Fréttir

Heiðursfélagi FÍSOS 2019 – Ólafur Axelsson

Ólafur á flugi. Ljósm. Hörður Geirsson.

Nú, á síðasta aðalfundi FÍSOS, sem haldinn var 2. október 2019 í Skjaldborgarbíó á Patreksfirði, var Ólafur Axelsson útnefndur heiðursfélagi FÍSOS.

Í umsögn stjórnar segir: ” Heiðursfélagi FÍSOS árið 2019 er Ólafur Axelssson. Ólafur hefur verið öflugur félagi í FÍSOS til fjölda ára. Hann ber hag félagsins fyrir brjósti og er vakinn og sofinn fyrir framgangi þess, þá sérstaklega reikningum félagsins sem hann fylgist með haukfránum augum. Ólafur efur verið dyggur talsmaður farskóla félagsins og er eftirtektarvert hve hann hefur lagt sig fram við að kynnast félagsmönnum.  Hans heimspeki er sú að hann lítur á skólann líkt og ættarmót og auðvita situr maður ekki hjá sínum nánustu ættingum heldur gerir sér far um að kynnast sem flestum. Ólafur er af Árbæjarsafnsfjölskyldunni (ef við höldum áfram með ættarmótalíkinguna) en hann fór á eftirlaun árið 2014 eftir að hafa starfað við safnið í um 30 ár. Ólafur var vel liðinn af samstarfsfólki, enda skemmtilegur, fljótur til verka og með ljúfa lund.”

Brugðið á leik á farskóla. Ljósm. Hörður Geirsson.

Ólafur hafði ekki tök á að sækja aðalfundinn en fyrir hans hönd tók Hanna Rósa Sveinsdóttir við heiðurskjalinu og flutti fundarmönnum kveðjur og þakklæti frá Ólafi.

Fimmtudaginn 17. október færðu fulltrúar stjórnar FÍSOS Ólafi heiðurskjalið og blómvönd með kærum þökkum fyrir þátttöku hans í starfi félagsins.

Ólafur Axelsson heiðursfélagi FÍSOS 2019. Ljósm. Anna Lísa Guðmundsdóttir

Kvistur – Nýjasta tölublað komið í hús!

Nýjasta tölublað Kvists er komið út! Þeir félagar sem greitt hafa félagsgjöld fá eintak af blaðinu. Blaðinu var dreift á Farskóla FÍSOS 2019 á Patreksfirði og nú mánudaginn 14. október sl. var blaðið sent með bréfpósti til annarra félagsmanna og annarra áskrifanda. Þá verða eintök af blaðinu til sölu í Bóksölu stúdenda á Háskólatorgi.

Efst á baugi í sjötta tölublaðinu eru söfn og umhverfi:

 • Fjallað er um aðgerðir og áskoranir safna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
 • Blaðið inniheldur einnig umfjöllun um nýja safnaskilgreiningu alþjóðaráðs safna, ICOM.
 • Fjórir safnamenn líta um öxl á 30 ára afmæli Farskóla safnamanna.
 • Rýnt er í nýútkomnar bækur, Sögu listasafna á Íslandi og 130 verk úr safneign Listasafns Íslands og sýningarnar Vatnið í Náttúru Íslands og Sölva Helgason og William Morris.

Stjórn FÍSOS  færir ritstjórn Kvists, Ingu Láru Baldvinsdóttur, ritstjóra, Sigrúnu Kristjánsdóttur, Ágústu Kristófersdóttur, Sigurjóni Baldri Hafsteinssyni,og Ingunni Jónsdóttur, bestu þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag við að setja saman fróðlegt, faglegt og skemmtilegt blað sem dregur fram það mikla starf og ábyrgð sem safnastarfið er.

Ef einhver dráttur verður á að blaðið berist félagsmönnum í hendum er þeim bent á að hafa samband við stjórn félagsins, stjorn hjá safnmenn.is

Námskeið FÍSOS – Uppsetning gripa á sýningum. Hvað skal hafa í huga og hvernig skal framkvæma það?

Uppsetning gripa á sýningum getur verið vandasamt verk.  Bæði þarf að huga að fagurfræðilegri uppsetningu gripsins sem og hvað er honum fyrir bestu þegar kemur að varðveislu.

Á námskeiðinu, sem er bæði bóklegt og verklegt, verður farið yfir þau atriði sem hafa áhrif á varðveislu safngripa á sýningum, svo sem val sýningarskápa, efni í uppsetningu, raka-og hitastig, umhverfi, birtuskilyrði, hvaða gripir eiga saman o.s.frv. Kennt verður að búa til einfaldar uppsetningar (montering) fyrir ólíka safngripi úr mismunandi efnum.

Markhópur: Starfsmenn safna og aðrir félagsmenn FÍSOS sem setja upp sýningar með safngripum.

Staðsetning: Kornhúsið, Árbæjarsafni, Kistuhyl 4, 110 Reykjavík.

Tími og dagsetning: föstudaginn 15. nóvember 2019, kl. 9:00 – 16:00.

Leiðbeinendur: Nathalie Jacqueminet, forvörður og safnafræðingur ásamt Ingibjörgu Áskelsdóttur forverði og safnafræðingi.

 


Dagskrá

Kl.09:00-10:00

Fagurfræðileg uppsetning safngripa og varðveisluskilyrði: vinnuferlar og samtöl.

kl.10:00-10:15 Kaffi og umræður.

kl.10:15-11:15 Umgjörð sýninga: val á skápum, efni, lýsing, umhverfiskilyrði og öryggi gripa.

kl.11:15-12:15 Rýnt í uppsetningu gripa á sýningunni Hjúkrun í 100 ár á Árbæjarsafni.

kl.12:15-13:00 Hádegisverður.

kl.13:00-16:00 Gerð uppsetninga. Þáttakendur læra að búa til nokkrar mismunandi tegundir af uppsetningum fyrir ólíka gripi. Sýnikennsla og æfing.

Hámarksfjöldi þátttakenda: 12 manns

Verð: kr.9.500

Innifalið: efni, verkfæri, hádegisverður og kaffi

Skráning hér: https://forms.gle/iv2eJPg5M9adPTwb8

Skráningarfrestur er til 5. nóvember 2019


Greiðsluseðill verður sendur að skráningu lokinni og námskeiðið greiðist fyrirfram.

Spurningar sendist á Ingibjorg.Askelsdottir@reykjavik.is eða nathalieforvordur@gmail.com

Námskeiðið er styrkt af safnasjóði og Borgarsögusafni Reykjavíkur.

FÍSOS – framboð til stjórnar 2019-2020

Nú á aðalfundi félagsins miðvikudaginn 2. október 2019 á Patreksfirði verða eftirfarandi embætti laus til umsóknar: varaformaður, gjaldkeri, ritari, meðstjórnandi og skoðunarmaður reikninga.

Stjórn óskaði eftir framboðum í þessi embætti þann 29. ágúst 2019 eins og lög félagsins gera ráð fyrir .

Eftirfarandi framboð hafa borist:

o             Gunnþóra Halldórsdóttir, verkefnastjóri, Kvikmyndasafn Íslands –

framboð til varaformaður

o             Jón Allansson, deildarstjóri Byggðsafnið að Görðum – framboð til

gjaldkera

o             Ingibjörg Áskelsdóttir, verkefnastjóri Borgarsögusafni Reykjavíkur –

framboð til ritara

o             Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður, Grasagarður Reykjavíkur – framboð

til varamanns.

 

Kær kveðja, stjórn FÍSOS

 

Í stjórn félagsins 2018-2019 sitja:

Formaður: Helga Maureen, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Varaformaður: Gunnþóra Halldórsdóttir, Kvikmyndasafn Ísland.

Gjaldkeri: Jón Allansson, Byggðasafnið á Görðum.

Ritari: Ingibjörg Áskelsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Meðstjórnandi: Ásdís Þórhallsdóttir, Listasafn Reykjavíkur.

Varamenn:Hjörtur Þorbjörnsson, Grasagarður Reykjavíkur og Sigríður Þorgeirsdóttir, Þjóðminjasafn Íslands.

Námskeið með Ninu Simon – FRESTAÐ

Námskeiði Ninu Simon, sem halda átti 12. október, hefur verið frestað.

Ný dagsetning verður ákveðin og tilkynnt síðar.

FÍS – félag íslenskra safnafræðinga, FÍSOS – Félag íslenskra safna og safnmanna og Námsbraut í safnafræði við Háskóla Íslands.

FÍSOS – Aðalfundur 02.10.2019 á Patreksfirði

Stjórn FÍSOS – Félags íslenskra safna og safnmanna boðar hér með til aðalfundar félagsins miðvikudaginn 2. október 2019 kl. 17.00 í Skjaldborgarbíó, Aðalstræti 27, 450 Patreksfjörður

Dagskrá aðalfundar:

A. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

B. Skýrsla formanns um störf félagsins.

C. Ársreikningur félagsins.

D. Umræður um ársskýrslu og ársreikning og afgreiðsla reikninga.

E. Lagabreytingar.

F. Kosning í stjórn og aðrar trúnaðarstöður. Kosning skal vera leynileg.

 1. Kosning fimm manna stjórnar til tveggja ára í senn, formaður og meðstjórnandi annað árið en varaformaður, gjaldkeri og ritari hitt árið.
 2. Kosning tveggja varamanna til tveggja ára, eins varamanns annað árið en annars hitt árið.
 3. Kosning skoðunarmanns reikninga til tveggja ára, eins skoðunarmanns annað árið og annars skoðunarmanns hitt árið.
 4. Kosning farskólastjóra til eins árs.

G. Ákvörðun ársgjalds félagsmanna og stofnana.

H. Önnur mál.

Óskað er eftir framboðum til stjórnar í stöðu varaformanns, gjaldker og ritara. Þá er einnig lýst eftir framboði til varamanns í stjórn sem og eins skoðunarmanns reikninga.

Áhugasamir geta lýst yfir framboði með því að senda tölvupóst á stjorn@safnmenn.is eða lýst yfir framboði á aðalfundi. Kjörgengi hafa þeir félagsmenn sem greitt hafa árgjald félagsins fyrir aðalfund eða eru heiðursfélagar.

Vægi atkvæða á fundum félagsins er einn félagsmaður, eitt atkvæði og ein stofnun, eitt atkvæði. Fer forsvarsmaður stofnunar með atkvæði hennar á fundum félagsins eða fulltrúi í umboði hans.

Með kveðju, stjórn FÍSOS

Í stjórn félagsins 2018-2019 sitja:

Formaður: Helga Maureen Gylfadóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Varaformaður: Gunnþóra Halldórsdóttir, Kvikmyndasafn Ísland.

Gjaldkeri: Jón Allansson, Byggðasafnið á Görðum.

Ritari: Ingibjörg Áskelsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Meðstjórnandi: Ásdís Þórhallsdóttir, Listasafn Reykjavíkur.

Varamenn:Hjörtur Þorbjörnsson, Grasagarður Reykjavíkur og Sigríður Þorgeirsdóttir, Þjóðminjasafn Íslands.

Nina Simon á Íslandi. Einstakur viðburður í menningargeiranum 12. október 2019.

 

FÍS, FÍSOS og Námsbraut í safnafræði við H.Í. kynna:

Taktu frá laugardaginn 12. október 2019 – Einstakt tækifæri fyrir þig og samstarfsfólk þitt

Laugardaginn 12. október 2019 heldur Nina Simon námskeið á Íslandi. Þar mun hún kynna með fyrirlestri og verkefnum hugmyndafræði sína um það með hvaða hætti megi virkja menningastofnanir með sterkari samfélagslegri tengingu en áður. Á námskeiðinu mun hún fjalla um sérstaka nálgun sem hún hefur þróað og reynt í Bandaríkjunum og víðar í samstarfi við menningarstofnanir, þar sem áherslan er á möguleika og hindranir fyrir þær stofnanir að tengjast og þjóna sínu samfélagi.

Nina Simon er heimsfrægur fyrirlesari og hugmyndir hennar eiga brýnt erindi hérlendis. Mikill fengur er því af komu hennar hingað.

Nina Simon stofnaði OF/BY/FOR ALL og er höfundur metsölubókanna The Participatory Museum (2010) og The Art of Relevance (2016). Nina hefur víðtæka reynslu úr safna- og menningargeiranum, m.a. stýrði hún um árabil Santa Cruz Museum of Art and History.

Staðsetning og nánari tilhögun verður tilkynnt innan skamms. Miðasala hefst í september.

Ætlar þú ekki örugglega að mæta?

———-
Lýsing Ninu Simon á efni námskeiðsins:

Becoming OF/BY/FOR ALL in Your Community 
In this interactive workshop, we’ll dive into the OF/BY/FOR ALL method for making your organization of, by, and for your community. We will discuss how to define communities of interest. We’ll unpack the opportunities and challenges involved in changing to become more representative OF them, more co-created BY them, and more welcoming FOR them. We’ll share some of the most pernicious obstacles to doing this work well, and we’ll tackle your toughest questions about how to make inclusive change at your institution.
You will leave with a clearer sense of who you want to involve and how to do so. We will also provide you with resources to tap into the community of professionals striving to build OF/BY/FOR ALL organizations around the world.
—————
Viðburðurinn er haldinn á vegum FÍS Félags íslenskra safnafræðinga, FÍSOS Félags íslenskra safna- og safnamanna og Námsbrautar í safnafræði við Háskóla Íslands.

F.h. Félags íslenskra safnafræðinga

Ingunn Jónsdóttir og Þóra Sigurbjörnsdóttir

 

Farskóli 2019 – Skráning er hafin!

Nú er skráning hafin á farskóla FÍSOS 2019 sem haldinn verður á Patreksfirði dagana 2.-5. október 2019.

Skráningarblaðið má nálgast hér.

Farskólastjórn hvetur félaga til að skrá sig sem fyrst. Send verður út ítarlegri dagskrá fljótlega.

Þá er það að frétta af farskólastjórn að því miður hefur Sigrún Ásta þurft að segja sig frá undirbúningi vegna farskólans af óviðráðanlegum aðstæðum. Ármann Guðmundsson, sérfræðingur hjá Þjóðminjasafni Íslands, hefur tekið sæti hennar og bjóðum við hann hjartanlega velkominn.

10.05.2019 – AÐ TALA MÁLI SAFNA! VINNUSTOFA UM LOBBÍISMA/HAGSMUNAGÆSLU

Þann 10. maí nk. verður haldin vinnustofa með Ember Farber frá Bandarísku safnasamtökunum (American Alliance of Museums, AAM) um gagnlegar og hagnýtar leiðir fyrir stjórnendur og starfsmenn safna til að vekja máls á mikilvægum hlutverkum og starfsemi safna. Vinnustofan er haldin í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu.

Ember Farber er forstöðurmaður deildar um stjórnvaldstengsl og málstað (advocacy) safna innan bandarísku safnasamtakanna (American Alliance of Museums, AAM). Hún hefur áralanga reynslu af því að kynna söfn og starfsemi þeirra fyrir opinberum aðilum og almenningi með ýmsum aðferðum: svo sem eins og áætlana- og undirbúningsgerð safna, persónulegum tengslum, starfi með grasrótarsamtökum, og notkun á stafrænum samskipum eins og félagsmiðlum. Ember hefur yfirumsjón með málstaðssíðu AAM (www.aam-us.org/advocacy), en síðan aðstoðar söfn í Bandaríkjunum við að segja sögur af mikilvægu starfi þeirra, því sem þau hafa fram að færa og miðla því til opinberra aðila sem sjá um stefnumótun, fjölmiðla og almennings. Ember hefur haldið sambærilegt vinnustofu og hún heldur hér á landi víða um Bandaríkin.

Hér er um einstakt tækifæri að ræða fyrir starfsmenn safna og aðra áhugasama til að læra af reynslubolta á sviði lobbíisma!

Vinnustofan er samstarfsverkefni  Rannsóknaseturs í safnafræðum við Háskóla Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Félags íslenskra safna og safnmanna, FÍSOS, .

Dagskrá vinnustofu – fyrirlestrarsalur Þjóðminjasafns Íslands

13:00 – 13:10     Kynning, Helga Maureen Gylfadóttir, formaður FÍSOS

13:10 – 14:00     Fyrirlestur, Ember Farber, Director of Government Relations & Advocacy at   AAM

14:00 – 14:15    Kaffihlé

14:15 – 15:30    Vinnustofa og samræður

Til lauslegs undirbúnings fyrir þátttöku í vinnustofunni er þátttakendum bent á að kynna sér efni á heimasíðunum: www.aam-us.org/advocacy og www.standforyourmission.org.

Fyrir áhugasama viljum við einnig benda á bók forvera Ember Farber í starfi, Gail Ravnitzky Silberglied, Speak Up For Museums: The AAM Guide to Advocacy (2011), sem fáanleg er m.a. á Amazon.

Seminar on Museum Advocacy 10.05.2019 – Lecture Hall National Museum of Iceland

Seminar itinerary

13:00 – 13:10     Opening remarks by Helga Maureen Gylfadóttir, chairperson of the IAM.

13:10 – 14:00     Lecture, Ember Farber, Director of Government Relations & Advocacy at AAM

14:00 – 14:15    Coffee break

14:15 – 15:30    Breakout sessions and Discussion

Ember is the Director of Advocacy at the American Alliance of Museums. In that role she communicates with museum advocates and the field about federal policy issues and advocacy opportunities through legislative and advocacy updates, calls-to-action, print, email, AAM’s website (www.aam-us.org/advocacy) and several social media channels. Ember also enjoys working closely with AAM’s broad range of partner organizations and directly with individual museum advocates during Museums Advocacy Day and throughout the year. Advocacy is a personal and professional passion for Ember, who holds a Master’s degree in political management from the George Washington University. #museumsadvocacy

Farskóli 2019 – Farskólastjórn

Stjórn FÍSOS kynnir til leiks þá félaga sem tekið hafa að sér að stýra farskólanum 2019 í örugga höfn.

Skipstjórinn er Inga Hlín Valdimarsdóttur eins og félagar vita. Aðrir í áhöfn eru:

 • Sigurlaugur Ingólfsson, Borgarsögusafn Reykjavíkur
 • Aldís Snorradóttir, Listasafni Reykjavíkur
 • Sigrún Ásta Jónsdóttir, Gljúfrasteinn

Stjórn FÍSOS þakkar þeim öllum fyrir að taka að sér að stýra og undirbúa 31. farskóla félagsins nú í október.  Sjáumst á Patró!

Aðalúthlutun safnasjóðs 2019

Nú í byrjun mars var tilkynnt um aðalúthlutun safnasjóðs 2019.

Samkvæmt frétt á heimasíðu safnaráðs þá úthlutaði mennta- og menningarmálaráðherra að fenginni umsögn safnaráðs alls 113.850.000 kr. úr safnasjóði, þar af voru veittir 85 verkefnastyrkir alls 84.250.000 kr., auk þess sem 29.600.000 kr. var úthlutað í rekstrarstyrki til 37 viðurkenndra safna. Alls bárust 142 verkefnaumsóknir og veittir styrkir voru á bilinu frá 300.000 til 2.500.000 kr.

FÍSOS fékk fjóra verkefnastyrki:

Námskeið fyrir safnafólk: Varðveislu safngripa á sýningum með áherslu á uppsetningu þeirra fyrir safnafólk. – 400.000 kr.

Farskóli FÍSOS 2019 – Patreksfjörður – 1.800.000 kr.

Safnablaðið Kvistur – 6. tbl. – 700.000 kr.

Safnadagurinn 18. maí 2019 – 1.000.000 kr.

FÍSOS þakkar kærlega fyrir stuðninginn.

ICOM og FÍSOS bjóða Baldur Þóri Guðmundsson velkominn til starfa í MMR

Formenn ICOM, Guðný Dóra Gestsdóttir, og FÍSOS, Helga Maureen Gylfadóttir funduðu í dag með Baldri Þóri Guðmundssyni, sérfræðingi á  skrifstofu menningarmála hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti.  Baldur tók við þeim málaflokki sem áður var á könnu Eiríks Þorlákssonar sérfræðings í ráðuneytinu. Á meðal verkefna Baldurs er það sem snýr að söfnum á Íslandi og fannst því formönnum félagana mikilvægt að kynna fyrir honum starf félaganna.

ICOM og FÍSOS óska Baldri farsældar í nýju starfi og hlakka félögin til enn frekari samstarfs við ráðuneytið við að efla enn frekar starf safna á Íslandi.

 

Málstofa 20.03.2019 – Stafrænar lausnir fyrir söfn og setur – MMEx

Þann 20. mars nk. standa Borgarsögusafn Reykjavíkur, Þjóðminjasafn Íslands og FÍSOS, með símenntunarstyrk frá safnaráði, fyrir spennandi málstofu í samstarfi við MMEx (http://mmex.dk/) eða Center for digital interpretation in museums.

MMEx var stofnað af smærri söfnum í Danmörku í þeim tilgangi að stuðla að góðum stafrænum miðlunarlausnum á sýningum safna og setra. Fyrirtækið hefur komið að fjölda slíkra verkefna, bæði sem ráðgefandi aðili og sem virkur þátttakandi. Hér má sjá nokkur þeirra: http://mmex.dk/projekter/

Þetta er einstakt tækifæri til að kynna sér möguleika og lausnir í stafrænni miðlun.

Málstofan fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands miðvikudaginn 20. mars og byrjar kl. 9:00 og stendur til kl. 17:00 og fer fram á ensku.

Hádegismatur og kaffi er innfalinn í skráningargjaldi sem er krónur 2000.

TAKMARKAÐ SÆTAFRAMBOÐ OG ER SKRÁNING BINDANDI. 

Til að skrá sig, klikkið á HÉR

Hér má finna frekari upplýsingar um MMEx

DRÖG AÐ DAGSKRÁ

Drög að dagskrá

 

 

Farskóli 2019 – Gisting á Patreksfirði

Kæru safnmenn,

Núna eru væntanlega allir titrandi af tilhlökkun fyrir Farskóla 2019 á Patreksfirði sem haldinn verður dagana 2.-5. október 2019. Nú er ekki seinna vænna en að fara bóka gistingu.

Á Patreksfirði og nágrenni eru nokkrir gistimöguleikar og hér má finna upplýsingar um þá PDF_Farskóli19_gisting

Gisting á Patreksfirði 2019

Hlökkum til að sjá ykkur á Patró!

Með bestu kveðju, Inga Hlín Valdimarsdóttir, skólastjóri farskólans og forstöðumaður Minjasafns Egils Ólafssonar Hnjóti, Örlygshöfn.

Safnablaðið Kvistur – á heimasíðu og timarit.is

Ertu búin(n) að týna eintaki þínu af Kvisti eða þarft að fletta upp í því og hefur það ekki við höndina? Ekki örvænta því nú eru eldri tölublöð af safnablaðinu Kvist aðgengileg á heimasíðu félagsins undir flipanum úgáfa sem og á vefsvæðinu timarit.is. Nýjasta tölublað er sett inn ári eftir útgáfu

Safnablaðið Kvistur er tímarit fyrir starfsfólk safna og aðra áhugasama um söfn og safnatengd málefni. Tímaritið var frá upphafi gefið út af sjálfstætt starfandi fyrirtæki, Safnarútunni, en frá hausti 2016 hefur Félag íslenskra safna og safnmanna , FÍSOS,  annast og borið ábyrgð á útgáfu þess. Þannig fá allir félagsmenn tímaritið í hendur hafi þeir greitt félagsgjöld.

Safnablaðið Kvistur gegnir því mikilvæga hlutverki að veita almenningi gátt inní allar hliðar safnastarfs ásamt því að styrkja fagsvið safna og safnmanna. Tímaritið er miðill þar sem fagfólk á sviði safna og áhugamenn um menningu hafa aðgang að umfjöllun, umræðum og fréttum af íslenskum og erlendum vettvangi. Þar er rými fyrir skoðanaskipti, uppbyggilega gagnrýni, umfjöllun um allar tegundir safna og safnastarf almennt. Ritið er þess utan mikilvæg heimild um starf safnmanna sem er oft ósýnilegt eða er hljótt um.

Safnablaðið Kvistur 1. tbl. nóvember 2014

Safnablaðið Kvistur 1. tbl. nóvember 2014

NEMO – Vinnustofa safnmanna dagana 6.-7. desember 2018.

 

Þátttakendur í vinnstofu NEMO í desember 2018 í London.

NEMO býður félagsmönnum reglulega til funda víðsvegar um Evrópu, sem þau nefna vinnustofur safnmanna eða Learning Exchange. FÍSOS er félagi í NEMO og geta félagsmenn  FÍSOS sótt þessa fundi.  Þeir sem hafa áhuga fá uppáskrifað frá stjórn FÍSOS um að þeir séu gildandi félagsmenn og senda svo umsókn til NEMO um ósk að taka þátt í vinnstofu. NEMO greiðir að jafnaði hverjum þátttakenda 600 evrur í ferðar- og dvalarkostnað.

Dagana 6.-7. desember 2018 var haldin vinnustofa NEMO í London sem bar yfirskriftina  Museums and Social Impact . Ingibjörg Áskelsdóttir sótti þessa vinnustofu og hér eftir fylgir frásögn hennar og upplifun af þessum fundum. FÍSOS þakkar Ingibjörgu kærlega fyrir og hvetur aðra félagsmenn að nýta sér þessar vinnustofur sem best.

Greinargerð eftir Ingibjörgu Áskelsdóttur

Þáttakendur:

 1. Vanessa Braekeveld – ICOM Belgium Flanders
 2. David Vuillaume – German Museums Association
 3. Lana Karaia – Georgian Museums Association
 4. Alexandre Chevalier – ICOM Belgium Wallonia/Brussels
 5. Just Flemming – Association of Danish Museums
 6. Ingibjörg Áskelsdóttir – Icelandic Museums Association
 7. Sarah Campbell – Victoria and Albert Museum

Fimmtudagurinn 6. desember 2018

10.15-11.45

Hópurinn var boðin velkomin af Sharon Heal, formanni bresku safnasamtakanna.  Hún sagði okkur frá miklum breytingum sem orðið hafa á samtökunum síðan hún tók við árið 2014.  Unnin var þarfagreining á söfnunum og miklu breytt, sérstaklega hvað varðar það hvernig samtökin þjónusta sína félagsmenn.

Spurningin var:  hver og hvernig þurfum við að vera til þess að sinna okkar félagsmönnum sem best?  Út úr þeirri vinnu kom slagorðið: Museums change lives, sjá allt um það hér: https://www.museumsassociation.org/museums-change-lives

Museums Association UK

12.00 -13.30

Sarah Briggs frá bresku safnasamtökunum sagði okkur frá verkefnunum Collections 2030 og The Esmée Fairbairn Collections FundCollections 2030  snýst um að rýna í safnkost safna og skoða hverni hægt er að nota hann sem best í þágu almennings.  Hvernig á að sýna safnkostinn þannig að hann tengist safngestinum sem best, hverju á að safna, decolonasation of collections og hverju má farga.  Tekið verður viðtal við fjöldan allan af safnafólki við framkvæmd verkefnisins, og árið 2013 verður svo gefin út skýrsla og niðurstöður.  Sjá hér: https://www.museumsassociation.org/collections/09052018-collections-2030

The Esmée Fairbairn Collections Fund er sjóður sem styrkir hin ýmsu verkefni sem tengjast nýtingu safnkosts á söfnum í þágu gesta með áherslu á félagsleg verkefni, sjá hér. 

15.00 – 17.30

Heimsókn á The Wellcome Collection.  Henry Wellcome var læknir sem efnaðist mikið á töfluframleiðslu.  Hann ferðaðist mikið um heiminn og safnaði ýmsu sem tengist lækningum og læknamætti. Hluti sjóðsins fer nú í að reka starfsemi í húsinu, en þar eru sýningarsalir, lesherbergi, bókasafn, vinnustofur, verslun og veitingastaðir.

Fyrst var farið í leiðsögn um sýninguna Living with buildings sem fjallar um umbætur á húsakosti í Bretlandi frá 1900 með tilliti til heilusamlegri húsakosts.  Þegar að leiðsögninni var lokið hittum við Rosie Stanbury sem er deildastjóri Public Programmes.  Hún sagði okkur frá því hvernig The Wellcome Collection virkar, og lesa má allt um það hér: https://wellcomecollection.org/pages/Wuw2MSIAACtd3Stq

Að því loknu skoðuðum við fleiri sýningar og lesherbergið.  Í lokin skoðuðum við svo The Hub sem er vinnurými sem lánað er út til sérstakra verkefna sem lesa má um hér: https://wellcomecollection.org/pages/Wuw2MSIAACtd3SsU

Föstudagur 7. desember

10.00-11.00

Hittum Jess Turtle sem sér um The Transformer Scheme hjá samtökunum.  Verkefnið snýst um endurmenntun safnstarfsfólks, hvernig það getur unnið með þjónustu við jaðarhópa inn á söfnum.  Hér má lesa um verkefnið: https://www.museumsassociation.org/professional-development/transformers/15042014-transformers-radical-change-in-museums.  Verkefnið hljómaði sérstaklega spennandi og eitthvað sem að FÍSOS gæti nýtt.

11.15-12.30

Heimsókn í nýtt húsnæði The Museum of London.  Eins og er er safnið staðsett við Barbican miðstöðina, þar sem aðgangur og aðkoma er ekki skemmtileg og fælir frá.  Safnið hefur því fengið gamla Smithfield kjötmarkaðinn, sem byggður var um 1880, sem nýja staðsetnignu fyrir safnið.  Byggingin hefur ekki verið notuð í um 30 ár, og miklar endurbætur þurfa að eiga sér stað áður en hægt verður að hanna sýningar þar inn.  Áætlað er að opna 2023.  Okkur var sagt frá áformum safnins, hvernig þau hugsa sýningarnar og skoðuðum bæði jarðhæð og kjallara, sem verður aðal sýningarrýmið.  Mjög áhugavert að sjá og verður skemmtilegt að sjá safnið þegar það verður orðið að veruleika.

13.45-15.30

Simon Stephens sem sér um félagsaðild hjá bresku safnasamtökunum sagði okkur frá því hvernig samtökin eru hugsuð og endurbætur þar á með tilliti til félagsaðild, gestakorti, ráðstefnur ofl.  Samtökin hafa unnið að því sl. ár að einfalda öll innvið til þess að geta þjónustað sína félagsmenn sem best.  Margt áhugavert sem þar kom fram.  Þeir hafa m.a. fækkað fulltrúum í stjórn, einfaldað gjaldskránna og fækkað ráðstefnum.

NEMO – Takk fyrir frábæra vinnustofu!

Farskóli 2019 – Takið dagana frá!

Kæru félagar,

Dagana 2.-5. október 2019 mun Farskóli Safnmanna fara fram á Patreksfirði!

Takið dagana frá!

 

Hér tekið eftir - Fésbókarsíðu safnisns.

Frá Byggðasafninu að Hnjóti.

Nánari upplýsingar koma síðar…

Með bestu kveðju,

Inga Hlín Valdimarsdóttir,

forstöðumaður Minjasafn Egils Ólafssonar Hnjóti,

Örlygshöfn.

 

NEMO – þátttaka FÍSOS á ráðstefnu í Möltu nóvember 2018.

Dagana 15. og 16. nóvember 2018 sóttu Ingibjörg Áskelsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttur, fyrir hönd stjórnar FÍSOS, aðalfund og árlega ráðstefnu á vegum NEMO í Valletta á Möltu.  NEMO heldur þessar ráðstefnu árlega og var þetta í 26. sinn sem hún var haldinn. Ráðstefnan bar yfirskriftina Museums out of the box! eða Söfn út fyrir boxið! og var haldin í nýja listasafni þeirra Möltubúa, MUZA, í Valletta.

Ráðstefnan var um margt áhugaverð, en áhersla hennar var að segja frá verkefnum sem færa starfsemi safna á einhvern hátt út fyrir söfnin sjálf, hefðbundin umfjöllunarefni þeirra og hvernig má ná til og vinna með jaðarhópum samfélagsins.  Eyjarskeggjar hafa t.d. brugðið á það ráð að bjóða foreldrum ókeypis aðgang á söfn ef þau koma með börnin sín með sér, vegna þess að þeir sáu það að börn eyjunnar heimsóttu söfn sjaldan fyrir utan skólaheimsóknir.  Hagfræðingurinn Marie Briguglio var aðalfyrirlesari ráðstefnunnar, og hún reiknaði það m.a. út með hávísindalegum hagfræðiformúlum, að heimsókn á safn eykur lífshamingjuna!  Mjög skemmtilegur fyrirlesari með öðruvísi nálgun. Svo komu hinir ýmsu fyrirlesarar fram og sögðu frá verkefnum sem unnin hafa verið með þessi leiðarljós að vopni.

Í lok dags var ráðstefnugestum skipt niður í vinnustofur sem unnu þá með ólík verkefni.  Ingibjörg og Sigríður vinnustofuna Museums and Intangiable heritage.  Þar var sagt frá verkefnum sem að hin ýmsu söfn hafa unnið með óáþreifanlegan menningararf og hvernig þau geta almennt stuðlað að varðveilsu hans. Einnig var boðið upp á leiðsagnir, siglingu og skoðunarferð um Möltu.

Lesa má frekar um ráðstefnuna hér.

Stjórn FÍSOS minnir á að öllum félagsmönnum FÍSOS stendur til boða að sækja ráðstefnur á vegum NEMO.

Safnablaðið Kvistur – 5. tbl. komið út!

Nú í nóvember kom 5. tbl. safnablaðsins Kvists út. Blaðinu hefur nú verið dreift til félagsmanna og annarra áskrifenda.

Stjórn FÍSOS þakkar ritstjórn blaðsins fyrir þeirra góða starf og óskar þeim til hamingju með glæsilegt og vandað blað. Safnablaðið Kvistur er mikilvægt málgagn fyrir safnmenn og þarft innlegg í faglega umræðu á meðal félagsmanna.

Þeir félagar sem ekki hafa fengið blaðið vinsamlegast hafið samband við Lindu Ásdísardóttur, linda@eyrarbakki.is. Afhending blaðsins helst í hendur við greiðslur á félagsgjaldi.

Þá er blaðið einnig komið í lausasölu í Bóksölu stúdenta.

Komdu á safn!

Komdu á safn!

Félag íslenskra safna og safnmanna fagnar degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember 2018 með því að frumsýna annan þátt í þríleiknum Komdu á safn! sem félagið hefur unnið í samstarfi við MASH kvikmyndateymi. Fyrsti hluti var frumsýndur þann 18. maí sl. á alþjóðlega safnadeginum.

Söfn varðveita gripi af ýmsum stærðum og gerðum en orð yfir heiti og notkun gripa sem ekki eru lengur í daglegri notkun eiga hættu á að hverfa úr tungumálinu. Því gegna söfn mikilvægu hlutverki við að halda þessum orðum á lofti og skýra út ef þörf þykir.

Komdu á safn! og upplifðu tungumálið í þrívídd.

Til hamingju með dag íslenskra tungu.

Aðalfundur FÍSOS 2018 – fréttir af fundi

Aðalfundur FÍSOS var haldinn miðvikudaginn 10. október sl. Fundinn sóttu hátt í 40 félagar og stóð fundurinn í tvær klukkustundir. Streymt var beint frá fundinum á fésbókarsíðu félagsins.

Kosið var til stjórnar félagsins en úr stjórn gengu Linda Ásdísardóttir og Haraldur Þór Egilsson og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir vel unnin störf í þágu félagsins í gegnum árin. Helga Maureen Gylfadóttir bauð sig fram í embætti formanns og var kosinn einróma, Ásdís Þórhallsdóttir bauð sig fram í embætti meðstjórnanda og var kosin einróma og Sigríður Þorgeirsdóttir bauðs sig fram í embætti varamanns og var kosin einróma. Þá bauð Pétur Sörensson fram sem skoðunarmaður reikninga og var kosinn einróma.

Þá var lögð til hækkun félagsgjalda safna og stofnanna og var hún samþykkt með 33 atvkæðum, einn seðill auður og tveir ógildir.

Þá var lögð fram spurning um hvort að rekstur Kvist ætti að heyra undir FÍSOS og voru 34 samþykkir því, enn einn sagði nei.

Frekari upplýsingar um fundinn er að finna í fundargerð – Aðalfundur FÍSOS 10. október 2018.

Þá er að finna hér ársskýrslu formanns – FÍSOS-Árskýrsla-2017-2018

Stjórn FÍSOS þakkar fundarmönnum fyrir góðan og gagnlegan fund. Einnig þakkar hún Ingu Jónsdóttur fyrir sitt innlegg í tilefni af íslensku safnaverðlaununum 2018 og Helgu Einarsdóttur og Þóru Sigurbjörnsdóttur sem fóru yfir nýafstaðinn farskóla félagsins í Dublin.  Þá eru Guðný Dóru Gestdóttur og Ágústu Rós Árnadóttur veittar þakkir fyrir fundarstjórn og fundarritun.

 

Farskóli safnmanna 2018 – Dublin – farskólaskýrsla

Dagana 11.-14. september 2018 fór fram hin árlegi farskóli safnmanna í Dublin á Írlandi. Þar kynntu þátttakendur sér söfn borgarinnar, sýningar þeirra og innra starf um leið og þeir komust í kynni við írska kollega sem tóku á móti hópnum.

Dagskrá innihélt 23 heimsóknir á söfn og sýningar borgarinnar ásamt fyrirlestri frá Ginu O’Kelly, formanni Irish Museums Association . Skipulögð dagskrá farskólans í Dublin fyrir hvern einstakling taldi 14 klst. Auk þess gafst þátttakendum tími til að heimsækja söfn á eigin vegum, fara saman í útsýnisferð um borgina, bókmennta- og pöbbarölt og árshátíð FÍSOS.

Farskólastjórn leitaðist við að útbúa fjölbreytta og áhugaverða dagskrá. Nefndin fékk mjög jákvæð viðbrögð frá söfnunum í Dublin og þau buðu íslenska safnmenn velkomna til heimsókna. Helstu forsvarsmenn og sérfræðingar safnanna tóku á móti farskólanemum og miðluðu þekkingu sinni og reynslu. Nefndin var meðvituð um að auk fróðleiks er aðalatriði hvers farskóla samvera safnmanna. Það var því von farskólastjórnar að þátttakendur ættu ánægjulegan farskóla, nytu dvalarinnar og bættu skemmtilegum farskólaminningum í sarpinn. Helst átti farskólinn að verða Craic agus Ceol eins og innfæddir myndu segja!’

Farskólastjóri og farskólastjórn hefur nú skilað stjórn FÍSOS skýrslu um dagana í Dublin og er henni færðu bestu þakkir fyrir. Stjórn FÍSOS hvetur félagsmenn að kynna sér skýrsluna við fyrsta hentugleik. Farskólastjórn 2018: Helga Einarsdóttir, Hlín Gylfadóttir og Þóra Sigurbjörnsdóttir.

Söfn á Íslandi – Markaðsgreining og aðgerðaráætlun til að auka sýnileika safna á netinu.

FÍSOS sótti í safnasjóð styrk til að greina þær kynningarleiðir sem söfnum standa til boða og meta virkni þeirra með það að markmiði að söfn geti með markvissari hætti nýtt það fé sem ætlað er til kynningarmála.

Umsókn var lögð inn í tilefni af umræðu á farskóla 2016 um sýnileika safna. Félagið fékk 500.000 kr. styrk 2017.

FÍSOS fór í samstarf við Íslandstofu um greiningu á efninu og vann Katarzyna Moi sem hefur starfað fyrir Íslandsstofu sem og Samtök um sögutengda ferðaþjónustu falið verkefnið.

Katarzyna vann eftirfarandi greinagerð. Hún er á ensku. Salka Guðmundsdóttir þýddi greinargerðina yfir á íslensku.

Stjórn FÍSOS vinnur nú áfram með verkefnið í samstarfi við Katarzyna og Íslandsstofu.

FÍSOS – PRESENCE ONLINE

Söfn á Íslandi – Markaðsgreining og aðgerðaáætlun til að auka sýnileika á netinu.

Farskóli safnmanna á Siglufirði 2017 – Söfn í stafrænni veröld – farskólaskýrsla

Dagana 27.-29. september 2017 fór fram hin árlegi farskóli safnmanna á Siglufirði. Dagskráin var með hefðbundnu sniði; sambland fyrirlestra, vinnustofa, skoðunarferða og almennrar gleði. Yfirskrift skólans var Söfn í stafrænni veröld.

Í ljósi þess að undanfarna áratugi hefur tækniþróun fjölgað möguleikum safna til miðlunar svo um munar var ákveðið að leggja fram ýmisskonar spurningar og skipuleggja dagskrána út frá þeim. En íslensk söfn hafa tileinkað sér ólíkar og fjölbreyttar leiðir til að miðla þekkingu og fróðleik.

Á farskóla 2017 var horft til áskorana, ógnana og nýrra möguleika í því samhengi. Hvernig geta söfn nýtt sér tæknina til framþróunar og vaxtar? Getur tæknin dregið úr upplifun gesta á sýningum? Hvernig má nýta tækni nútímans til þess að átta sig á ráðgátum fortíðar og tryggja varðveislu gripa og muna til framtíðar?

Markmið farskólastjórnar var allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi – því þó við störfum öll á sama vettvangi geta störf okkar verið æði ólík með tilliti til sérhæfingar, menntunar og hlutverks í starfi.

Farskólastjóri og farskólastjórn hefur nú skilað stjórn FÍSOS skýrslu um dagana á Siglufirði og er henni færðu bestu þakkir fyrir. Stjórn FÍSOS hvetur félagsmenn að kynna sér skýrsluna við fyrsta hentugleik. Farskólastjórn 2017: Anitu, Steinunni Maríu, Haraldi Þór, Sigríði og Herði eru færðar bestu þakkir fyrir þeirra góðu vinnu.

Söfn í stafrænni veröld. Farskólaskýrsla 2017

FÍSOS – Aðalfundur 10.10.2018

Stjórn FÍSOS – Félags íslenskra safna og safnmanna boðar hér með til aðalfundar félagsins miðvikudaginn 10. október 2018 kl. 17.00 á Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8, 101 Reykjavík.

Dagskrá aðalfundar:

A. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

B. Skýrsla formanns um störf félagsins.

C. Ársreikningur félagsins.

D. Umræður um árskýrslu og ársreikning og afgreiðsla reikninga.

E. Lagabreytingar.

F. Kosning í stjórn og aðrar trúnaðarstöður. Kosning skal vera leynileg.

1. Kosning fimm manna stjórnar til tveggja ára í senn, formaður og meðstjórnandi annað árið en varaformaður, gjaldkeri og ritari hitt árið.

2.  Kosning tveggja varamanna til tveggja ára, eins varamanns annað árið en annars hitt árið.

3. Kosning skoðunarmanns reikninga til tveggja ára, eins skoðunarmanns annað árið og annars skoðunarmanns hitt árið.

4.  Kosning farskólastjóra til eins árs.

G. Ákvörðun ársgjalds félagsmanna og stofnana.

H. Önnur mál.

Óskað er eftir framboðum til stjórnar í stöðu formanns, meðstjórnanda og varamanns. Áhugasamir geta lýst yfir framboði með því að senda tölvupóst á stjorn@safnmenn.is eða lýst yfir framboði á aðalfundi. Kjörgengi hafa þeir félagsmenn sem greitt hafa árgjald félagsins fyrir aðalfund eða eru heiðursfélagar.

Vægi atkvæða á fundum félagsins er einn félagsmaður, eitt atkvæði og ein stofnun, eitt atkvæði. Fer forsvarsmaður stofnunar með atkvæði hennar á fundum félagsins eða fulltrúi í umboði hans.

Í stjórn félagsins 2017-2018 sitja:

Formaður: Helga Maureen, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Varaformaður: Gunnþóra Halldórsdóttir, Kvikmyndasafn Ísland.

Gjaldkeri: Jón Allansson, Byggðasafnið á Görðum.

Ritari: Ingibjörg Áskelsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Meðstjórnandi: Linda Ásdísardóttir, Byggðarsafn Árnesinga.

Varamenn: Haraldur Þór Egilsson, Minjasafnið á Akureyri og Hjörtur Þorbjörnsson, Grasagarður Reykjavíkur