• 03/09/2010

  Nýlistasafnið var stofnað 5. janúar 1978 og fagnaði því 32 ára afmæli á þessu ári. Í tilefni af 30 ára starfsemi safnsins var gefin út bókin Nýlistasafnið 1978–2008 sem er sögulegt yfirlit um starfsemi, forsendur og hlutverk safnsins sett fram á áhugaverðan og aðgengilegan hátt. Þetta sjónræna uppflettirit er skemmtileg nýbreytni í safnastarfi þar sem tekist hefur að samþætta hönnun, tíðaranda og tilgang safnsins í eins konar safngrip sem mögulega heldur sýningum og hugsjón safnsins lifandi með frekari umræðu og úrvinnslu á þeirri starfsemi sem fram hefur farið undanfarna áratugi. Í bókinni er einnig að finna fróðlega atburðaröð eða tímalínu sem unnin var úr fundargerðum og heimildum úr skjala- og gagnasafni Nýlistasafnsins.
  Efnt var til viðamikils skráningar- og rannsóknarverkefnis á safneign og gögnum er tengdust sögu safnsins sem hófst formlega í byrjun árs 2008. Árangurinn af skráningarvinnunni fól í sér víðtæka samvinnu við listamenn og fagaðila og var vinnuferlið gert sýnilegt sem hluti af starfsemi safnsins. Varðveisla og heimildir um gjörninga og gjörningatengd verk skiptir hér sköpum því sá listmiðill hefur gjarnan orðið undir í söfnunarstefnu annarra listasafna á Íslandi. Nýlistasafnið hefur öðrum söfnum fremur fóstrað grasrótina í listsköpun eins og nafn safnsins gefur til kynna og aldrei hvikað frá þeirri stefnu. Það Safnið hefur frá upphafi verið virkur vettvangur fyrir sýningar, listviðburði og staðið fyrir söfnun á samtímamyndlist. Þegar skoðaður er sýningayfirlit Nýlistasafnsins sem telur yfir 350 blaðsíður þá er tenging safnsins við alþjóðlegt myndlistarlíf óumdeilanleg. Það að bjóða íslenskum og erlendum listamönnum að sýna saman hefur einnig verið mikilsvert framlag til íslensks listalífs og án efa virkað sem hvetjandi þáttur í starfsemi þess, fyrir íslenska myndlist og ekki síst fyrir almenning. Safnið hefur sérstöðu hvað varðar stjórnun þess og eignarhald en íslenskir myndlistamenn hafa stjórnað safninu frá upphafi og unnið þar sleitulaust að mestu í sjálfboðavinnu. Á þessum þremur áratugum hefur rekstur Nýlistasafnsins orðið bæði formlegri og faglegri með því að hefðbundnum skyldum safna hefur í auknum mæli verið sinnt án þess að kraftur og sveigjanleiki safnsins sem vettvangur gagnrýninnar listumræðu hverfi.
  Þann 27. febrúar 2010 opnaði Nýló starfsemi sína að Skúlagötu 28 sem er fimmta staðsetning safnsins frá upphafi og telur safneign nú um 2000 verk.

  Dómnefnd telur að Nýlistasafnið hafi, með þeirri vinnu sem safnið fór í, sýnt fram á mikilvægi sýnileika safneignar fyrir starfsemi safna og menningarstarfs almennt. Nýlistasafnið stóð frammi fyrir fjölmörgum áskorunum bæði hvað varðar húsnæðismál og á sviði varðveislu og skráningar safneignarinnar, þar sem verk í eigu þess voru oft á tíðum gerð úr forgengilegum efnum eða listhugsun verksins sú að það ætti sér ekki lengri lífdaga en sem nam sýningartímabilinu eða framkvæmd gjörnings. Þrátt fyrir áskoranir og erfiðleika hefur starfsemi safnsins farið fram með góðu fordæmi.

  Forsvarsmenn NýlistasafnsinsAfhending safnaverðlaunanna 2010 – Ljósm. Guðbrandur Benediktsson

  Forsvarsmenn Nýlistasafnsins ásamt forsetahjónunum