• 03/09/2010

    MASTER CLASS Í SAFNAFRÆÐUM
    Listasöfn, sýningar og sölugallerí fyrir myndlist
    4.-5. október 2010
    Leiðbeinandi Dr. Magnús Gestsson safnafræðingur
    Master class í safnafræðum er samvinnuverkefni námsbrautar í safnafræðum
    við Háskóla Íslands og Listasafns Árnesinga.
    Listasöfn, sýningar og sölugallerí fyrir myndlist
    Listasöfn og sölugallerí fyrir myndlist eru í hugum margra ósamrímanleg
    fyrirbæri þar sem safnið gegnir víðtæku varðveislu og fræðsluhlutverki á
    meðan goðsögnin um listaverkasala byggir á því að þeir hugsi eingöngu um
    að hagnast fjárhagslega á snilld listamanna sem venjulega bera lítið úr
    bítum. Hinsvegar kemur oft í ljós að saga listmarkaða og safna er nátengd
    og menningarlegt hlutverk listmunasala er mikilvægara og margþættara en
    margur hyggur. Til að varpa ljósi á þessi fyrirbrigði þá fjallar þetta
    námskeið um tengsl safna og listmarkaða, tilgang sýninga í listasöfnum og
    sölugalleríum og tilurð menningarverðmæta í galleríum í London,
    Kaupmannahöfn og Reykjavík. Farið verður yfir sögu listmarkaða og safna og
    helstu kenningar verða reifaðar sem liggja að baki skilnings okkar á
    sýningum, söfnum, sölugalleríum og listheiminum.
    Magnús Gestsson er með MA gráðu í safnafræðum frá Leicester-háskóla og MA
    í sögu myndlistar, hönnunar og húsagerðarlistar frá De Montfort-háskóla í
    Bretlandi. Magnús er jafnframt nýdoktor í safnafræðum frá
    Leicester-háskóla í Bretlandi en hann varði doktorsritgerð sína Commercial
    Galleries in Copenhagen, London and Reykjavík: a comparative study of the
    formations, contexts and interactions of galleries founded between 1985
    and 2002, 31 júlí 2009. Í ritgerðinni eru galleristar skoðaðir í samhengi
    við kenningar fræðimanna um listheiminn. Rannsóknin beinist að samspili
    menningarumhverfis og athafnasemi gallerista í Kaupmannahöfn,
    Austur-London og Reykjavík. Gengið er út frá eflingu myndlistarmarkaðarins
    sem tengist safnaranum Charles Saatchi og svonefndum ‘Young British
    Artists’. Skoðað er hvort og hvernig þessi þróun hafði áhrif í
    Kaupmannahöfn og Reykjavík. Með því að byggja a viðtölum við
    listaverkasala og rannsóknum á borgarmenningu og menningarumhverfi sýnir
    ritgerðin fram á að galleristar eru drifnir áfram af sköpunarkrafti og
    listrænni sýn sem er oftast á kostnað markaðsvitundar. Með þeim aðferðum
    sem beitt var við rannsóknina var einnig hægt að greina einstaka listheima
    sem eru afkvæmi borganna og ofnir inní menningarumhverfi þeirra. Helstu
    áhugamál Magnúsar eru að örva samræður samfélags og samtímalistar,
    sýningarstjórnun og rannsóknir fyrir sýningar í listasöfnum og
    sölugalleríum. Auk þess beinist áhugi Magnúsar að samskiptum þessara
    stofnana við viðskiptavini sína og byltingum í söfnum, sölugalleríum,
    listmörkuðum og listheimum. Magnús hefur haldið fyrirlestra  og framsögur
    um söfn, sölugallerí, myndlistarmarkaði og listasögu við University of
    Leicester og De Montfort University í Leicester. Hann hefur jafnframt
    verið aðstoðarsýningarstjóri við Embrace Arts, the University of
    Leicester´s Arts Centre
    Námskeiðið verður haldið á Listasafni Árnesinga í Hveragerði, daganna 4. –
    5. október, frá kl. 10:00 – 16:00. Námskeiðið er opið öllum sem áhuga hafa
    á viðfangsefni þess.
    Vert er að benda á að strætó, leið 51, gengur milli Reykjavíkur og Selfoss
    með stoppistöð við Listasafnið í Hveragerði.
    Þátttökukostnaður er kr. 15.000. Innifalið í verði eru námskeiðsgögn og
    kaffiveitingar. Þátttakendum er bent á að leita til starfsmannafélaga sem
    veita upplýsingar um styrki til þátttöku í endurmenntunarnámskeiðum.
    Umsókn um þátttöku, ásamt greiðslu námskeiðsgjalds, þarf að berast fyrir
    10. september. Umsóknir skal sendast á tölvupósti til Listasafns Árnesinga
    (listasafn@listasafnarnesinga.is) ásamt upplýsingum um: NAFN, KENNITÖLU OG
    HEIMILISFANG. Námskeiðsgjald skal greiðast í heimabanka á eftirfarandi
    reikning: 0152-26-010910. Takið fram kennitölu þátttakanda í skýringu á
    greiðslu. Listasafn Árnesinga og námsbraut í safnafræði við HÍ áskila sér
    rétt til að fella niður námskeiðið verði þátttaka ekki nægileg.