• 01/12/2006

  Þegar tillaga kom fram á aðalfundi FÍSOS nú í september um að halda næsta farskóla erlendis spunnust um það nokkrar umræður og var niðurstaðan sú að stjórn félagsins og kosnum farskólastjórum yrði falið að vinna málið áfram og athuga nánar með möguleika á því að halda farskólann 2007 í útlöndum.
  Auk þess var á fundinum gerð létt skoðanakönnun um hver áhuginn væri meðal fundarmanna á að farskólinn yrði í Glasgow, og hafði meirihlutinn mikinn áhuga á þeirri staðsetningu.
  Farskólanefnd og stjórn félagsins áttu góðan fund um ofangreind mál nú í vikunni og er ekki annað að sjá en þetta sé vel mögulegt. Hefur farskólastjórn nú unnið hörðum höndum að því að finna sem hagstæðastan ferðamáta og gistingu en einnig að því komast í samband við söfn og viðeigandi stofnanir í Skotlandi sem geta tekið á móti hópnum.
  Má ætla að tímasetning farskólans verði í lok september og standi skólinn líklega 3-4 daga. Ætla má að kostnaður fyrir hvern mann verði ekki undir verði góðrar helgarferðar til Evrópu en upplýsingar um endanlegt verð liggja ekki fyrir.
  Nánari upplýsingar verða kynntar á heimasíðu félagsins jafnskjótt og farskólanefnd hefur fengið viðhlítandi svör um tilboð og annað það sem að skipulagningunni kemur.
  Fyrir áhugasama um Glasgow má benda á heimasíðuna www.seeglasgow.com þar sem fjallað er um borgina í máli og myndum. Athugið að síðan er líka á íslensku en þá þarf að velja Icelandic í flipanum Languages.
  Glasgow kveðja,
  farskólastjórn