• 22/05/2018

    Þann 25. apríl 2018 var haldinn umræðufundur með frambjóðendum til sveitarstjórnarkosninga á höfuðborgarsvæðinu.  FÍSOS, FÍS og fagdeild safnafólks í Fræðagarði boðuðu til fundarins.
    Félögin óskuðu eftir stefnu og afstöðu framboðanna til m.a. eftirfarandi spurninga er varða safnamál.
    Eftirfarandi svar barst frá Vinstrihreyfingunni – grænt framboð á höfuðborgarsvæðinu:
    „Stjórnir Félags íslenskra safna- og safnmanna (FÍSOS), Félags íslenskra safnafræðinga (FÍS) og fagdeild safnmanna innan Fræðagarðs hafa sent frambjóðendum til sveitarstjórna árið 2018 spurningar varðandi afstöðuna til málefna safna. Frambjóðendur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík og Kópavogi hafa kosið að senda sameiginlegt svar þar sem að sumu leyti er um að ræða almenna stefnu flokksins en að öðru leyti sérstök svör er varðar sérstöðu hvors sveitarfélags um sig.
    Hver er stefna þíns flokks/framboðs í safnamálum og hverjar eru helstu áherslur til næstu fjögurra ára? Hvar má nálgast stefnuna?
    Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur sett sér metnaðarfulla mennta- og menningarstefnu, sem nálgast má hér: http://vg.is/menntastefna/
    Í henni er nokkuð vikið að safnamálum og þá einkum mikilvægi þess að hið opinbera styðji af krafti við safnastarfsemi. Stefna flokksins er að stefna að gjaldfrjálsu aðgengi almennings að menningarminjasöfnum og öðrum söfnum sem rekin eru af ríki og sveitarfélögum. Jafnframt verði þeim gert kleift að sinna hlutverki sínu varðandi menntun, rannsóknir og nýsköpun. Áréttað er í stefnunni að opinber söfn skuli greiða listamönnum fyrir vinnu sína.
    Vinstrihreyfingin – grænt framboð á jafnframt aðild að ríkisstjórn um þessar mundir. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er sérstaklega tekið fram að á kjörtímabilinu skuli hugað að því að styrkja rekstur höfuðsafnanna þriggja. Þar á meðal verður Náttúruminjasafn Íslands styrkt til að opna eigin sýningu og gert skal ráð fyrir hönnun varanlegs safnhúsnæðis í fjármálaáætlun til fimm ára. Jafnframt verður ráðist í byggingu Húss íslenskra fræða, sem mun meðal annars hafa að geyma glæsilega en langþráða handritasýningu.
    Reykjavík:
    Á vettvangi borgarmála, er stefna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að standa vörð um rekstur hefðbundinna menningarstofnanna Reykjavíkurborgar, svo sem Borgarsögusafn Reykjavíkur, Listasafns Reykjavíkur og Borgarbókasafns. Útibú Borgarbókasafns í einstökum hverfum eru mikilvægar menningarmiðstöðvar og uppspretta fjölbreyttrar lista- og menningarstarfsemi sem ber að styrkja.
    Kópavogur:
    Í Kópavogi er stefna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að standa vörð um rekstur þeirra menningarstofnana sem þar eru þegar reknar og efla þær eftir því sem er ástæða og svigrúm til. Tryggja þarf nægilegt rekstrarfé til að söfn og menningarhús geti boðið gjaldfrjálsan aðgang að grunnsýningum.
    Aukin kraftur í starfsemi menningarstofnana felst fyrst og fremst í frumkvæði starfsmanna og stjórnenda og stjórnmálamönnum ber alltaf að mæta því með skilningi og virðingu og þeim stuðningi sem þeir geta veitt.
    Hvaða hlutverki gegna söfnin í þínu sveitarfélagi?
    Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur sérstaka áherslu á aðgengi allra þjóðfélagshópa að menningarstarfsemi. Þar er ekki aðeins átt við aðgengi í skilningi ferlimála, heldur að almenningur eigi kost á að nýta sér söfn óháð efnahag, uppruna og aðgengi. Þá er ekki síður mikilvægt að börn læri snemma að tileinka sér söfn, sem verður best gert með því að auðvelda skólum afnot af söfnunum. Starfsemi safna hefur verið að þróast til aukinnar samfélagslegrar gagnvirkni og þá þróun ber að styðja.
    Starfsemi safnanna er þó ekki bundin innan veggja þeirra, heldur hafa þau lykilhlutverki að gegna við að miðla list og sögu í almannarýminu, hvort sem er með upplýsingaskiltum, útilistaverkum eða eftir öðrum leiðum. Sumt hefur vel vel get á þessum sviðum í Reykjavík og Kópavogi, svo sem með upplýsingaskiltum um sögu og náttúru, en meðal kosningastefnumála Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er að leggja enn frekar rækt við þennan þátt, t.d. með fjölgun útilistaverka, þar með talið veggskreytinga og með söguskiltum sem miðla fróðleik til borgarbúa í nærumhverfi þeirra. Það er víðar saga og menning en í Kvosinni.
    Reykjavík
    Reykjavík er miðstöð höfuðsafnanna þriggja, en að auki er þar að finna fjölda smærri safna sem rekin eru af sveitarfélaginu, áhugamannafélögum eða einstaklingum. Þau hafa geysimiklu hlutverki að gegna, jafnt sem stoðtæki fyrir skólakerfið, sem afþreying fyrir ferðamenn og athvarf fyrir heimamenn til að auðga andann.
    Kópavogsbær
    Bókasöfn, bæði skólabókasöfn og almenningsbókasöfn, eru meðal grunnstoða menntunar og menningar í hverju sveitarfélagi auk þess sem þau gegna mikilvægu félagslegu og lýðræðislegu hlutverki. Aðgangur að þeim þarf að vera greiður og þau þurfa að búa við húsnæði og rekstrarfé sem tryggir að þau geti sinnt þessum hlutverkum.
    Gerðarsafn gegnir mikilvægu hlutverki í bænum, bæði með öflugu og framsæknu sýningarhaldi og þeim safnkosti sem komið hefur verið upp, ekki síst verkum listamanna sem hafa búið og starfað í bænum, sem eðlilegt er að lögð sé megináhersla á, en einnig verkum annarra listamanna.
    Í þessu sambandi er líka vert að minnast á mikilvægi þess að Kópavogsbær standi með þeim listamönnum á öllum sviðum sem búa og starfa í bænum og minningu þeirra sem látnir eru. Þar hefur margt verið vel gert sem mikilvægt er að halda við og efla enn frekar.
    Náttúrustofa Kópavogs gegnir samkvæmt stofnskrá sinni fjölbreyttu hlutverki varðandi rannsóknir, söfnun, skráningu og varðveislu, fræðslu, ráðgjöf um landnýtingu, skipulagsmál, náttúrvernd og umhverfismál. Mikilvægt er að henni sé gert kleift að sinna þessum verkefnum. Árið 2016 heimsóttu safnið tæplega 14.000 gestir sem segir sitt um mikilvægi þess þótt önnur verkefni skuli síst vanmetin.
    Starfsemi Héraðskjalasafnins er að sjálfsögðu mjög mikilvæg til að halda utan um skjöl og heimildir varðandi bæinn, en þar fer líka fram mikilvæg fræðslustarfsemi sem ástæða er til að styðja við. Starfsemi slíkra skjalasafna felst ekki bara í að safna og flokka skjöl heldur líka gera þau aðgengileg og stuðla að rannsókn þeirra. Þetta má aldrei gleymast við úthlutun fjár til þeirra.
    • Hvernig sér þinn flokkur/framboð fyrir sér tengsl ferðaþjónustu og safna í sveitarfélaginu?
    Söfn eru ekki aðeins mikilvæg fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar, heldur eru þau aðdráttarafl fyrir stærstu útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustuna. Ekki skal lasta þær margvíslegu og metnaðarfullu sýningar sem einkaaðilar hafa sett upp á liðnum árum, ekki hvað síst til að fanga hinn stóra hóp erlendra ferðamanna, en mikilvægt er þó að missa ekki sjónar á faglegum kröfum. Safnastarfsemi þarf að reka af innsýn og þekkingu og hefur Safnaráð Íslands þar mikilvægu hlutverki að gegna.
    Reykjavík
    Fornleifafundir í miðborg Reykjavíkur á liðnum árum fela í sér spennandi tækifæri og miklar áskoranir fyrir borgaryfirvöld. Ljóst er að ferðamenn hafa mikinn áhuga á að fræðast um upphaf byggðar í Reykjavík og kynna sér fornminjar af þessu tagi. Leita þarf leiða til að samrýma vernd og miðlun þeirra hinum þeirri miklu uppbyggingu sem nú um stundir á sér stað í miðborginni.
    Brýnt er að dreifa ferðamönnum betur um borgina en nú er, enda hefur Reykjavík upp á mun fleira að bjóða en gamla miðbæinn. Söfn borgarinnar hafa þar mikilvægu hlutverki að gegna. Má í því sambandi nefna Viðeyjarstofu, sem heyrir undir Borgarsögusafn Reykjavíkur. Viðey er falin perla sem alltof fáir ferðamenn heimsækja og má raunar sömu sögu segja um heimamenn. Eins mætti gera miklu meira úr stríðsminjum þeim sem varðveittar eru í borgarlandinu eða sögu jarðvarmans og Þvottalauganna í Laugardal.
    Kópavogur
    Varðandi tengsl ferðaþjónustu og safna í Kópavogi er eðlilegt að líta fyrst og fremst til Gerðarsafns og Náttúrustofu Kópavogs. Bæði söfnin er mjög vel staðsett á höfuðborgarsvæðinu og standa við helstu umferðaræðina þvert á svæðið. Þau hljóta líka að koma inn í myndina við frekari þróun Hamraborgarinnar og svæðisins norðan hennar sem gæti orðið styrkur fyrir ferðaþjónustu í Kópavogi. Eðlilegt er að skoða þetta í samhengi við starfsemi Markaðstofu Kópavogs og samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undir vörumerkinu Reykjavik Loves.
    Hvað hefur áunnist í safnamálum í sveitarfélaginu á síðastliðnum árum?
    Reykjavík
    Sameining Árbæjarsafns, Ljósmyndasafns Reykjavíkur, Landnámssýningar í Aðalstræti, Viðey og Sjóminjasafnsins í Reykjavík undir merkjum Borgarsögusafns Reykjavíkur var heilladrjúg og gaf hinni nýju stofnun slagkraft til að takast á við ný verkefni. Að frumkvæði Reykjavíkurborgar í samstarfi við ríkisvaldið hillir loks undir að Náttúruminjasafn Íslands geti opnað sýningu á ný í Perlunni. Vonandi verður það kveikjan að varanlegri lausn á hörmulegri áratuga hrakningasögu þessa lykilsafns.
    Kópavogur
    Eftir mikla stækkun Kópavogsbæjar á undanförnum tveim til þrem áratugum var sett upp útibú frá Bókasafni Kópavogs, Lindasafn.
    Eftir að Tónlistarsafni Íslands var komið á fót af eljusemi fáeinna áhugamanna hafði það um skeið aðsetur í Kópavogi en hefur nú fengið inni Þjóðarbókhlöðu en nýtur enn styrks frá Kópavogs. Það hlýtur að vera metnaðarmál fyrir Kópavogsbæ að halda þeim styrk við.
    Gerðarsafn og Náttúrustofa hafa verið rekin af metnaði en mikilvægt er að þar verði ekki slakað á.
    • Hvað þarf að bæta í safnamálum í þínu sveitarfélagi?
    Reykjavík
    Í fullkomnum heimi væru söfn landsmanna stærri, öflugari og fleiri. Dæmi er um söfn á hrakhólum, svo sem Leikminjasafn Íslands. Mikið væri einnig til vinnandi að Reykvíkingar eignuðust kröftugt fræðslu- og tilraunasetur í raunvísindum ætlað skólabörnum. Eins vantar safn eða söfn sem sinna ýmsum þáttum tæknisögu tuttugustu aldar, svo sem tölvutækninni.
    Það er þó varasamt að fjölga í sífellu nýjum söfnum, enda er smæð rekstrareininganna eitt af höfuðvandamálum íslensks safnreksturs. Brýnt er því að leitast við að styrkja frekar þær einingar sem fyrir eru. Það er einnig plagsiður hér á landi að hlaupa til og stofna söfn í þeim megintilgangi að finna gömlum og sögufrægum byggingum hlutverk. Húsaverndun er góð og brýn, en er ekki endilega besta átyllan til safnrekstrar. Þá er mikilvægt að gleyma ekki þeim stóra hluta safnrekstursins sem ekki er sýnilegur almenningi, s.s. skrifstofur, verkstæði og geymslur. Ljóst er að gera þarf bragarbót í geymslumálum margra safna í Reykjavík líkt og víðar.
    Kópavogur
    Frá því útbúi Bókasafns Kópavogs í Lindunum var komið á fót hefur bærinn stækkað enn til austurs. Full ástæða er til að skoða hvort ástæða sé til að styrkja enn frekar starfsemi bókasafns/bókasafna eða aðra bókasafnaþjónustu í þessum nýrri hluta bæjarins. Það má líka velta fyrir sér hvort tímabært sé að að kanna þörf og möguleika á einhvers konar menningarmiðstöð í efri byggðum Kópavogs. Það er hinsvegar varhugavert að stjórnmálaflokkar skreyti sig með einhverjum loforðum um ákveðnar aðgerðir í þessum efnum, þetta þarf að skoða með opnum huga í samstarfi við starfsfólk og annað fagfólk í þessum efnum.
    Í ársskýrslu Náttúrufræðistofu Kópavogs frá 2015 kemur í ljós að skólar í Kópavogi, sem eru í næsta nágrenni stofunnar, eru tíðari gestir en þeir sem eiga um lengri veg að fara. Ferðakostnaður og/eða ferðatími virðist því hindra
    að þjónusta Náttúrufræðistofunnar sé nýtt. Ekki kemur fram í nýrri skýrslum hvort breyting hafi orðið á þessu, en sé svo ekki er mikilvægt að bregast við því.
    Mikilvægast er að hlúa sem best að þeim söfnum sem þegar eru í Kópavogi en fara hægar í sakirnar með fjölgun þeirra. Þó er sjálfsagt að horfa til slíks með opnum huga. Framlag Kópavogsbæjar getur líka falist í styrkjum til safna eins Tónlistarsafns Íslands.“
    FÍSOS, FÍS og fagdeild safnafólks í Fræðagarði þakkar góð og skýr svör.