Þann 25. apríl 2018 var haldinn umræðufundur með frambjóðendum til sveitarstjórnarkosninga á höfuðborgarsvæðinu. FÍSOS, FÍS og fagdeild safnafólks í Fræðagarði boðuðu til fundarins.
Félögin óskuðu eftir stefnu og afstöðu framboðanna til m.a. eftirfarandi spurninga er varða safnamál:
Hver er stefna þíns flokks/framboðs í safnamálum og hverjar eru helstu áherslur til næstu fjögurra ára? Hvar má nálgast stefnuna?
Menningarstefna borgarinnar er okkar leiðarljós enda hafa fulltrúar okkar tekið þátt í mótun hennar í borginni síðustu árin. Menningarstefnunni fylgir aðgerðaráætlun sem fylgt er eftir með markvissum hætti. Reykjavík er skapandi menningarborg, vettvangur fyrir skapandi fólk og viðburði og þar leika söfnin stórt hlutverk. Samfylkingin mun styðja þétt við menningar- og safnastarf í borginni á næsta kjörtímabili líkt og síðustu ár.
Nokkur atriði um menningarmál úr stefnu Samfylkingarinnar í Reykjavík:
„Menningarborgin Reykjavík – aðdráttarafl fyrir listsköpun. Reykjavík er heimili handritanna okkar fornu, sem UNESCO telur til menningarminja alls heimsins. Hús íslenskunnar gefur tækifæri til að setja upp löngu tímabæra sýningu á þessum merku gripum og setja þá í alþjóðlegt samhengi. Þarna eiga borgaryfirvöld og ríkið að taka höndum saman.“
„Komið verði á fót Menningar- og heilsukorti fatlaðra í Reykjavík sem veiti gjaldfrjálsan aðgang að bókasöfnum og öðrum söfnum á vegum borgarinnar sem og í sundlaugar. Þá fá allir boð um heilsueflandi heimsókn þar sem kortið er kynnt og hvað sé í boði í nærumhverfinu sem tengist kortinu.“
„Stækkun og efling Borgarbókasafns í Grófarhúsi er mikið tækifæri til að víkka hlutverk safnsins og hússins sem lifandi og fjölbreytt menningar-, margmiðlunar-, lýðræðis-, barna- og bókahúss fyrir alla borgarbúa. Áfram verði unnið að því að þróa nýmæli í bókasöfnum og menningarhúsum hverfanna.“
„Stilla þarf gjaldtöku fyrir þjónustu borgarinnar í hóf, einkum með hliðsjón af hagsmunum barnafólks, stúdenta, fatlaðs fólks, aldraðra og öryrkja. Halda áfram að bjóða afslætti fyrir eldri borgara eins og frítt í sund og á söfn fyrir alla 67 ára og eldri í borginni.“
„Mikilvægt er að hvetja og styðja enn frekar við samstarf leik- og grunnskóla borgarinnar við söfn, menningarmiðstöðvar og leikhús borgarinnar.“
Menning er mannréttindi: ,,Tryggja þarf aðgengi allra borgarbúa að listum og menningu, bæði sem þátttakendur og njótendur.’’ Stefnuna má finna á xsreykjavik.is.
Hvaða hlutverki gegna söfnin í þínu sveitarfélagi?
Söfnin sem Reykjavíkurborg rekur eru meðal þeirra öflugustu á landinu og eru í sífelldri þróun. Borgarsögusafn sameinar söfnin í borginni, þar undir eru Árbæjarsafn, Landnámssýningin, Ljóssmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafn Reykjavíkur og Viðey. Safnið hefur stórt hlutverk, það varðveitir menningarminjar í Reykjavík og veitir almenningi greiðan aðgang að menningararfinum. Listasafn Reykjavíkur er leiðandi safn á sínu sviði þar sem nýlega var samþykkt að hækka laun til listamanna sem þar sýna verulega. Sýningar í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, Kjarvalsstöðum og Ásmundarsal eru margar yfir árið og vekja gjarnan athygli út fyrir landsteinana. Listasafnið sýnir okkur það nýjasta í samtímalistinni sem og menningararfinn okkar, færir okkur það besta í innlendri og erlendri myndlist. Safnið hefur margþætt hlutverk sem vettvangur söfnunar, rannsókna og miðlunar á íslenskri myndlist. Hlutverk Listasafns Reykjavíkur og Borgarsögusafns er því afar mikilvægt fyrir borgina og til þess að rækta áfram hlutverk sitt þurfa söfnin áfram góðan stuðning frá borgaryfirvöldum.
Jafnvægi þarf að ríkja í safnastarfi, milli þjónustu við íbúana sem er hluti af skilgreindu samfélagslegu hlutverki safna og svo ferðaþjónustunnar. Söfn Reykjavíkur eru afar meðvituð um samfélagslegt hlutverk sitt og taka þar bæði mið af menningarstefnu borgarinnar og mannréttindastefnu þar sem fram kemur að menning sé mannréttindi. Engu að síður eru söfn öflugir ferðaþjónustuaðilar, þau hafa burði til þess að taka á móti gestum borgarinnar og miðla sögu og menningu á vandaðan og faglegan hátt. Söfnin okkar hafa þá stöðu að ná yfir landamæri og afar brýnt er að viðhalda þeirri stöðu hjá söfnunum í Reykjavík. Söfnin leggja rækt við gott samstarf við ýmsa hópa samfélagsins, ólíka markhópa og stofnanir og eru virkir þátttakendur í samfélagsumræðunni, borgarþróun og til að bæta lífsgæði borgaranna. Fræðsla leik- og grunnskólabarna er meðal hlutverka safnanna enda er miðlun mikilvæg til þess að vekja áhuga almennings á því frábæra starfi sem þar fer fram.
Hvernig sér þinn flokkur/framboð fyrir sér tengsl ferðaþjónustu og safna í sveitarfélaginu?
Tengslin eru náttúrlega mismikil milli sveitarfélaga en nær allir ferðamenn sem koma til Íslands koma til Reykjavíkur og langflestir þeirra gista hér. Söfnin hafa því fundið verulega fyrir aukningu erlendra gesta í kjölfar ferðamannastraumsins. Söfnin þurfa að vera meðvituð um þarfir ferðamanna en láta það ekki stjórna safninu. Vel hefur verið haldið á þessum málum hjá söfnunum í Reykjavík enda vilja ferðamenn sjá það sem heimamenn vilja sjá. Tengls ferðaþjónustu og safna eru afar mikil enda sjáum við sem dæmi að flestir gestir á Landnámssýningunni í Aðalstræti eru erlendir ferðamenn. Það eru fleiri sóknarfæri til að höfða til erlendra ferðamanna en það þarf að passa upp á jafnvægið og styðja við söfnin til þess að þau hafi burði til þess að taka á móti og sinna auknum fjölda ferðafólks.
Hvað hefur áunnist í safnamálum í sveitarfélaginu á síðastliðnum árum?
Stóra myndin: Í lok síðasta kjörtímabils urðu miklar breytingar á starfsumhverfi og skipulagi í safnastarfi hjá borginni, með stofnun Borgarsögusafns Reykjavíkur og sameiningu allra sögusafna borgarinnar. Það er í takti við strauma erlendis, s.s. á Norðurlöndunum og eins áherslur hjá safnaráði, að stuðla að og hvetja til þess að söfn verði eflist, m.a. með sameiningu – verði einfaldlega stærri og burðugri einingar til að geta tekist á við sífellt auknar áskoranir. Á þessu kjörtímabili var unnið eftir þeirri stefnumótun sem lögð var til grundvallar að stofnun Borgarsögusafns. Borgin hefur staðið þétt að baki safnsinu og árangursmælikvarðar sýna að þeim markmiðum sem sett voru hafa og eru nást.
Eitt af stærstu verkefnum hins nýja safns var endurnýjun Sjóminjasafnsins á Grandanum; bæði viðgerð á húsnæði og alveg ný grunnsýning. Þetta er afar viðamikið og metnaðarfullt verkefni sem mun skipta sköpum fyrir safnið, en einnig mannlífið og menninguna á Grandanum. Söfn eru og eiga að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og m.a. þátttakendur í borgarþróun.
Borgarsögusafn hefur í samstarfi við hollvinasamtök Óðins og Hollvinasamtök Magna unnið ötullega að viðhaldi þeirra skipa sem safninu tilheyra og liggja við festar á Vesturbugt. M.a. samþykkti borgarráð styrki fyrir slipptöku Magna og viðgerð. Var það gríðarlega mikils virði, því viðhald skipa á söfnum er ekki einfalt mál.
Á kjörtímabilinu var opnað nýtt og sérhannað varðveisluhús á Árbæjarsafni, sem segja má að sé bylting í varðveislumálum og leigusamningar um fjargeymslur endurnýjaðir. Enn eru til skoðunar hugmyndir um sameiginlegt varðveislusetur menningarverðmæta fyrir söfn borgarinnar. Í ár er verið að vinna enn frekar að varðveislumálum á Árbæjarsafni, með brýnum umbótum á eldvörum í gömlu munageymslum safnsins og byggingu á skýli fyrir eimreiðina Pioneer og gufuvaltarann Bríeti – sem eru dýrgripir í eigu borgarinnar. Því miður erum við stundum minnt á það að geymslumál, eða varðveislumál skipta gríðarlegu máli, nú síðast þegar bruninn varð hjá Geymslum í Garðabæ.
Árbæjarsafn hefur blómstrað, í fyrra var haldið upp á 60 ára afmæli þess og í vetur var opnunartími safnsins aukinn með vetraropnun alla daga. Það er mjög mikilvæg þjónusta fyrir íbúa borgarinnar, en einnig erlenda gesti. Árbæjarsafn hefur tekið þátt í hverfaskipulagi fyrir Ártúnsholt og Árbæ og er það eitt af markmiðunum, að tengja safnið enn betur við útivistarparadísina í Elliðaárdal. Það hefur m.a. sýnt sig í könnunum meðal íbúa að ríkur vilji er til þess að þessi tvö svæði séu betur tengd, svo úbúar hinna stóru hvefa allt um kring fái þeirra enn betur notið. Í því felast mikil lífsgæði fyrir íbúana. Safnið hefur átt í afar góðu samstarfi við skipulagssvið hvað þetta varðar.
Á Landnámssýningunni var opnuð tímabundin sýning í samstarfi við Árnastofnun á handritunum sem tengjast landnáminu í Reykjavík, miklir dýrgripir sem kölluðu á mikla uppfærslu öryggismála.
Samþykkt var í borgarráði að kaupa elsta húsið í Kvosinni, Aðalstræti 10 og setja þar upp sýningu á vegum Borgarsögusafns, sem tengist Landnámssýningunni. Þetta er gríðarlega dýmætt verkefni; elsta húsið í hjarta borgarinnar, hvorki meira né minni og skiptir okkur öll gríðarlegu máli, Reykvíkinga, alla landsmenn og gesti okkar. Unnið er að gerð þeirrar sýningar, en núna í maí verður þetta merka hús opnað almenningi, sem safn og sýningahús með 3 nýjum sýningum á vegum Borgarsögusafns. Þegar húsið verður komið í gagnið og orðin ein heild með Landnámssýningunni, verður fjallað um sögu Reykjavíkur allt frá Landnámi og fram á 20. öld. Segja má að þar verði komið hið eiginlega Borgarsögusafn. En sýningin er ekki bara bundin við það sem sjá má innandyra í þessu ágæta húsnæði heldur má segja að nærumhverfið sé einnig sögusviðið; fornleifastaðir á Alþingisreit og Lækjargötu, Víkurgarður, Grjótaþorp og hugsanlega má tengja Gröndalshúsið á einhvern hátt við starfsemina. Í gömlu Kvosinni verður þannig sögu og menningarminjum gert hátt undir höfði. Ríkur skilningur er á þessu hjá borgaryfirvöldum; hvati, stuðningur og metnaður. M.a. var samþykkt að fara í sérstaka rannsókn með könnunarskurðum í Skólabrú, að tilstuðlan borgaryfirvalda, þar sem verið var að kanna hvort þar væri að finna óhreyfðar landnámsminjar. Svo var þó ekki, enda allt raskað undir götunni, en rannsóknin var engu að síður mikils virði.
Borgarráð samþykkti að umhverfis- og skipulagssvið, ásamt Borgarsögusafni færi í samstarf við Minjastofnum Íslands og efndu til hugmyndasamkeppni um framtíðar nýtingu og yfirbragð Víkurgarðs. Sú vinna er í gangi og væntanlega næst góðu sátt um þenna merka sögustað.
Borgin lagði til fjármagn, í tengslum við íbúakosningu í Betra hverfi, til að bæta umhverfið við grásleppuskúrana við Ægissíðu og var það unnið með Borgarsögusafni. Komu þá í ljós fornleifar og var lokið við rannsókn, lögum samkvæmt á svæðinu, sem hafa gefið okkur enn betri mynd á mannvist á þessu svæði.
Búið er að byggja við Grófarhúsið, Tryggvagötu 15, þar sem Borgarbókasafnið er til húsa, ásamt Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Með þeirri viðbyggingu við Grófarhús gefst loks færi á að skapa Ljósmyndasafninu verðugan sýningavettvang á jarðhæð, enda má segja að núverandi sýningarrými sé þegar orðið of lítið og hefur þetta takmark verið á döfinni í raun allt frá því að Ljósmyndsafnið flutti inn í Grófarhús árið 2000. Þá var farið í sérstakar umbætur í fyrra til að bæta geymsluaðstöðu Ljósmyndasafnsins á 6. hæð Grófarhúss og segja má að aðstaðan þar sé nú harla góð.
Í Viðey hefur verið hlúð að menningarminjum. Ástand elstu húsa borgarinnar sem þar standa er mjög gott og hefur viðhald verið jafnt og þétt. Þá er búið að bæta aðstöðu gesta úti í eyju, í sérstöku átaki um umbætur á vinsælum ferðamannastöðum, en einnig fékkst í það verkefni styrkur í sjóði Ferðamálastofu.
Auka fjárveiting var sett til þess að hækka greiðslur til myndlistarfólks sem sýnir á Listasafni Reykjavíkur. Samtök myndlistarmanna, SÍM, fóru af stað með átakið, Við greiðum Myndlistarmönnum og í kjölfarið var tekið mikilvægt skref hjá Reykjavíkurborg og greiðslur auknar til Myndlistarfólks sem sýnir á Listasafni Reykjavíkur.
Auka fjárveiting var sett í varðveislu útilistaverka í borginni enda mæðir á þeim í íslensku veðurfari. Þar á meðal til þess að laga listaverkið Fyssu eftir Rúrí sem staðsett er í Grasagarðinum.
Auka fjárveiting til kaupa Listasafnsins á Íslandsvörðunni eftir Jóhann Eyfells við Sæbrautina.
Endurbætur á Ásmundarsafni liggja fyrir.
Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með listaverkasamkeppni í Vogabyggð og stendur að baki samkeppninni þar sem lögð er áhersla á að listaverk verði hluti af heildarhönnun almenningsrýma í hverfinu einkum á svæðum sem skilgreind eru sem þemavellir og andrými.
Listasafn Reykjavíkur fékk nýtt útlit og unnið hefur verið ötullega að því að styrkja ímynd þess.
Borgin gerði nýjan samning við Nýlistasafnið og jók framlög í ljósi umfangs og rekstrarkostnaðar en Nýlistasafnið ásamt Kling og Bang er komið í hina nýju myndlistarmiðstöð Marshallhúsið.
Hvað þarf að bæta í safnamálum í þínu sveitarfélagi?
Eins og gefur að skilja hefur afar mikið verk verið unnið á síðustu tveimur kjörtímabilum. Það má huga að því hvernig megi gera málefni safna og sýninga enn aðgengilegri fyrir íbúum og gestum borgarinnar. Jafnframt verður að huga að rafrænni skráningu betur en meginatriðin í safnamálum hafa verið í afar góðum farvegi. Huga þarf að auknu rými en Listasafn Reykjavíkur heldur utan um mikið safn listaverka og þarf aukið rými til geymslu og varðveislu og sömuleiðis aukið athafnarými innan húss og umsýslu með safnkostinn. Líkt og kemur fram hér á undan um Borgarsögusafn þarf að huga áfram að auknu húsnæði fyrir varðveislu menningarverðmæta. Söfnin eru í stanslausri þróun og starfsfólk þarf að fá tækifæri til að auka við faglega þekkingu sína og miðla henni áfram. Vinna þarf áfram að stefnumörkun á fjölbreyttum sviðum innan safnanna, líkt og á sviði þjónustu og rannsókna og hlúa áfram að þeim mikla og góða mannauði sem starfar innan safnanna.
Viðbrögð við ályktun (send fyrir fund):
Samfylkingin í Reykjavík tekur undir ályktun stjórnar Félags íslenskra safna- og safnamanna (FÍSOS), Félags íslenskra safnafræðinga (FÍS) og fagdeildar safnamanna innan Fræðagarðs um framtíð safna á Íslandi. Framlög til safna í borginni hafa farið hækkandi á kjörtímabiinu og hvetur borgin ríki og önnur sveitarfélög til að fylgja fordæmi Reykjavíkurborgar við fjármögnun íslenskra safna. Söfn gegna mikilvægu hlutverki fyrir heimamenn og gesti. Reykjavíkurborg vill því efla áfram safnastarf á Íslandi í samstarfi við þau félög sem standa fyrir fundinum.
Fyrir hönd Samfyklingarinnar í Reykjavík mæta Hjálmar Sveinsson og Margrét M. Norðdahl.