• 03/10/2006

    Minjasafn Reykjavíkur hlýtur Íslensku safnaverðlaunin 2006
    Minjasafn Reykjavíkur hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2006, en verðlaunin voru veitt af Félagi íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) og Íslandsdeild ICOM (Alþjóðaráði safna) við hátíðlega athöfn 28. september. Það var einróma niðurstaða dómnefndar að veita Minjasafni Reykjavíkur, Árbæjarsafni, Íslensku safnaverðlaunin, enda hefur safnið með fjölbreyttum sýningum lagt fram mikilvægan skerf til eflingar faglegs starfs í sýningargerð, að mati dómnefndar. Hjörleifur Guttormsson afhenti Guðnýju Gerði Gunnarsdóttur, borgarminjaverði, verðlaunin við hátíðlega athöfn í Egilsbúð á Neskaupsstað. Dómnefnd Íslensku safnaverðlaunanna í ár var skipuð þeim Kristínu Guðnadóttur og Lilju Árnadóttur frá Íslandsdeild ICOM og Ingu Láru Baldvinsdóttur og Karli Rúnari Þórssyni frá FÍSOS, Félagi íslenskra safna og safnmanna.
    Íslensku safnaverðlaunin 2006
    Íslensku safnaverðlaunin má rekja til ársins 1999 þegar Íslandsdeild ICOM (Alþjóðaráð safna) efndi til samstarfs við FÍSOS, Félags íslenskra safna og safnmanna um að veita einu safni á Íslandi viðurkenningu fyrir faglegt starf. Hugmyndin var rædd í stjórnum félaganna og ákveðið að þau í sameiningu tækju frumkvæðið að því að stofna til og veita slík verðlaun.  Markmið verðlaunanna frá upphafi hefur verið að efla metnað íslenskra safna og hvetja þau til að kynna menningararf þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt. Verðlaunin eru veitt einu safni sem þykir hafa skarað fram úr og ekki er gerður greinarmunur á tegund safna. Slík verðlaun eru þekkt í nágrannalöndum okkar.  Á vegum Evrópuráðsins eru evrópsk safnaverðlaun veitt einu safni í þremur flokkum auk sérstakra tilnefninga sem söfn geta hlotið fyrir góðan árangur.
    Íslensku safnverðlaunin eru mikilvæg viðurkenning. Verðlaunagripurinn er áletraður málmskjöldur hannaður af Sigríði Bragadóttur grafískum hönnuði. Fyrirmynd myndefnis á skildinum sótti höfundur í Hólaprent Guðbrandar biskups Þorlákssonar.
    Frá upphafi hefur verið farin sú leið að verðlauna fyrir einstaka þætti safnastarfsins og hefur dómnefndin haft að leiðarljósi þá meginþætti er safnastarf hvílir á en eru þó innbyrðis tengdir, þ.e. að safna, rannsaka, varðveita og miðla með sýningum og útgáfu.
    Áður hefur Síldarminjasafnið á Siglufirði hlotið verðlaun fyrir sýningar, fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur, fyrir öflugt fræðslustarf, Byggðasafn Árnesinga fyrir innra starf og byggingu þjónustuhúss og Myndadeild Þjóðminjasafns Íslands fyrir öflugt og metnaðarfullt rannsókna- og útgáfustarf.
    Dómnefnd Íslensku safnaverðlaunanna í ár er skipuð þeim Kristínu Guðnadóttur og Lilju Árnadóttur frá Íslandsdeild ICOM og Ingu Láru Baldvinsdóttur og Karli Rúnari Þórssyni frá FÍSOS, Félagi íslenskra safna og safnmanna.
    Niðurstaða dómnefndar
    Starfsemi safna í þjóðfélaginu eflist með hverju árinu og söfn gegna sífellt veigameira hlutverki. Söfnin sækja fram á við í auknum mæli og leita nýrra leiða við framsetningu safnkostsins á sýningum og efna til samstarfs við aðra með margvíslegum hætti. Sannindamerki þess er að söfnin auglýsa orðið starfssemi sína umtalsvert í því augnamiði að laða til sín gesti sem leita sér fróðleiks, þekkingar og skemmtunar með safnaheimsóknum.
    Safnið sem í ár hlýtur Íslensku safnaverðlaunin hefur vakið eftirtekt fyrir vandaða og fjölbreytta miðlun og sýningargerð. Tekist hefur að efna til samstarfs við ólík félög og hópa við gerð þeirra. Á árinu 2006 hefur safnið opnað og kynnt þrjár ólíkar sýningar að efni og framsetningu. Ein sýningin er skammtímasýning en hinar tvær munu standa til lengri tíma. Þá hefur safnið nú í sumar farið óhefðbundna leið í sýningargerð og samstarfi við sex listamenn.
    Það var einróma niðurstaða dómnefndar að veita Minjasafni Reykjavíkur, Árbæjarsafni, Íslensku safnaverðlaunin 2006.
    Það er álit dómnefndar að með fjölbreyttum sýningum hafi Minjasafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn lagt fram mikilvægan skerf til eflingar faglegs starfs í sýningargerð.  Árangurinn er hvatning til annarra safna á Íslandi að kynna margvíslegan og fjölbreyttan menningararf þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt.
    Á fasta sýningunni Reykjavík 871 +/-2 Landnámssýningunni sem staðsett er í Aðalstræti 16 hefur tekist við afar flóknar og umdeildar aðstæður að gera  vel heppnaða sýningu og skapa nálægð við sögu sem er mjög fjarlæg í tíma. Í ítarefni um sýninguna er að finna langan lista samstarfsaðila sem ekki verður talinn nákvæmlega upp hér.
    Miklu fé var varið til sýningargerðarinnar og til hennar keypt þjónusta íslenskra og erlendra sérfræðinga, tæknimanna og stofnana bæði hérlendis og erlendis auk starfsfólks Árbæjarsafns. Kjarni sýningarefnis eru fornleifarannsóknir í miðbæ Reykjavíkur sem Fornleifastofnun Íslands annaðist í umboði Árbæjarsafns auk niðurstaðna fornleifarannsókna sem fram fóru á 8. áratug 20. aldar.
    Með nútíma sýningatækni t.d. á veggjum sýningasalar er sýningargestum gefin hugmynd um umhverfi Reykjavíkurbæjarins eins og það var við landnám og er margmiðlunartæknin notuð með smekklegum hætti til að útskýra húsagerð og híbýli landnámsmanna. Á sýningunni tóna afar vel saman nútíma sýningatækni og fornleifarnar þ.e. skálarústin sjálf og ýmsir munir frá landnámstíma.
    Þema sýningin Diskó og pönk. Ólíkir Straumar? er samvinnuverkefni Minjasafns Reykjavíkur og Smekkleysu SM ehf. Sérstaklega er litið á menningarstraumana – diskó og pönk og reynt að útskýra og greina, menningarfyrirbærin s.s. bakgrunn, uppruna, tísku og áhrif. Með tónlist, lýsingu og nálægð við sýningagripina er sköpuð sterk tilfinning fyrir menningu ungs fólks í Reykjavík og nágrenni á árunum 1975 til 1985. Með frísklegum hætti er reynt að fanga huga sýningargesta og höfða sérstaklega til unglinga og ungs fólks sem sýningar safna mættu sannarlega í ríkara mæli gera.
    Sýningin Húsagerð höfuðstaðar. Saga byggingartækninnar 1840-1940 er samstarfsverkefni Menntafélags byggingariðnaðarins og Minjasafns Reykjavíkur. Mun sýningin standa áfram enda efni hennar nátengt helsta viðfangsefni Árbæjarsafns. Með greinargóðum hætti er á sýningunni útskýrðir ýmsir byggingarstílar s.s. sér reykvíska húsagerðin, steinbær, timburhús í sveitserstíl og hin steinsteyptu funkishús. Á sýningunni er með hefðbundinni sýningartækni, texta, ljósmyndum, leikmynd og húshlutum gefin greinargóð mynd af handverki og vinnuaðferðum við húsbyggingar. Sýningin er ein af fastasýningum safnsins. Hún veitir mikilvægar upplýsingar um byggingararfinn og er eins konar ítarefni við safnhúsin í Árbænum sem hvert um sig eru í reynd sérstakir safngripir og einstakir sinnar gerðar.
    Þá hefur safnið sumarið 2006, farið fremur óhefðbundna leið og tengt saman listir og þjóðmenningu í Listmunahorni sínu. Þar hefur safnið skapað vettvang og tækifæri fyrir sex listamenn þau Margréti O. Leópoldsdóttur, Maríu K. Magnúsdóttur, Óðinn Bolla Björgvinsson, Sigríði Ástu Árnadóttur, Soffíu Magnúsdóttur og Guðjón Kristinsson til að sýna afrakstur vinnu sinnar og listsköpunar en sammerkt er að viðfangsefni og efniviður tengjast safnkosti Árbæjarsafns.
    Það er von stjórna beggja félaga, FíSOS og Íslandsdeildar ICOM, að Íslensku safnaverðlaunin séu mikilvæg viðurkenning til safna hér á landi.  Þau hafa faglega merkingu og virka sem hvati á hvað eina sem til góðs horfir í safnastarfsemi.