• 16/05/2016

    Borgarsögusafn lógo
    Á Alþjóðlega safnadaginn á Íslandi verður haldið upp á 10 ára afmæli Landnámssýningarinnar og býðst gestum frítt inn á safnið í tilefni dagsins. Einnig verður boðið upp á leiðsögn í hádeginu, kl. 12:10, og leiðsögn kl. 17:00. Á Árbæjarsafni verður boðið upp á létt spjall kl. 16.00 í einni af opnu geymslum safnsins, er nefnist Koffortið.

    landnámssýning
    Landnámssýningin Reykjavík 871 +/- 2
    Á Alþjóðlega safnadaginn á Íslandi verður haldið upp á 10 ára afmæli Landnámssýningarinnar og býðst gestum frítt inn á safnið í tilefni dagsins. Einnig verða sérstök afmælistilboð í safnbúðinni.
    Hjörleifur Stefánsson arkitekt verður með hádegisleiðsögn um Landnámssýninguna sem hefst kl. 12.10. Hjörleifur var verkefnastjóri við gerð sýningarinnar og getur aldeilis sagt frá ýmsu fróðlegu og skemmtilegu í tengslum við það.
    Orri Vésteinsson fornleifafræðingur var einn þeirra sem hafði umsjón með fræðilegu innihaldi sýningarinnar og mun fara með gesti í útileiðsögn kl. 17.00. Þátttakendur hittist uppi við anddyri sýningarinnar þar sem Orri tekur á móti hópnum. Mælum með áhugaverðri fornleifaleiðsögn.
    Á sýningunni verður hægt að stilla sér upp með vopn, hjálma og aðra víkingaleikmuni og smella af mynd. Skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna!
    Frá klukkan 15-17 mun Svanhildur María Gunnarsdóttir frá Árnastofnun leyfa gestum að spreyta sig á fjaðurpennaskrift á kálfsskinn með heimalöguðu jurtableki.
    Sýningin er opin frá 09.00-20.00
    Aðalstræti 16, 101 Reykjavík. S: 411 6370 www.borgarsögusafn.is
    Árbæjarsafn
    Í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum á Íslandi bjóðum við gestum í létt spjall kl. 16.00 í einni af opnu geymslum safnsins, er nefnist Koffortið. Ingibjörg Áskelsdóttir forvörður fjallar um það hvernig safnið varðveitir gripi og lengir líftíma þeirra með réttri varðveislu fyrir komandi kynslóðir að njóta. Gestum er velkomið að koma með lítinn hlut að heiman og pakka honum á staðnum samkvæmt viðmiðum forvörslunnar.
    Koffortið er stórskemmtileg geymsla og margir sem finna þar gripi sem færa hugann mörg ár aftur í tímann. Áhugavert fyrir unga sem aldna að skoða hvað leynist þar!
    Við opnum einnig húsin við torgið á Árbæjarsafni og býðst gestum að skoða sig um að vild.
    Kistuhylur, 110 Reykjavík. S: 411 6300, www.borgarsogusafn.is