• 02/05/2022

    Í dag var tilkynnt hvaða söfn eru tilnefnd til íslensku safnaverðlaunanna 2022. Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum, sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Þetta er í tuttugasta og fyrsta sinn sem verðlaunin verða afhent. Í ár bárust vel á annan tug tilnefninga, ýmist frá söfnunum sjálfum og almenningi. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Alþjóðlega safnadaginn þann 18. maí, í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Viðburðurinn er opinn öllum og verður auglýstur nánar síðar.

    TILNEFNINGAR VALNEFNDAR Í STAFRÓFSRÖÐ:

    Byggðasafnið í Görðum – ný grunnsýning

    Ný grunnsýning Byggðasafnsins í Görðum, Akranesi var opnuð þann 13. maí 2021. Sýningin er staðsett í aðalsýningarhúsi safnsins á safnsvæðinu. Á sýningunni er líf íbúa á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit skoðað og sagan rakin frá sjávarþorpi og sveitasamfélagi á 17. öld til nútímalegs kaupstaðar með á áttunda þúsund íbúa. Sýningin skiptist í fjóra hluta það er lífið til sjós, lífið í landi, lífið í vinnu og lífið í leik. Gestir fá að kynnast einstaklingum sem settu svip sinn á samfélagið og heyra sögur af smáum og stórum afrekum.

    Sýningin er byggð á samspili muna, mynda og frásagna og eru ýmsar miðlunarleiðir notaðar til að leiða gesti um króka og kima bæði hússins og sögunnar. Notkun ljósmynda og kvikmynda er vel unnin og færir gestinn inn í nálæga og fjarlæga fortíð. Vönduð hljóðleiðsögn veitir gestum aðgang að upplýsingum og frásögnum og er áhugaverður hluti af sýningunni. Sagan lifnar við í gegnum vel unna texta þar sem persónulegar frásagnir hljóma í bland við annan fróðleik. Auk þess sem gestir geta þrætt sýninguna með ratleik í hönd sem byggir fyrst og fremst á sjónrænni upplifun.

    Vinnan við gerð sýningar stóð frá byrjun árs 2017 og fram í maí 2021 en samhliða grunnsýningarvinnu var farið í mikla viðhaldsvinnu á húsnæði safnsins og aðgengi að byggingunni lagað. Fleira á svæði safnsins hefur verið endurbætt og má sérstaklega nefna nýtt bátahús sem er glæsileg framkvæmd.

    Það er einstakt afrek hjá ekki stærra safni en Byggðasafninu í Görðum og eigendum þess að koma á fót grunnsýningu á borð við þessa. Hvergi er gefinn afsláttur í framsetningu og umgjörð, heldur er framúrskarandi hönnun nýtt til að leysa ýmis mál með eftirtektarverðum hætti.  Fjölmargar skemmtilegar lausnir bera hugmyndaauðgi hönnuða og aðstandenda vott.

    Það er mat valnefndar að ný grunnsýning Byggðasafnsins í Görðum sé framúrskarandi verkefni, þar sem faglegt safnastarf og vönduð úrvinnsla fara saman. Þar er hugað að því að ólíkir gestir finni eitthvað við sitt hæfi og að hver og einn geti notið sýningarinnar á sínum hraða og forsendum.  Það er augljóst að grunnsýningin er stórt verkefni sem hefur kostað mikla vinnu en snjallar lausnir hafa gert safninu kleift að skapa sýningu sem stenst fyllilega kröfur samtímans um fjölbreytta miðlun og aðgengileika.

     

    Gerðarsafn – nýjar áherslur í miðlun

    Gerðarsafn er framsækið nútíma- og samtímalistasafn þar sem lögð er áhersla á að efla áhuga, þekkingu og skilning á myndlist með sýningum, fræðslu og annarri miðlun. Á undanförnum árum hefur safnið unnið með nýjar áherslur bæði í almennri starfsemi og listrænni sýn sem talið er að sé íslensku samfélagi og safnaumhverfi til framdráttar­­.

    Safnið hefur lagt mikla áherslu á að auka og bæta fræðslustarfið almennt. Sérstakt átak hefur verið í aðgengi grunnskólabarna í Kópavogi að menningar- og safnfræðslu og þjónustu við sérhópa (fjölskyldur, eldri borgara, nýja Íslendinga). Boðið er upp á þema-heimsóknir fyrir skólahópa í samvinnu við önnur menningarhús Kópavogs og þau heimsótt í sömu ferð. Unnið hefur verið að metnaðarfullri dagskrá fyrir börn og fjölskyldur og aðra sérhópa, með það að marki að gera safnið að skapandi samverustað. Reglulega er boðið upp á fjölbreyttar vinnusmiðjur þar sem unnið er út frá sýningum og safneign.

    Unnið var að því að útvíkka fræðslustarf til allra aldurshópa með það að marki að gera myndlist aðgengilegri og vekja forvitni gesta á ólíkum hliðum myndlistar. Myndlist á mannamáli kallast nýr liður í fræðslustarfi Gerðarsafns, en þetta eru vikulegar færslur á samfélagsmiðlum og á heimasíðu safnsins sem taka fyrir hugtak innan myndlistar með örskýringum og myndum af verkum til stuðnings. Verk úr safneign eru notuð til grundvallar og með tímanum verður til hugtakabanki um myndlist á íslensku. Markmiðið er að auka aðgengileika að myndlist og lækka þröskuldinn fyrir almenning til að nálgast listaverk, skilja þau og túlka.

    Mat valnefndar er að nýjar áherslur í miðlun Gerðarsafns nái til fjölbreytts hóps gesta á ólíkum aldri þar sem mikilvægri þekkingu á sviði safnsins er miðlað til þeirra á forvitnilegan og faglegan hátt, bæði með hefðbundnum leiðum miðlunar sem og notkun á nýjum miðlum. Safninu tókst sérstaklega vel til með verkefninu Í takti þar sem markmiðið var að gera safnið unglingavænna og stofna sérstakt unglingaráð safnsins. Nýjar áherslur Gerðarsafns í miðlun á samtímalist og safnkosti er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

     

    Hönnunarsafn Íslands – Í stafrænum tengslum

    Hönnunarsafn Íslands er einstakt sinnar tegundar á Íslandi, verandi eina safnið sem safnar, skráir, rannsakar og miðlar íslenskri hönnun frá 1900 fram til dagsins í dag. Síðastliðin tvö ár hefur safnið skoðað sérstaklega þau tækifæri sem leynast í stafrænum rýmum safnsins og hvernig nýta megi þau safninu til framdráttar á líflegan og fræðandi hátt. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að líta á stafræn rými safnsins sem eðlilegt framhald af sýningarhúsnæðinu og þeir gestir sem sækja þau heim jafn mikilvægir þeim gestum sem koma inn á sýningarnar í húsnæði safnsins við Garðatorg 1.

    Þegar safnhúsið var lokað almenningi vegna COVID skapaðist svigrúm til að staldra við og rýna í stafræn rými safnsins. Hafist var handa við að skoða hvert rými fyrir sig. Hvað ætti heima í hverju

    rými, hvernig þau tengdust viðfangsefnum og starfsemi safnsins, hvaða tækifæri leyndust í þeim og hvernig safnið gæti virkjað þau. Að lokinni þessari vinnu fékk hvert rými ákveðnar áherslur og hverjum starfsmanni var úthlutað raunhæfu hlutverki. Rýmin sem um ræðir eru heimasíða, Facebook, Instagram og Google Maps.

    Meðal verkefna sem safnið hefur unnið beint fyrir samfélagsmiðla má nefna Jóladagatal á Facebook og birtist einnig sem sýning í glugga safnbúðar. Á Instagram var unnin sýning í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018 sem meðal annars er notuð í kennslu í hönnunarsögu við Tækniskólann. Þá var sent beint út á Facebook hægvarp á meðan samkomutakmarkanir voru í gildi.

    Sýningar Hönnunarsafnsins undanfarin tvö ár hafa líka vakið athygli fyrir faglega og metnaðarfulla nálgun á viðfangsefninu. Meðal annars hefur innri sýningarsalur safnsins verið nýttur sem opið rými til rannsókna og hvetur þannig til samtals safnsins við rannsakendur á sviði hönnunar. Þá hefur safnið tekið í notkun 90 fm svæði sem kallast Smiðja og er ætlað undir safnfræðslu, smiðjur, námskeið og fleira. Í anddyri safnsins hafa undanfarin misseri verið reknar vinnustofur þar sem hinir ýmsu hönnuður hafa dvalið 3 mánuði í senn og hefur það gefið möguleika á samtali milli gesta safnsins og hönnuðanna. Fyrirkomulagið lífgar upp á safnaumhverfið og gefur innsýn í aðferðafræði og störf hönnuða.

    Það er mat valnefndar að Hönnunarsafni Íslands hefur tekist einstaklega vel til við að ná til nýrra gesta með því að styrkja og nýta enn betur hin stafrænu tengsl sem eru orðin hluti af daglegum veruleika samfélagsins. Öflug miðlun safnsins á safnskosti og rannsóknum þeim tengdum, hvort sem er í sýningum þess eða í stafrænum rýmum er nýstárleg og eftirtektarverð og íslensku safnastarfi til framdráttar.

     

    Minjasafnið á Akureyri – safn í tengslum við samfélagið

    Minjasafnið á Akureyri er rótfast í eyfirsku samfélagi og hefur verið það frá stofnun árið 1962. Starfsemi þess er fagleg og fjölþætt. Það hefur sinnt söfnun og varðveislu menningarminja af mikilli alúð, með áherslu á söfnun ljósmynda sem er öflug samfélagslegstenging og samofin öllu starfi safnsins, einkum á síðustu áratugum.

    Minjasafnið á Akureyri hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki sem af áhuga og metnaði hefur skipað því í fremstu röð minjasafna. Safnið hefur um árabil staðið mjög vel að fræðslu fyrir öll skólastig og skapað gott samstarf við skóla, uppeldisstofnanir og fleiri stofnanir og haldið fjölda fagnámskeiða fyrir nágrannasöfnin. Safnið hefur tekið virkan þátt í Eyfirska safnaklasanum frá stofnun hans árið 2005 og lagt mikla rækt við samstarf, með áherslu á alla aldurshópa. Minjasafnið á Akureyri er m.a. í samstarfi við Virk, Vinnumálastofnun, Fangelsismálastofnun og Akureyrarbæ. Í því samstarfi sinnir safnið vel samfélagslegu hlutverki sínu og aðstoðar einstaklinga við að koma jafnvægi á líf sitt um leið og það styrkir eigin starfsemi. Safnið miðlar eyfirskum menningararfi með ýmsum hætti, bæði í útgáfu og sýningum á Akureyri: í Kirkjuhvoli, í Nonnahúsi, Davíðshúsi og Friðbjarnarhúsi. Þá hefur Minjasafnið á Akureyri, samkvæmt samningi við Þjóðminjasafn Íslands, umsjón með gamla torfbænum í Laufási og sýningahaldi þar. Ein viðamesta sýning safnsins nú er sýningin Tónlistarbærinn Akureyri sem opnaði 2020 en hún er afrakstur fjögurra ára frumrannsóknar á tónlistarmenningu bæjarins. Safnið notar ýmsar leiðir til að virkja íbúa starfssvæðisins, eins og að bjóða ungskáldum að taka þátt í viðburðaröðinni Allar gáttir opnar og Skáldastund í Davíðshúsi og leita eftir beinni þátttöku íbúa í ljósmyndasýningaröðinni Þekkir þú… og ljósmyndasýningunni Hér stóð búð. Þá voru íbúar beðnir um aðstoð við að greina myndefnið, með mjög góðum árangri.

    Það er mat valnefndar að Minjasafnið á Akureyri haldi vel „lifandi“ tengslum milli svæðisbundins menningararfs og samtímans með vel skipulagðri starfsemi og hafi margsýnt hvers samfélagslega rekin minjasöfn eru megnug og mikilvæg þegar þau eru vel mönnuð og vel er haldið utan um þau. Áhersla á samfélagsleg gildi og samstarf við hina ýmsu ólíku hópa og aðila skipar Minjasafninu á Akureyri í hóp fremstu safna á Íslandi í dag.

     

    Síldarminjasafn Íslands – framúrskarandi fræðsluverkefni

    Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði stendur vörð um þann merka kafla í þjóðarsögunni sem síldin markar og kallaður hefur verið síldarævintýrið. Um er að ræða eitt stærsta safn landsins þar sem sögu síldarárana eru gerð skil með metnaðarfullri sýningargerð og öflugu fræðslustarfi.

    Síldarminjasafnið hefur um árabil tekið á móti skólahópum á öllum námsstigum, frá leikskóla til háskóla. Síðustu ár hefur safnið unnið að metnaðarfullu fræðsluverkefni sem nefnist „Safn sem námsvettvangur“, í samvinnu við Grunnskóla Fjallabyggðar. Þar eru samþætting námsgreina, skapandi starf og virkni nemenda og samvinna við nærsamfélagið á meðal áhersluatriða.

    Markmið verkefnisins er að kynna fjölbreyttan starfsvettvang safnsins fyrir börnum og unglingum á tveimur eldri stigum grunnskóla og gefa þeim færi á að sjá og skynja safnið frá öðru sjónarhorni en almennir safngestir. Námskeiðin eru þróuð í samstarfi við starfsfólk Grunnskóla Fjallabyggðar og þau sniðin að hverjum aldurshópi fyrir sig, með tilliti til gildandi aðalnámskrár og markmiða skólastarfsins. Kennslan fer fram í húsakynnum Grunnskólans og Síldarminjasafnsins og hljóta nemendur fræðslu um starfsemi safns; allt frá varðveislu gripa til skráningar, heimildasöfnunar, rannsókna, miðlunar, leiðsagna og almennrar kynningastarfsemi safnsins.

    Vetrarstarfið býr börnin undir það stóra og ábyrgðarmikla hlutverk að stjórna safninu í einn dag. Nemendur taka yfir safnið í einn dag og ganga í fjölbreytt störf; afgreiðslu, leiðsagnir um sýningar safnsins, vinnu í geymslum, vinnu við ljósmyndakost, forskráningu gripa og svo framvegis, með það að markmiði að miðla gestum því sem þau hafa lært á skólaárinu. Þannig hafa börnin stórt og þýðingarmikið markmið fyrir augum á skólaárinu og með þessu móti eru vonir bundnar við að augu íbúa í nær samfélaginu opnist enn frekar því faglega starfi sem fer fram á safninu og á söfnum almennt. Mikil ánægja var með verkefnið hjá nemendum sem og einstaklingum og stofnunum sem að því komu og íbúum nærsamfélagsins.

    Mat valnefndar er að verkefnið „Safn sem námsvettvangur“ sé fyrirmyndarverkefni. Lykillinn að velgengni þess er góð samvinna safns og skóla, sem varð til þess að sá einstaki árangur náðist að safnfræðslan varð hluti af stundaskrá þeirra grunnskólanemenda sem hún miðaði að. Þar með eflast góð tengsl við íbúa í heimabyggð og staða safnsins sem virkur þáttur í menntun og tómstundum grunnskólabarna.  Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.