• 08/03/2006

  Ágætu félagar.
  Fyrsta úrgáfa og jafnframt frumgerð nýrrar heimasíðu FÍSOS lítur nú dagsins ljós en það þarf því að vera okkur FÍSOS félögum sameiginlegt markmið að þróa og vinna áfram með síðuna. Öflug og virk heimsíða getur lagt grunninn að kröftugra félagstarfi í félagi eins og FÍSOS þar sem við félagarnir búum og störfum vítt og breitt um landið.
  Eldri heimasíða þótti tæknilega vera nokkuð komin til ára sinna, öryggi vistunar þurfti enn fremur að uppfæra til samræmis við kröfur dagsins í dag. Til verksins var fenginn Pétur Þór Sigurðsson tölvunarfræðingur en honum til aðstoðar fyrir hönd FÍSOS var undirritaður ásamt Guðbrandi Benediktssyni og Helgu Maureen Gylfadóttur.
  Nýr vefur – nýjar hugmyndir
  Grunn hugmyndin með nýrri heimasíðu var á þá leið að á undirsíðum gætu ólíkir þættir félagsstarfsins og safnastarfsins átt möguleika á að lifa sjálfstæðu lífi ef svo má að orði komast, með fjölbreyttu efni og spjallþráðum. Sem dæmi má nefna að sá virki hópur sem fæst við safnfræðslu hefur nú möguleika á heimasíðunni að eiga sér sitt afdrep í netheimum. Enn fremur vildum við reyna að samþætta í eina heild heimasíðu félagsins og núverandi safnlista með það að markmiði  að dreifa ekki kröftunum heldur auka sameiginlega skilvirkni beggja þátta.
  Gert er ráð fyrir því að félagsmenn sjái alfarið um innihald síðunnar og auglýsir stjórnin því eftir yfirritstjóra sem hefur það verkefni með höndum að halda utan um síðuna heildrænt. Ekki er loku fyrir það skotið að greitt verði fyrir þá vinnu. Til þess að geta haldið úti afmörkuðum efnisþáttum þurfum við enn fremur á svokölluðum pennum að halda  sem þá hafa skrifaðgang af viðkomandi efnisþáttum, s.s. varðveislu og skráningu, safnfræðslu, forvörslu o.s.frv. Eru áhugsamir beðnir um að gefa sig fram við undirritaðan á netfangið karl@hafnarfjordur.is .
  Nokkur tæknileg atriði
  •    Síðan er hýst á hágæða vélbúnaði www.seekdotnet.com, þar sem hýsingaraðili ábyrgist yfir 99% upptíma síðunnar. Síðan er keyrð á SQL server gagnagrunni og notast við nýja .Net tækni frá Microsoft.
  •    Möguleiki er fyrir hendi að úthluta eins konar „pennaaðgangi“ inn á síðuna, þannig að ýmsir pennar geti skráð inn efni á síðuna eða skilgreinda undirflokka hennar. M.ö.o. nýja síðan gefur fleirum færi á að koma að ritstjórn og innsetningu efnis.
  •    Möguleiki er á aðgangsheimildum þ.e. innri og ytri vef verði síðar e.t.v. áhugi eða ástæða til að koma á slíku fyrirkomulagi.
  •    Nýja kerfið býður upp á umræðusvæði eða spjallþræði á sérhæfðum efnissíðum.
  •    Kerfið býður upp á magnpóstssendingar, sem verða nýttar samhliða safnlistanum.
  Að lokum vil ég ítreka það að hér er um frumgerð að ræða og síðan á eftir að mótast og þróast. Hafi félagsmenn ábendingar og óskir um efnistök þá bið ég ykkur endilega um að hafa samband en grunnurinn að góðri heimasíðu félagsins byggir einmitt á áhuga félaganna.
  Með FÍSOS kveðju,
  Karl Rúnar Þórsson, formaður