Nú er FÍSOS að fara af stað með nýtt verkefni sem ber yfirskriftina Safnasóknin 2024 og snýr að því hvernig má vekja athygli á því mikilvæga starfi sem söfnin sinna, en miðað við samfélagsumræður og niðurstöður úr könnun á fjármögnun safna, er ekki vanþörf á.
Haldnir verða fjórir vinnufundir nú í vor víðsvegar um landið: á Siglufirði, Egilsstöðum, í Stykkishólmi og Reykjavík. Safnafólki úr hverjum landshluta er boðið á fundinn, sem verður tvískiptur og byggist upp á umræðum. Annars vegar verður rætt um mikilvægi safna fyrir samfélagið, styrkleika þeirra, tækifæri og ógnir og hins vegar hvaða aðgerðum sé hægt að beita til að vekja athygli ólíkra hópa á mikilvægi þeirra, svo sem þingmanna, sveitarstjórna, almennings og ferðaþjónustuaðila.
Umræðum og hugmyndum sem koma upp á fundunum verður safnað saman og útbúinn skýrsla um stöðuna og aðgerðaáætlun. Niðurstaðan verður kynnt á Farskólanum og í framhaldinu verður svo stofnaður hagsmunahópur safna.
Þar sem þetta eru hugmyndafundir væri best að fá sem flesta á fundina og eru öll sem koma að safnastarfi velkomin.
Komin er tímasetning fyrir tvo fundi:
Austurland – fundurinn verður haldinn á Egilsstöðum 16. apríl kl. 13.00-15:00 í húsnæði Austurbrúar að Vonarlandi
Norðurland – fundurinn verður haldinn á Siglufirði 18. apríl kl. 13:00-15:00 á Síldarminjasafninu
Vesturland og Vestfirðir – fundurinn verður haldinn í Stykkishólmi 30. apríl kl. 12:00-14:00 í ráðhúsinu
Höfuðborgarsvæði og nágrenni – fundurinn verður haldinn 2. maí kl. 13:00-15:00 í Lækjargötu á Árbæjarsafni
Því miður verður ekki hægt að taka þátt í þessum fundum í gegnum fjarfundarbúnað, en það er til skoðunar að bæta við einum rafrænum fundi fyrir landið allt.
Skráningarform, svo hægt sé að áætla léttar kaffiveitingar, má finna hér: https://forms.gle/6JoN5xv9YUAHQkaRA
Það er Dagrún Ósk Jónsdóttir, verkefnisstjóri FÍSOS sem er ábyrgðaraðili verkefnisins og hægt að hafa samband við hana á netfanginu doj5@hi.is ef einhverjar spurningar eru.