• 15/05/2016

    listasafn islands
    Á alþjóðlega safnadaginn, 18. maí 2016, býður Listasafn Íslands gestum sínum að koma með í tímaflakk um landslag íslenskrar myndlistar. Leiðsögn í Safni Ásgríms Jónssonar, Bergstaðastræti 74 kl. 14 og kl. 15 og í kjölfarið gönguferð í Listasafn Íslands á Fríkirkjuvegi. Svo er fjölskylduganga um Laugarnes kl. 17, gengið frá Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.

    Yfirskrift alþjóðlega safnadagsins árið 2016 er Söfn og menningarlandslag (e. Museums and cultural landscape). Fjölbreyttar sýningar safnanna gefa okkur færi á að skyggnast til baka um leið og við horfum fram á veginn þar sem ólíkir miðlar, aðferðir og frásagnarmátar tala til gesta.
    Í safni Ásgríms Jónssonar, Bergstaðastræti 74, verður gestum boðið að koma með í ferðalag í tíma og rúmi þar sem við skoðum verk Ásgríms á heimili hans og vinnustofu áður en haldið er á slóðir samtímamanna hans í Listasafni Íslands. Þar verða skoðuð verk upphafsára íslenskrar myndlistar og upphaf kynningar á íslenskri myndlist erlendis á sýningunni UDSTILLING AF ISLANDSK KUNST. Í Vasulka-stofu skoðum við samtímaverk og hvernig unnið er að varðveislu listaverka sem byggja á síbreytilegri tækni. Í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga er gestum boðið með í gönguferð um menningarlandslagið Laugarnes, umhverfi safnsins. Skoðaðar verða rústir og menningarminjar og lesið í sögu landslagsins.

    Leiðsögn í Safni Ásgríms Jónssonar

    Bergstaðastræti 74 kl. 14 og kl. 15 og í kjölfarið gönguferð í Listasafn Íslands á Fríkirkjuvegi.
    Í safni Ásgríms Jónssonar sem var heimili og vinnustofa listamannsins verður boðið upp á tvær leiðsagnir þar sem ferill Ásgríms er skoðaður og settur í samhengi við samtíma hans. Hvað var að gerast á Íslandi á mótunarárum Ásgríms? Hvað þurfti á þessum árum til þess að verða listamaður, komast til mennta, ferðast og afla sér þekkingar? Á sýningunni UNDIR BERUM HIMNI – MEÐ SUÐURSTRÖNDINNI eru verk sem Ásgrímur málaði á árunum 1909–1928 eftir að hann hafði lokið námi við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Verkin eru frá ferðum hans um Suðurland þar sem segja má að hann tengist landinu á nýjan leik.
    Frá safni Ásgríms liggur leiðin að Listasafni Íslands á Fríkirkjuvegi þar sem sýningin UDSTILLING AF ISLANDSK KUNST opnar gestum sýn aftur til áranna 1920 og 1927 þegar tímamótasýningar voru haldnar í Kaupmannahöfn en þær marka upphaf kynningar á íslenskri myndlist erlendis. Verk Ásgríms eru þar ásamt verkum samtímamanna hans, Jóhannesar S. Kjarvals, Jóns Stefánssonar, Kristínar Jónsdóttur, Þórarins B. Þorlákssonar og fleiri listamanna sem kalla má frumkvöðla á sviði íslenskrar myndlistar.
    Í upphafi 20. aldar var unnið mikið brautryðjendastarf á sviði myndlistar á Íslandi og þeim fjölgaði ört sem lögðu stund á hana. Myndlistin var meðal þess sem átti þátt í að skapa sjálfsmynd hinnar fullvalda þjóðar og þar skipti miklu máli túlkun myndlistarmanna á íslenskri náttúru. Í verkum sínum tjá myndlistarmennirnir tilfinningar sínar gagnvart landinu á myndrænan hátt, um leið og þeir tala umbúðalaust og án aðstoðar tungumálsins. Á sínum tíma vakti Íslenska listsýningin mikla eftirtekt og var hún síðar talin hafa haft örvandi áhrif á íslenska myndlistarmenn og þróun íslenskrar myndlistar en sýningin skapaði grundvöll til að tengja Ísland við vestræna myndlistarhefð um leið og hún þótti til marks um íslenska sérstöðu. Með henni lauk einnig fyrsta skeiði íslenskrar nútímamyndlistar sem einkenndist af frumherjastarfi, jafnt myndlistarmanna sem annarra er áttu þátt í að skapa myndlistarlífi grundvöll hér á landi.
    Á sýningunni LJÓSMÁLUN er gerð tilraun til að skoða birtingarmyndir málverka í ljósmyndum úr íslenskri samtímalist en samband þessara miðla hefur verið margslungið og ljósmyndun og málaralist oft skilgreindar sem andstæður með vísun til ólíkra eiginleika. Gestum er hér boðið í leiðangur þar sem tveir miðlar mætast og mörk þeirra og eiginleikar renna saman.

    • Rakel Pétursdóttir, deildarstjóri rannsókna og Safns Ásgríms Jónssonar, tekur á móti gestum klukkan 14.
    • Björg Erlingsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar, tekur á móti gestum klukkan 15.

    Opið hús í Listasafni Íslands

    VASULKA-STOFA LISTASAFN ÍSLANDS – FRÍKIRKJUVEGUR 7
    Tekið er á móti gestum í Vasulka-stofu og sagt frá því starfi sem þar fer fram, list þeirra hjóna Steinu og Woody Vasulka, samstarfsverkefnum Vasulka-stofu og mikilvægi skráningar, varðveislu og rannsókna á vídeólist og verkum unnum með rafrænum miðlum.
    Vasulka-stofa veitir góða innsýn inn í verk Vasulka-hjónanna og eflir aðgang að efni um list þeirra og frumkvöðlastarf. Vasulka-stofu er einnig ætlað að efla vinnuumhverfi listamanna er vinna með vídeó og aðra rafmiðla.
    Ragnheiður Vignisdóttir listfræðingur tekur á móti gestum.

    Fjölskylduganga um Laugarnes kl. 17

    LISTASAFN SIGURJÓNS ÓLAFSSONAR − LAUGARNESTANGA 70
    Laugarnes er eitt elsta menningarlandslag á landinu og heillandi náttúruvin, rík af sögulegum minjum. Þar má sjá ummerki eftir ellefu hundruð ára byggð og er þess getið í Njáls sögu að Hallgerður langbrók hafi átt jörðina um skeið. Birgitta Spur, stofnandi Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, hefur átt heima á Laugarnesi síðan þar var þéttbýl braggabyggð eftirstríðsáranna og hún leiðir gesti um svæðið. Foreldrar eru hvattir til að koma með börnin sín og fræðast um söguna sem er mörgum fjarlæg, en má nálgast á stað eins og þessum.