Tag Archives: Farskóli

Farskóli 2020 – AFLÝST

ÁRÍÐANDI tilkynning – Farskóli 2020 í Vestmannaeyjum – AFLÝST

Kæru félagsmenn,

Nú þann 13. ágúst sl. fundaði stjórn FÍSOS ásamt stjórn farskólans 2020. Í ljósi hertra aðgerða Almannavarna undanfarnar vikur var það samhljóða niðurstaða fundarmanna að aflýsa fyrirhuguðum farskóla félagsins sem átti að halda í Vestmannaeyjum 23.-25. september nk. Stjórn FÍSOS þakkar Herði Baldvinssyni, forstöðumanni Sagnheima, fyrir góðan undirbúning fyrir farskólann en félagið fær að eiga hans góða heimboð inni.

Það er okkar skylda, líkt og allra landsmanna, að virða samfélagssáttmálann og sýna samfélagslega ábyrgð í verki og í því ljósi er farskólanum aflýst árið 2020. Við erum öll almannavarnir áfram.

En ekki örvænta, kæru félagsmenn! Gripið hefur verið til mótvægisaðgerða og er nú í burðaliðnum undirbúningur FJARskóla með notkun hins víðfræga alheimsnets.

FJARskólastjórn 2020 mun nú setja saman nokkrar rafrænar vinnustofur sem félagið mun standa fyrir ásamt safnaráði og Safnafræði Háskóla Íslands. Hinar rafrænur vinnustofurnar munu fara fram í lok september en nánari dagskrá og fyrirkomulag verður auglýst síðar.

Við munum því hittast við hið stafræna borð nú í haust og fræðast og ræða saman með hjálp fjarfundabúnaðar.

Aðalfundur félagsins verður svo haldinn 8. október nk. en frekari upplýsingar um fyrirkomulag hans mun berast á næstu dögum. Honum verður streymt en ef aðstæður leyfa þá verður einnig boðið í sal í Reykjavík.

Ekki gleyma að síðan eiga félagsmenn von á glóðvolgu eintaki beint úr prentsmiðjunni af Safnablaðinu Kvisti inn um lúguna hjá sér um mánaðarmótin september/október en blaðið er stútfullt af fræðandi og skemmtilegum greinum sem göfga andann og létta lund.

Blásið verður á ný til farskóla félagsins á haustmánuðum 2021 og verður þá nú aldeilis gaman, enda sannast hið fornkveðna að maður er manns gaman!

Bestu kveðjur og njótið vel það sem eftir lifir sumars. Spennandi haust framundan og vonandi veirulaus vetur.

Stjórn FÍSOS og Farskólastjórn 2020.

Farskóli 2020 – Takið dagana frá!

Kæru félagar – velkomin til Eyja!

Dagana 23. -25. september 2020 mun Farskóli FÍSOS fara fram í Vestmannaeyjum.

Takið dagana frá!

Farskólastjóri er Hörður Baldvinsson, safnstjóri Sagnheima en hann tók við safninu þann 15. maí sl.

Stjórn FÍSOS þakkar Herði fyrir að taka að sér umsjón með skólanum. Nú leitar stjórn að félagsmönnum til að skipa farskólastjórn með Herði og mega þeir því eiga von á símtali fljótlega!

Farskóli 2019 – Takið dagana frá!

Kæru félagar,

Dagana 2.-5. október 2019 mun Farskóli Safnmanna fara fram á Patreksfirði!

Takið dagana frá!

 

Hér tekið eftir - Fésbókarsíðu safnisns.

Frá Byggðasafninu að Hnjóti.

Nánari upplýsingar koma síðar…

Með bestu kveðju,

Inga Hlín Valdimarsdóttir,

forstöðumaður Minjasafn Egils Ólafssonar Hnjóti,

Örlygshöfn.

 

Farskóli safnmanna á Siglufirði 2017 – Söfn í stafrænni veröld – farskólaskýrsla

Dagana 27.-29. september 2017 fór fram hin árlegi farskóli safnmanna á Siglufirði. Dagskráin var með hefðbundnu sniði; sambland fyrirlestra, vinnustofa, skoðunarferða og almennrar gleði. Yfirskrift skólans var Söfn í stafrænni veröld.

Í ljósi þess að undanfarna áratugi hefur tækniþróun fjölgað möguleikum safna til miðlunar svo um munar var ákveðið að leggja fram ýmisskonar spurningar og skipuleggja dagskrána út frá þeim. En íslensk söfn hafa tileinkað sér ólíkar og fjölbreyttar leiðir til að miðla þekkingu og fróðleik.

Á farskóla 2017 var horft til áskorana, ógnana og nýrra möguleika í því samhengi. Hvernig geta söfn nýtt sér tæknina til framþróunar og vaxtar? Getur tæknin dregið úr upplifun gesta á sýningum? Hvernig má nýta tækni nútímans til þess að átta sig á ráðgátum fortíðar og tryggja varðveislu gripa og muna til framtíðar?

Markmið farskólastjórnar var allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi – því þó við störfum öll á sama vettvangi geta störf okkar verið æði ólík með tilliti til sérhæfingar, menntunar og hlutverks í starfi.

Farskólastjóri og farskólastjórn hefur nú skilað stjórn FÍSOS skýrslu um dagana á Siglufirði og er henni færðu bestu þakkir fyrir. Stjórn FÍSOS hvetur félagsmenn að kynna sér skýrsluna við fyrsta hentugleik. Farskólastjórn 2017: Anitu, Steinunni Maríu, Haraldi Þór, Sigríði og Herði eru færðar bestu þakkir fyrir þeirra góðu vinnu.

Söfn í stafrænni veröld. Farskólaskýrsla 2017