Nafn: Björg Einarsdóttir
Safn: Minjasafnið Bustarfelli Vopnafirði
Hvað er í gangi á þínu safni þessa dagana?
Þar sem safnið er einungis opið yfir sumarmánuðina eru engir viðburðir á dagskránni. En það eru alltaf næg verkefni við skráningu á safnkostinum. Á liðnu ári bárust safninu margar góðar gjafir sem þarf að afla upplýsinga um. Þó að formlega sé safnið lokað frá 1. sept. tökum við alltaf á móti skólahópum á haustin. Í gegnum tíðina hefur safnið líka staðið fyrir fjölmörgum viðburðum sem tengjast rökkrinu og/eða aðventunni. Til dæmis var spiluð félagsvist í gamla bænum eitt kvöld í nóvember sl. Það er alltaf dulúðleg stemning í bænum á dimmum kvöldum og langir skuggar! Haustin eru dásamlegur tími.
Hvað kom til að þú fórst að vinna á safni?
Það vill reyndar þannig til að gamli torfbærinn sem hýsir Minjasafnið er mitt bernskuheimili. Þar ólst ég upp til tíu ára aldurs. Fjölskyldan flutti svo í nýtt hús við hlið bæjarins og þar bý ég enn og hef starfað fyrir safnið áratugum saman undir hinum ýmsu titlum. Upp á síðkastið hef ég heyrt því fleygt að margir líti á mig sem einn af safngripunum. Þar sem ég er nú komin á efri ár getur það svo sem alveg gengið upp.
Hvað finnst þér skemmtilegast við safnastarfið?
Það er margt sem gleður þegar vel gengur. Til dæmis þegar hugmynd verður að sýningu sem heppnast vel, ferð með áhugasömum gestum í gegnum safnið og selja svo þeim hinum sömu veitingar í litla kaffihúsinu við hlið bæjarins. Þá eru allir búnir að gleyma að þeir voru á hraðferð og dorma með kaffibollann sinn undir húsveggnum. Það er svo notalegt hérna í sveitinni!
Geturðu nefnt einhverja eftirminnilega uppákomu í starfinu?
Tveir atburðir koma strax upp í hugann. Það var árið 2006 sem þjónustuhúsið Hjáleigan var vígt. Þessi bygging, sem rúmar snyrtingar, skrifstofu og lítið kaffihús breytti ótrúlega miklu bæði fyrir gesti og starfsfólk. Áður var algengt að gestir safnsins bönkuðu uppá hjá okkur fjölskyldunni til að komast á snyrtingu. Fólk hafði bara ekki „heilsu“ til að nota litla kamarhúsið sem annars þjónaði þessu hlutverki – þangað til það fauk!
Síðan er það útgáfa bókarinnar „Bustarfell – saga jarðar og ættar“ sem Minjasafnið gaf út síðastliðið sumar. Svo skemmtilega vill til að Finnur Águst, sem aflaði heimilda og skráði er hagvanur á Bustarfelli. Starfaði hann m.a. sem safnvörður í fleiri sumur.
Ein lítil saga í lokin um einbeitta þjónustulund. Fyrir allmörgum árum hafði ég þann starfa að taka á móti gestum í safnið. Mér til aðstoðar var fimm ára sonur minn (núverandi safnstjóri). Var hann mjög áhugasamur um verkið en sannast sagna höfðum við ekki sömu áherslur í fræðslunni og hafði hann gjarnan af mér orðið. Einn morgun var piltur mættur á bæjarhlað, vel fyrir opnun safnsins og hitti þar fyrir jakkafataklædda herramenn. Ekki fengust þeir til að fara inn í bæ að skoða safnið hvernig sem strákur reyndi. Máttu bara ekki vera að því, voru á leiðinni á fund! Nú voru góð ráð dýr, eitthvað varð að sýna þessum ágætu mönnum fyrst þeir voru nú komnir á annað borð. Þegar ég mætti svo á svæðið hafði litli leiðsögumaðurinn náð þeim með sér uppá bæinn (sem er auðvitað bannað). Þar skriðu okkar menn á fjórum fótum við agnarlitla gluggaboru á hænsnakofanum til að berja augum öldungis forviða hænur sem sátu þar á prikum sínum.
Hver er þinn uppáhalds safngripur?
Ég geri nú ekki upp á milli þeirra. Vissulega eru sumir gripir merkilegri en aðrir. Allir hafa þeir samt sögu að segja hvort sem það er sparibollastellið eða koppurinn sem safnaði keytu manna fyrir ullarþvottinn.
Hvað er eftirminnilegasta safnið sem þú hefur heimsótt (fyrir utan það sem þú starfar á)?
Það mun vera heimsókn í Skógasafn. Þar fengum við fjölskyldan ógleymanlega leiðsögn hjá Þórði Tómassyni og söng og orgelspil að auki. Í minningunni finnst mér hann hafa fylgt okkur eftir en einnig átt orðastað við aðra túrista á margvíslegum tungumálum. Af söfnum erlendis verð ég að nefna British Museum sem mína fyrstu safnaheimsókn utan Íslands. Allt sem er nýtt fyrir manni er svo áhrifamikið. Síðan er það Louvre safnið. Það var afar sérstök tilfinning að sjá með eigin augum öll þessi heimsfrægu listaverk.