Reglulega munum við beina sviðsljósinu að safngrip sem leynist á einu af þeim fjölmörgu söfnum á Íslandi. Söfnin velja gripinn og svara nokkrum laufléttum spurningum um hann.
Flugsafn Íslands
Hver er gripurinn? Flugvél af gerðinni Cessna 180, TF-HIS.
Til hvers var hún notuð? Flugvélin var sérútbúin sjúkraflugvél, sú önnur í röðinni í íslenskri flugsögu.
Hver er saga hennar?
Flugvélin var smíðuð árið 1953 og var skráð á Íslandi 24. mars 1954. Hún var í eigu Flugþjónustu Björns Pálssonar flugmanns og var keypt til landsins með aðstoð Slysavarnafélags Íslands. Félagskonur í Slysavarnafélaginu hófu söfnun fyrir kaupunum, bökuðu kökur og seldu, auk þess sem Hið íslenska steinolíufélag styrkti kaupin af miklum myndarskap og ber flugvélin upphafsstafi þess félags.
Flugvélin var notuð til sjúkraflutninga bæði á Íslandi og Grænlandi í um 20 ár og reyndist afar vel. Hún flaug allt að 150 sjúkraflug á ári og á veturna var vélin búin skíðum til lendinga við erfiðar aðstæður. Árið 1960 keypti Flugþjónustan enn öflugri sjúkraflugvél, TF-VOR af gerðinni Beechcraft Twin Bonanza. Eftir það var TF-HIS aðallega notuð þegar aðstæður voru þannig að nýja vélin gat ekki athafnað sig.
Hvernig og hvenær rataði hún á safnið?
Flugvélin var formlega gefin Flugsafninu 4. mars 2015. Eftir sviplegt andlát Björns var TF-HIS í eigu sonar hans Sveins, sem rak áfram Flugþjónustuna. Flugklúbburinn Þytur eignaðist flugvélina árið 1999, þegar Sveinn gekk í flugklúbbinn og tók vélina með sér eins og sagt er, og unnu félagar klúbbsins mikið og göfugt starf við lagfæringar á vélinni undir stjórn Jóns Júlíussonar flugvirkja. Eftir lagfæringarnar nutu margir félagar þess að fljúga vélinni vítt og breytt um landið. Icelandair keypti TF-HIS af Þyt í lok árs 2014 og gaf Flugsafninu hana til eignar og varðveislu enda um eina merkustu flugvél íslenskrar flugsögu að ræða.
Af hverju völduð þið þennan safngrip?
Flugvélin TF-HIS er einn af dýrmætustu safngripum Flugsafnsins. Hún segir sögu einstaklings og samfélags, samtakamáttar og mikilvægi flugs og fjölbreytts hlutverks þess.
Flugvélin er einnig vitnisburður um þann velvilja sem Flugsafnið nýtur og farsælt samstarf Tækniskólans og Flugsafnsins en flugvirkjanemar skólans sem stunduðu verknám í safninu unnu að því að lagfæra flugvélina og gera hana sýningarhæfa undir handleiðslu kennara. Bílaverkstæðið Höldur gaf málunina á flugvélinni og starfsmenn Isavia á Akureyrarflugvelli sáu um flutning á vélinni til og frá verkstæðinu auk þess sem hollvinir safnsins aðstoðuðu eftir þörfum. Fyrir vikið stendur hún nær enn fleiri hjörtum en ella, en margir af eldri kynslóðinni muna vel eftir TF-HIS og Birni og afrekum hans.