Málstofur á Farskólanum 2022
Við bjóðum ykkur velkomin á næsta Farskóla FÍSOS sem haldinn verður á Hótel Hallormsstað dagana 21.-23. september 2022 og ber yfirskriftina Söfn á tímamótum. Málstofur verða þrisvar á dagskránni og hægt er að velja úr fjórum í hvert sinn. Valdar eru málstofur í skráningarforminu fyrir Farskólann, sem má nálgast hér. Við biðjum ykkur um að velja alltaf eina málstofu og eina til vara. Hér fyrir neðan má lesa nánar um þær málstofur sem í boði eru:
Málstofur 1 (veljið eina og eina til vara)
Grisjunaráætlun og hvað svo?
Umsjón: Tækniminjasafn Austurlands
Í kjölfarið á aurskriðunum á Seyðisfirði í desember 2020 hefur Tækniminjasafn Austurlands þurft að endurskoða söfnunarstefnu sína, gera grisjunaráætlun og vinna með endur- og uppvinnslu grisjaðra muna. Í þessari málstofu verður farið fyrir þá feril, þá reynslu sem safnið hefur öðlast og hvaða lærdóm önnur söfn geta dregið af reynslu safnsins. Umsjón með málstofunni hefur starfsfólk Tækniminjasafns Austurlands.
Stafræn miðlun og varðveisla menningararfs
Umsjón: Skúli Björn Gunnarsson
Stafrænar lausnir til miðlunar, skráningar og varðveislu menningararfs hafa vaxið og þróast ört undanfarin áratug. Í þessari málstofu verður rætt um sýndarveruleika (VR), viðaukinn veruleika (AR), þrívíddarskönnun, myndmælingu, leikjavæðingu, lýðvirkjun og margt fleira sem nýst getur safnafólki til að sinna sínu hlutverki á nýjum tímum. Umsjón hefur Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri en stofnunin hefur á undanförnum árum verið leiðandi í þróun og nýtingu stafrænna lausna í miðlun sinni.
Ný safnaskilgreining ICOM
Umsjón: Ólöf Gerður Sigfúsdóttir og Hólmar Hólm
Rætt verður um niðurstöður kosninganna á Allsherjarþinginu í Prag um nýju safnaskilgreininguna. Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður Íslandsdeildar ICOM, leiðir málstofuna og veltir upp spurningum um hvaða þýðingu ný safnaskilgreining (eða sú gamla, ef það verður niðurstaðan) mun hafa á safnasviðið á Íslandi. Áhersla verður lögð á umræður og hvernig starfsfólk safna upplifir það sem koma skal.
Skráning ljósmynda: Frá móttöku til frágangs
Umsjón Þorvaldur Böðvarsson og Kristín Halla Baldvinsdóttir
Skráning safngripa er einn mikilvægasti hlekkurinn í varðveisluferli safnkosts. Undirbúningur safnkosts fyrir skráningu er frekar svipaður þótt mismunandi aðfangategundir eigi í hlut. Í þessari málstofu höfum við valið að nota skráningu ljósmynda sem dæmi og munum taka fyrir afmarkað ljósmyndasafn og kynna ferilinn frá móttöku safnaukans til frágangs eftir skráningu. Umsjón: Þorvaldur Böðvarsson, skráningarstjóri hjá Þjóðminjasafni Íslands og Kristín Halla Baldvinsdóttir sérfræðingur í ljósmyndasafni Þjóðminjasafns Íslands.
—
Málstofur 2 (veljið eina og eina til vara)
Óáþreifanlegur menningararfur: Hvað kemur hann söfnum við?
Umsjón: Vilhelmína Jónsdóttir
Hvað eiga kínverskt skuggabrúðuleikhús, belgísk bjórmenning og súðbyrtir bátar sameiginlegt? Allt eru þetta fyrirbæri á skrá UNESCO um óáþreifanlegan menningararf mannkyns sem talið er nauðsynlegt að varðveita. Í málstofunni veltum við fyrir okkur ýmsum hliðum óáþreifanlegs menningararfs, einkennum hans og varðveislu sem og skrifum fræðimanna. Fjallað verður um samning UNESCO frá árinu 2003 um varðveislu óáþreifanlegs menningararfs og tilurð hans. Farið verður yfir skuldbindingar íslenska ríkisins skv. samningum og þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar til innleiðingar á honum. Að lokum verða umræður um hlutverk safna og tækifæri til þátttöku á þessu ört vaxandi sviði menningararfsvörslu. Umsjón hefur Vilhelmína Jónsdóttir. Hún stundar doktorsnám í þjóðfræði en rannsóknir hennar eru á sviði menningararfsfræða. Doktorsrannsókn hennar ber yfirskriftina Menningararfur og lýðræðisleg þátttaka. Vilhelmína starfaði sem verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að innleiðingu á samningi UNESCO um varðveislu óáþreifanlegs menningararfs og opnun vefsins lifandihefdir.is. Að auki kennir Vilhelmína námskeiðin Menningararfur og Söfnun þjóðfræða við námsbraut í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Þá er hún annar umsjónarmaður hlaðvarpsins Þjóðhættir sem fjallar um rannsóknir og miðlun í þjóðfræði.
Að dansa nær grænu skrefunum: Umhverfismál og safnastarf
Umsjón: Alma Sigrún Sigurgeirsdóttir
Eitt skref í einu í átt að umhverfisvænu safni. Borgarsögusafn Reykjavíkur hefur unnið að því að innleiða grænu skrefin í starfsemi sinni og í þessari málstofu verður fjallað um reynslu þeirra af því. Á eftir verða vonandi líflegar umræður um hvað við getum gert til að vera umhverfisvænni stofnanir og einingar innan safnasamfélagsins. Ert þú með frábæra áætlun á þínu safni? Setjumst niður, deilum sögum og leiðum í átt að umhverfisvænum söfnum. Umsjón: Alma Sigrún Sigurgeirsdóttir, verkefnastjóri umhverfismála og safnfræðslu hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur
Persónuvernd og ljósmyndir
Umsjón: Hörður Geirsson
Hörður Geirsson fjallar um höfundarétt og persónuvernd í tengslum við notkun safna og sýninga á ljósmyndum sem eru hluti af safnkosti. Einnig verður fjallað um notkun slíkra mynda í miðlun á vefsíðum og samfélagsmiðlum. Farið verður í hvað þarf að hafa í huga við val á myndum, hvernig skuli bregðast við ef upp koma vandamál og hvernig við setjum okkur vinnureglur. Umsjón: Hörður Geirsson, safnvörður ljósmyndadeildar Minjasafnsins á Akureyri.
Tökum höndum sama: Söfn og jaðarhópar
Umsjón: Borgarsögusafn Reykjavíkur og Listasafn Reykjavíkur
Borgarsögusafn Reykjavíkur og Listasafn Reykjavíkur vinna saman að verkefni sem kallast Tökum höndum saman og snýst um aðgengismál í sem víðustum skilningi. Verkefnið felst í að finna skapandi leiðir til að vinna með ólíkum hópum á þeirra forsendum á fjölbreyttum sýningarstöðum safnanna. Dæmi um það sem hefur verið gert undir hatti verkefnisins eru séropnanir fyrir fólk á einhverfurófi, leiðsagnir á ólíkum tungumálum, sjónlýsingar fyrir blinda og sjónskerta og auknar upplýsingar um aðgengi á vefum safnanna. Í málstofunni munu fulltrúar úr verkefnateyminu miðla af reynslunni sem verkefnið hefur leitt af sér og skoða hvað önnur söfn geta lært af því.
—
Málstofur 3 (veljið eina og eina til vara)
Varðveisla báta á Íslandi: Breyttar aðferðir
Umsjón: Ágúst Österby
Í málstofunni verður fjallað um reynslu norðurlandaþjóðanna af varðveislu gamalla báta og hvaða lærdóm Íslendingar geta dregið af þeim en með réttum aðferðum er hægt að lækka kostnað og auka líftíma trébáta svo um munar. Einnig verður fjallað um notkunarmöguleika safnabáta. Ágúst Österby er húsasmíðameistari og byggingafræðingur. Hann hefur búið og starfað í Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá árinu 1997 og hefur helgað starf sitt trébátum og annarri sérsmíði. Ágúst hefur einnig gert upp trébáta hér á landi og á sjálfur 12 trébáta, bæði í Svíþjóð og Íslandi. Ágúst situr í stjórn Hollvinasamtaka Maríu Júlíu BA 36 á Ísafirði.
Námskrármiðuð safnfræðsla: Málstofa og vinnusmiðja
Umsjón: Helga Einarsdóttir
Í fyrri hluta málstofunnar verður rætt um hagnýta samþættingu fræðslu og námskrár á söfnum. Farið verður yfir praktískar leiðir til þess að tengja fræðslu við aðalnámskrá og námsefni hverju sinni og koma þannig til móts við þarfir skólanna. Þá verður rætt um hvernig hægt er að stuðla að jafnt fróðlegri og námskrármiðaðri fræðslu sem og skemmtilegri upplifun fyrir nemendur. Í seinni hluta málstofunnar verður þátttakendum skipt í vinnuhópa þar sem tekin verða fyrir tilbúin en raunsæ dæmi um söfn og sýningar þar sem setja þarf upp hagnýtt fræðsluefni með tilliti til aðalnámskrár. Flestir sem starfa við fræðslu á söfnum, setrum og öðrum menningarstofnunum kannast eflaust við mjög þröngan tímaramma sem þarf að vinna eftir við gerð fræðslu, t.d. í tengslum við nýjar sýningar, og verður sérstaklega tekið mið af því í vinnuhópunum. Helga Einarsdóttir er kennaramenntuð og hefur starfað við fræðslu á söfnum í mörg ár. Hún sá um safnfræðslu á Þjóðminjasafni Íslands, vann við fræðsludeild National Museum of Ireland, var verkefnastjóri fræðslu og miðlunar við Bókasafn Kópavogs og starfar nú sem fræðslustjóri skrifstofu Alþingis. Hún mun miðla reynslu sinni af uppbyggingu námskrártengdrar fræðslu fyrir öll skólastig.
Hönnunarhugsun í safnastarfi
Umsjón: Sigríður Sigurjónsdóttir
Í málstofunni verður farið yfir hvernig nýta má hönnunarhugsun í safnastarfi. Um er að ræða aðferðarfræði sem allir geta nýtt sér. Farið verður yfir dæmi, helstu tæki og tól kynnt og í lokin gefum við okkur 15 min. í örsmiðju þar sem aðferðarfræðinni verður beitt. Sigríður Sigurjónsdóttir er forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands og starfaði áður sem prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands.
Safnafræði og fagefling safna: Staða og tækifæri til frekari vaxtar með söfnum landsins.
Umsjón: Sigurjón B. Hafsteinsson og Guðrún Dröfn Whitehead
Safnafræði hefur verið kennd við Háskóla Íslands um árabil en árið 2009 var stofnuð sérstök námsbraut við Háskóla Íslands í greininni. Markmiðið var að efla faglega umræðu og styrkja faglegt starf innan safna hér á landi. Hátt í 60 manns hafa lokið MA námi í safnafræði á tímabilinu og tveir nemendur lokið doktorsprófi. Margir af þessum nemendum hafa skilað sér til starfa innan safnageirans og styrkt þar með faglegt starf hans. Samstarf námsbrautarinnar í safnafræði og safna í landinu hefur verið til fyrirmyndar, en söfnin hafa stutt við námið með ýmsum hætti og í raun gert það mögulegt eins og að var stefnt. Í þessari málstofu verður horft fram á veginn og spurt hvernig styrkja megi enn frekar tengsl safnafræðinámsins við störf safna. Hvaða tækifæri blasa við og hvernig má efla faglegt safnastarf í landinu í nánustu framtíð? Umsjón hafa Sigurjón B. Hafsteinsson prófessor og Guðrún Dröfn Whitehead lektor.