Íslensku Safnaverðlaunin 2010 voru afhent við hátíðlega athöfn að Bessastöðum á íslenska safnadaginn, sunnudaginn 11. júlí.
Þrjú söfn voru tilnefnd til hinna íslensku Safnaverðlauna 2010. Að þessu sinn er val dómnefndar fjölbreytt og endurspeglar þau ólíku söfn sem finna má í íslenskri safnaflóru. Eftirtalin söfn eru tilnefnd til Safnaverðlaunanna 2010: Byggðasafn Skagfirðinga, Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og Nýlistasafnið í Reykjavík.
Íslandsdeild ICOM (Alþjóðarás safna) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að íslensku safnaverðlaununum sem veitt eru annað hvert ár safni sem með starfsemi sinni þykir skara fram úr. Dómnefnd útnefnir þrjú söfn og velur þau úr innsendum hugmyndum en auglýst er eftir ábendingum frá almenningi, félagasamtökum og fagaðilum. Dómnefndin er skipuð fulltrúum félagann tveggja og fulltrúa frá því safni sem síðast hlut verðlaunin. Í ár bárust meira en sjötíu ábendingar. Úrdráttur úr umsögn dómefndar um söfnin þrjú fylgir hér á eftir en hún var ítarlega og vel rökstudd.
Verðlaunin voru nú veitt í sjöunda sinn. Þau voru fyrst veitt á hverju ári en undafarið hafa þau verið veitt annað hvert ár. Eftirtalin söfn hafa fengið íslensku Safnaverðlaunin: Síldarminjasafninu á Siglufirði árið 2000, Listasafns Reykjavíkur – fræðsludeild 2001, Byggðasafn Árnesinga 2002, Þjóðminjasafns Íslands – myndasafn 2003, Minjasafn Reykjavíkur 2006, Byggðasafn Vestfjarða 2008..
Umsögn dómnefndar:
Byggðasafn Skagfirðinga – Glaumbæ
Byggðasafn Skagfirðinga var stofnað 15. júní 1952 og hefur aðsetur sitt í Minjahúsinu á Sauðárkróki og í Glaumbæ í Skagafirði. Safnið hefur um árabil verið öflug menningarstofnun, þar sem það hefur rækt lagalega skyldur sínar, sem byggðasafn og um leið með öflugri starfsemi tekist á við ótal menningarleg verkefni á starfsvæði sínu. Forsvarsmaður safnsins og starfsmenn þess hafa haft frumkvæði og verið öðrum söfnum víða um land til fyrirmyndar hvað varðar söfnun, varðveislu og skráningu, rannsóknir og miðlun á sviði byggðamenningar.
Áhrifin af þessari öflugu starfsemi hefur leitt til þess að faglegur metnaður hefur aukist hjá sambærilegum stofnunum á svæðinu og í sumum tilfellum hefur verið stofnað til nýrra menningarstofnana á borð við Vesturfarasetrið á Hofsósi, sem með fulltingi Byggðasafns Skagfirðinga er orðin öflug miðstöð rannsókna og miðlunar á Vesturheimsferðum Íslendinga á 19. og 20. öld.
Dómnefnd telur að Byggðasafnið Glaumbær sé eitt af mörgum söfnum Íslands sem hefur sinnt öllum lagalegum skyldum sínum af alúð og ódrepandi áhuga. Með elju sinni hefur það opnað augu Skagfirðinga og annarra fyrir mikilvægi þess að byggðalög eigi sér og annist sín menningarverðmæti og þannig sinnt samfélagslegum skyldum sínum.
Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi
Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi var stofnað árið 1976. Safnið skapaði sér strax í upphafi ákveðna sérstöðu þar sem lögð var áhersla á söfnun, rannsóknir og sýningar á heimagerðri tóvinnu og textílmunum á borð við þjóðbúninga og listfengnar hannyrðir. Safnið hefur haft mikil áhrif á safna- og menningarstarf í landinu með ýmsum hætti. Sem dæmi hefur safnið sýnt fram á mikilvægi þess að söfn líti á söfnunarflokka á borð við textíl, sem mikilvægt framlag til menningarsögu landsins og að hlúa skuli að þeim arfi með sýningum og rannsóknum. Sýningar safnsins eru einnig mikilsvert framlag til þeirrar endurnýjunar sem íslenskur menningararfur hefur gengið í gegnum á síðastliðnum tveimur áratugum, þar sem lögð hefur verið áhersla á notagildi arfsins til miðlunar og nýsköpunar.
Dómnefnd telur að Heimilisiðnaðarsafnið sé eitt þeirra safna á Íslandi sem hefur sýnt fram á mikilvægi þess að safna og varðveita þann hluta menningararfsins sem flestir hafa litið á sem hversdagslega hluti eins og textíl sem flokkaðist lengi vel sem heimilisiðja. Safnið hefur, með útgáfum, málþingum og sýningum, sýnt fram á að textíll í allri sinni mynd er mikilvæg menningarverðmæti sem ber að varðveita og hlúa að. Textílarfleifðin er þar notuð markvisst sem grunnur að hönnun nýrra og skapandi muna.
Nýlistasafnið
Nýlistasafnið var stofnað 5. janúar 1978 og fagnaði því 32 ára afmæli á þessu ári. Í tilefni af 30 ára starfsemi safnsins var gefin út bókin Nýlistasafnið 1978–2008 sem er sögulegt yfirlit um starfsemi, forsendur og hlutverk safnsins sett fram á áhugaverðan og aðgengilegan hátt. Þetta sjónræna uppflettirit er skemmtileg nýbreytni í safnastarfi þar sem tekist hefur að samþætta hönnun, tíðaranda og tilgang safnsins í eins konar safngrip sem mögulega heldur sýningum og hugsjón safnsins lifandi með frekari umræðu og úrvinnslu á þeirri starfsemi sem fram hefur farið undanfarna áratugi.
Efnt var til viðamikils skráningar- og rannsóknarverkefnis á safneign og gögnum er tengdust sögu safnsins sem hófst formlega í byrjun árs 2008. Árangurinn af skráningarvinnunni fól í sér víðtæka samvinnu við listamenn, fagaðila, og var vinnuferlið gert sýnilegt sem hluti af starfsemi safnsins. Varðveisla og heimildir um gjörninga og gjörningatengd verk skiptir hér sköpum. Nýlistasafnið (Nýló) hefur frá upphafi verið virkur vettvangur fyrir sýningar, listviðburði og staðið fyrir söfnun á samtímamyndlist. Þann 27. febrúar 2010 opnaði Nýló starfsemi sína að Skúlagötu 28 sem er fimmta staðsetning safnsins frá upphafi og telur safneign nú um 2000 verk.
Dómnefnd telur að Nýlistasafnið hafi, með þeirri vinnu sem safnið fór í, sýnt fram á mikilvægi sýnileika safneignar fyrir starfsemi safna og menningarstarfs almennt. Nýlistasafnið stóð frammi fyrir fjölmörgum áskorunum bæði hvað varðar húsnæðismál og á sviði varðveislu og skráningar safneignarinnar, þar sem verk í eigu þess voru oft á tíðum gerð úr forgengilegum efnum eða listhugsun verksins sú að það ætti sér ekki lengri lífdaga en sem nam sýningartímabilinu eða framkvæmd gjörnings. Þrátt fyrir áskoranir og erfiðleika hefur starfsemi safnsins farið fram með góðu fordæmi.