Farskóli FÍSOS var haldinn á Hótel Selfossi dagana 1. til 3. október sl. Farskólinn í ár var vel sóttur, en um 160 þátttakendur skráðu sig í ár. Dagarnir voru fróðlegir og skemmtilegir en dagskráin samanstóð m.a. af fyrirlestrum, málstofum, ratleik og vettvangsferð um Suðurlandið.
Farskólinn hófst á miðvikudeginum, nýr Sarpur var kynntur, Við fengum innsýn í skapandi verkefni með fjölbreyttum hópum og farið var yfir tölfræði safna. Í kjölfarið voru Listasafn Árnesinga, Byggðasafn Árnesinga og Hersafnið á Selfossflugvelli heimsótt í hringferð um Suðurlandið undir leiðsögn Hannesar Stefánssonar. Hópurinn skemmti sér vel saman á pub quiz fyrsta kvöldið.
Bergur Ebbi opnaði fimmtudaginn fyrir okkur með erindi um söfn, sjálfsmynd og samvisku áður en fjölbreyttar málstofur á vegum safnafólks hófust. Haldnar voru 15 málstofur, í þeim var m.a fjallað um varðveislu, sýningar, framtíð torfbæja, ferðaþjónustu, safnfræðslu, listmeðferð, sjónlýsingu fyrir blinda og sjónskerta og náttúru. Dagurinn var svo brotinn upp með ratleik um Selfoss og stórskemmtileg árshátíð félagsins fór svo fram á Hótel Selfossi þar sem dansað var langt fram á nótt.
Þema Farskólans í ár var „Áreiðanleiki, trúverðugleiki og sannindi í söfnum“ sem skírskotar til nýja miðbæjarins á Selfossi og daskránni lauk með pallborði um hann. Í farskólastjórn voru Lýður Pálsson, Byggðasafni Árnesinga, sem var farskólastjóri, Sigurlaugur Ingólfsson, Borgarsögusafni, Helga Aradóttir, Náttúruminjasafni Íslands og Kristín Scheving, Listasafni Árnesinga. Með farskólastjórn starfaði einnig Dagrún Ósk Jónsdóttir starfsmaður FÍSOS.
Takk öll kærlega fyrir samveruna!
Hópmyndin er auðvitað tekin af sérlegum ljósmyndara farskólans Herði Geirssyni