• 08/02/2023

    Nafn:  Eyrún Helga Ævarsdóttir

    Safn: Menningarmiðstöð Hornafjarðar

    Staða: Forstöðumaður

    Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana?

    Þessa daganna erum við að setja upp nýja sýningu í sem heitir Blámi og er sýning Þorvarðar Árnasonar,  í sýningarstjórn Þórönnu D. Björnsdóttur. Við erum einnig að vinna að mjög stóru skráningar verki þar sem við erum að skrásetja menningarminjar Kvískerja. Barnastarfið er mikið og við erum með reglulegar sögustundir í bókasafninu og Krakkaklúbbin Kóbra á Svavarssafni en það eru margir hópar, með mismunandi áhugamál og á öllum aldri sem heimsækja okkur í viku hverri. Þá erum við einnig að skipuleggja menningarhátíð Austur- Skaftafellssýslu sem er stór viðburður hér í bæ.

    Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni?

    Ég slysaðist inn í safnaheiminn 2012 og hef ekki snúið við síðan. En þannig er mál með vexti að þegar ég var ný útskrifuð úr Landbúnaðarháskólanum með Bs í Umhverfis og skipulagsfræðimenntun þá var enga vinnu að fá í landslagsarkitektúr, en ég krækti í vinnu á Byggðasafni Garðskaga og síðan hef ég ekki litið til baka. Í dag er ég í masternámi í menningarstjórnun á Bifröst og vinn enn að menningarmálum.

    Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið?

    Það er svo fjölbreytt og spennandi að vinna í menningunni, mannlífið er svo fjölskrúðugt og menningin svo dínamísk og það er það sem við erum að vinna með alla daga.

    Geturðu nefnt einhverja eftirminnilega uppákomu í starfinu?

    Ég fer að hugsa um stressið í kringum sýningaropnun en í mínum huga eru eftirminnilegar stundir í starfinu, samveran með samstarfsmönnum gleðin og vinnan en eftirminnilegustu stundirnar finnst mér vera stundirnar með börnunum í barnastarfinu, að upplifa með þeim þeirra stundir, undrun og forvitni sem ég vona að fylgi þeim út í lífið

    Hver er þinn uppáhalds safngripur?

    Listaverk eftir Svavar Guðnason sem heitir Sexappíl og er olíumálverk málað 1943.

    Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?

    Ég hef heimsótt mörg söfn en eftirminnilegast er þjóðminjasafn Skotlands í Edinborg þar sem hægt er að skoða svo margt og safnið er algjör undraheimur.