem koma skal og leggja verður áherslu á samráð við fagaðila þegar það kemur að fjárveitingum hins opinbera til safnatengdra málefna. Gagnsæi á líka við hér.

Segja má að hér sé verið að fara af þeirri braut sem mörkuð var með skýrslu Ríkisendurskoðunar “Íslensk muna- og minjasöfn. Meðferð og nýting á ríkisfé” frá árinu 2009. Brugðist var við mörgum af þeim ábendingum sem þar komu fram, meðal annars áréttingu um að auka forræði Mennta- og Menningarmálaráðuneytis með safnamálum.

Það er mjög mikilvægt að fjármál safna og  tengdrar starfsemi séu gagnsæ og uppi á borði. Annað hefur ekki eingöngu áhrif á jafnræði í úthlutun opinbers fés heldur hefur slæm fjársýsla einnig vond áhrif á orðspor safna meðal almennings. Í þessu máli skiptir ekki máli hver fær hvaða styrki, heldur fyrst og fremst að allir fái tækifæri til að sækja um styrk og að úthlutun þeirra fari fram með eins sanngjörnum hætti og mögulegt er.

Bergsveinn Þórsson, formaður FÍSOS

Skráning hafin á farskóla í Berlín 2014!

Loksins er komið að því að skrá sig í farskólann í Berlín á næsta ári.

Skráning fer fram hér

Að lokinni skráningu þarf að greiða staðfestingargjald, 25.000 kr, fyrir 22. janúar inná reikning:

 • reikn. 301-13-250698
 • kt. 441089-2529

Mikilvægt að setja útskýring greiðslu: Berlín2014 og nafn eða upphafsstafi viðkomandi.

Fyrirspurnir má senda á farskoli2014@safnmenn.is

 

Ferðin

Farskóli FÍSOS – félag íslenskra safna og safnmanna

 • Staður: Berlín
 • Hótel: Leonardo Royal
 • Tímabil: sun. 14. – fim. 18. september 2014 , með kost á því að framlengja. (Eftir atkvæðagreiðslu var meirihlutinn hlynntur þessum dögum)
 • Verð: 102,700 ISK miðað við tveggja manna herbergi.
 • 127,900 ISK miðað við einstaklingsherbergi.
 • Innifalið: Flug með sköttum, taska, gisting og morgunverður og akstur til og frá flugvelli
 • Fjöldi: Tilboð miðað við þátttöku 70 manns.

Mjög bráðlega verða fyrstu drög af dagskrá tilbúin en þangað til látum við okkur dreyma um ferðina sem verður ekkert nema herlichen!

Bestu kveðjur frá Farskólastjórn

Helga Maureen Gylfadóttir, Inga Láru Baldvinsdóttir, Ólafur Axelsson og Linda Ásdísardóttir

Aðalfundur FÍSOS – fundarboð

Stjórn FÍSOS boðar til aðalfundar þann 26. september næstkomandi kl. 12:00. Fundurinn verður haldinn í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Fundurinn er hluti af dagskrá Farskólans.

Dagskrá aðalfundar:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Skýrsla formanns um störf félagsins. Skýrðir reikningar félagsins. Umræður um þessa liði og afgreiðslu þeirra.
 3. Kosning í stjórn. Kosning fimm stjórnarmanna og tveggja varamanna.
 4. Kosning skoðunarmanns reikninga til tveggja ára. Eins skoðunarmanns annað árið og annars skoðunarmanns hitt árið.
 5. Farskóli 2014: Kynning og umræður.
 6. Íslenski safnadagurinn: Umræður.
 7. Önnur mál.

 

Yfirlýsing vegna Náttúruminjasafns Íslands

Stjórn Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) skorar á stjórnvöld að tryggja langþráða og nauðsynlega uppbyggingu á starfsemi Náttúruminjasafns Íslands.

Náttúruminjasafn Íslands er eitt höfuðsafnanna þriggja sem eru í eigu hins opinbera og eiga lögum samkvæmt að vera leiðandi í faglegu safnastarfi hvert á sínu sviði. Í 4. grein Íslenskra safnalaga segir:

Höfuðsöfn eru í eigu ríkisins og eru miðstöðvar safnastarfsemi hvert á sínu sviði. Þau eru stofnuð með lögum þar sem nánar er kveðið á um starfsemi þeirra.

Þar segir einnig í 1. grein laganna:

Í lögum þessum er kveðið á um skipulag safnastarfs í þeim tilgangi að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn.

Ríkissjóði ber að tryggja rekstrargrundvöll náttúruminjasafnsins og sjá til þess að stofnunin geti sinnt sínu hlutverki eins og er skilgreint í safnalögum. Í ljósi nýlegrar fjölmiðlaumfjöllunar þykir okkur ástæða til þess að hvetja stjórnvöld til þess að tryggja uppbyggingu safnsins. Starfsemi safnsins má ekki leggjast í dvala eða sitja áfram fast í þeirri stöðu sem stofnunin hefur glímt við síðan hún varð til í núverandi mynd árið 2007.

Nú þegar loksins sér fyrir endann á sorgarsögu lykilstofnunar í íslenskum náttúrufræðum, má ekki bugast heldur þarf ríkissjóður að standa undir lagalegum skyldum sínum og byggja upp höfuðsafn sem íslenskt samfélag getur verið stolt af!

Stjórn FÍSOS

Framhalds-Aðalfundur

Stjórn FÍSOS boðar til framhaldsaðalfundar þriðjudaginn 5. febrúar kl. 20:00. Fundurinn verður haldinn í Kornhúsinu, Árbæjarsafni.

Dagskrá fundar:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Hækkun félagsgjalda.
3. Nýútkomin skýrsla vinnuhóps um breytingar og endurmat á FÍSOS kynnt.
4. Farskóli FÍSOS 2013 og 2014.
5. Önnur mál.

Á aðalfundi FÍSOS sem haldinn var 20. september síðastliðinn í Hofi á Akureyri var ákveðið að halda áfram með fundinn eftir útgáfu skýrslu vinnuhóps um breytingar og endurmat á FÍSOS, en á fundinum voru drög að skýrslunni kynnt og félagsmenn hvattir í framhaldinu til að koma með athugasemdir. Nú hefur vinnuhópurinn lokið störfum sínum og er skýrslan aðgengileg hér. Félagsmenn eru hvattir til að mæta á fundinn og taka þátt í umræðum um það hvort breytinga sé þörf.

Léttar veitingar í boði.

Stjórn FÍSOS boðar til aðalfundar

Stjórn FÍSOS boðar til aðalfundar þann 20. september næstkomandi kl. 12:00. Fundurinn verður haldinn í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Dagskrá aðalfundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla formanns um störf félagsins. Skýrðir reikningar félagsins. Umræður um þessa liði og afgreiðsla þeirra.
3. Kosning skoðunarmanns reikninga til tveggja ára. Eins skoðunarmanns annað árið og annars skoðunarmanns hitt árið.
4. Kosning farskólastjóra til eins árs
5. Starfshópur um breytt hlutverk FÍSOS kynnir drög að skýrslu um breytingar á félaginu í kjölfar nýrra safnalaga.Umræður.
6. Safnabókin. Umræður
7. Önnur mál.

Kveðja,
Stjórnin

Íslensku Safnaverðlaunin 2012

Íslensku safnaverðlaunin voru veitt á Bessastöðum 8. júlí síðast liðinn. Að þessu sinni hlaut Menningarmiðstöð Þingeyinga verðlaunin fyrir endurnýjun á grunnsýningu Byggðasafns Suður-Þingeyinga í Safnahúsinu á Húsavík. Sif Jóhannesdóttir, forstöðukona Menningarmiðstöðvarinnar, veitti verðlaununum viðtökum fyrir hönd Byggðasafns Suður-Þingeyinga, sem heyrir undir menningarmiðstöðina. Í umsögn dómnefndar um safnið segir:

Grunnsýningin Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum var opnuð í Byggðasafni Suður-Þingeyinga í Safnahúsinu á Húsavík árið 2010. Opnun sýningarinnar markaði endapunkt umfangsmikilla breytinga á Safnahúsinu. Í stað hefðbundinnar aðgreiningar á menningu og náttúru er valin sú leið að draga upp mynd af sögu byggðarinnar í samspili manns og náttúru. Menningarminjar og náttúrugripir eru þannig settir í nýtt og spennandi samhengi.
Uppsetning sýningarinnar er þaulhugsuð og aðlaðandi. Sýningarrýmið er haganlega nýtt þannig að sýningargripir og textar vekja forvitni gesta. Að baki sýningunni liggur hugmyndavinna hóps einstaklinga sem koma úr ýmsum áttum og leggja til verkefnisins reynslu á sviði ólíkra fræðigreina, lista og hönnunar. Sú vinna skilaði sér í fjölbreyttri og ferskri nálgun og fleiri sjónarhornum en oft sjást í sýningum af þessum toga.

Tilnefningar til verðlaunanna voru þrjár. Auk grunnsýningarinnar í Húsavík var Listasafn Einars Jónssonar tilnefnt fyrir nýja heimasíðu. Þjóðminjasafn Íslands var einnig tilnefnt fyrir útgáfu Handbókar um varðveislu safnkosts. Í umsögnum dómnefndar um heimasíðuna og handbókina segir:

Ný heimasíða Listasafns Einars Jónssonar er áfangi í þeirri viðleitni að gera byggingu og list Einars aðgengilega almenningi á áhugaverðan hátt. Vefsíðan gefur góða mynd af verkum listamannsins um leið og gerð er grein fyrir sögu safnsins sjálfs og hugmyndafræði Einars. Ýmsar heimildir um Einar og list hans eru gerðar aðgengilegar og þannig er lærðum og leikum gefin innsýn í hugarheim listamannsins og ferilinn á bak við verkin í safninu og í garðinum. Í textum og myndbandsupptökum er teflt saman fræðandi lýsingum listfræðings á nokkrum af helstu verkum Einars og hugrenningum almennra safngesta tengdum upplifun af sömu verkum. Þótt mikið efni sé birt á síðunni er jafnframt gert ráð fyrir áframhaldandi þróun. Vefsíðan er afar aðgengileg og auðveld í notkun. Hún er fallega hönnuð og vel unnin og textar eru bæði á íslensku og ensku.

Handbók um varðveislu safnkosts er gott dæmi um viðleitni Þjóðminjasafns, höfuðsafns þjóðminjavörslu, til þess að miðla þekkingu til safnmanna sem starfa við ólíkar aðstæður á söfnum landsins. Rannsókna- og varðveislusvið safnsins hefur um árabil staðið að því að auka þekkingu safnmanna á aðferðum fyrirbyggjandi forvörslu og mikilvægi réttrar meðhöndlunar safngripa. Á síðustu árum hafa jarðskjálftar og eldgos endurtekið ógnað menningararfi þjóðarinnar og um leið sýnt fram á mikilvægi fyrirbyggjandi forvörslu við að tryggja öryggi safnkostsins. Handbókin byggir á íslenskum aðstæðum og er að hluta frumsaminn en forverðir og ýmsir sérfræðingar hafa þýtt og staðfært annað. Bókin er gefin út rafrænt og er gert ráð fyrir því að hægt verði að bæta við hana. Eitt af markmiðum aðstandenda er að efnið sé aðgengilegt þar sem almenningur, félög, fyrirtæki og stofnanir aðrar en söfn varðveita stóran hluta menningararfsins. Þannig er útáfan ekki aðeins þýðingarmikil fyrir opinber söfn á landinu heldur einnig fyrir einkaaðila sem bera ábyrgð á sameiginlegum menningararfi þjóðarinnar. Handbók um varðveislu safnkosts er unnin að frumkvæði forvarða á Þjóðminjasafni Íslands en einnig komu að verkefninu Þjóðskjalasafn Íslands og Landsbókasafn – Háskólabókasafn.

Íslandsdeild ICOM (Alþjóðaráðs safna) og Félag íslenskra safna og safnmanna standa saman að íslensku safnaverðlaununum sem veitt eru annað hvert ár safni sem með starfsemi sinni þykir skara fram úr. Dómnefnd útnefnir þrjú söfn og hefur til hliðsjónar innsendar hugmyndir en auglýst er eftir ábendingum frá almenningi, félagasamtökum og fagaðilum. Dómnefndin er skipuð fulltrúum félaganna tveggja og fulltrúa frá því safni sem síðast hlaut verðlaunin. Í ár bárust rúmlega fjörutíu ábendingar. Verðlaunin voru nú veitt í áttunda sinn en voru fyrst veitt árlega. Eftirtalin söfn hafa fengið íslensku Safnaverðlaunin: Síldarminjasafnið á Siglufirði árið 2000, Listasafn Reykjavíkur – fræðsludeild 2001, Byggðasafn Árnesinga 2002, Þjóðminjasafns Íslands – myndasafn 2003, Minjasafn Reykjavíkur 2006, Byggðasafn Vestfjarða 2008, Nýlistasafnið í Reykjavík 2010.

Við óskum Menningarmiðstöð Þingeyinga til hamingju með verðlaunin og sendum Listasafni Einars Jónssonar og Þjóðminjasafni Íslands hamingjuóskir með tilnefningarnar.

Drög að skýrslu farskólastjórnar 2011

Kæru safnmenn

Hér getur að líta drög að skýrslu Farskóla 2011. Þar má m.a. sjá samantekt eða niðurstöður af umræðum í hópastarfi.
Viljum við þakka ykkur fyrir þátttöku í umræðunum, sem og hópstjórum fyrir að leiða þær.

Drög að farskólaskýrslu 2011
Hér með fá félagsmenn tækifæri til þess að kynna sér þessi skýrsludrög og gera athugasemdir ef þeir telja þörf.
Menn geta tjáð sig um þær á póstlista safnmanna, eða sent athugasemdir á undirritaða:

Guðbrandur Benediktsson – gudbrandur.benediktsson hja reykjavik.is
Sigríður Sigurðardóttir – bsk hja skagafjordur.is

Við ráðgerum að opið verði fyrir athugasemdir fram til 1. desember, en fljótlega eftir þann tíma lítur lokaskýrslan dagsins ljós.

Kveðjur
Farskólanefnd