Tag Archives: fagleg vinnubrögð

Námskeið FÍSOS – 18.12.2019 – Samfélagsmiðlar sem virka!

EKKI LÁTA ÞETTA TÆKIFÆRI FRAMHJÁ ÞÉR FARA!

FÍSOS sótti í safnasjóð styrk til að greina þær kynningarleiðir sem söfnum standa til boða og meta virkni þeirra með það að markmiði að söfn geti með markvissari hætti nýtt það fé sem ætlað er til kynningarmála. FÍSOS fór í samstarf við Íslandstofu um greiningu á efninu og vann Katarzyna Moi verkefnið. Félagsmenn fengu þessa greinagerð senda í pósti (okt. 2018) en hún er einnig aðgengileg á heimasíðu félagsins.

Næst er að læra að beita þeim aðferðum sem koma fram í greinagerðinni og efnir því FÍSOS til þessa dagsnámskeiðs í samstarfi við Hugsmiðjuna:

Samfélagsmiðlun sem virkar
Náðu forskoti með mikilli útbreiðslu og lægri kostnaði en með hefðbundinni markaðssetningu. Samfélagsmiðlarnir eru staðirnir – þar er fólkið, þar eru tækifærin!

Markhópur: Félagsmenn FÍSOS

Staðsetning: Hugsmiðjan – Snorrabraut 56, 101 Reykjavík

Tími og dagsetning: Miðvikudaginn 18. desember 2019 kl.9:30-16:00

 • 9:30 – 12:00 – námskeið
 • 12:00 – 13:30 – hádegismatur á eigin vegum
 • 13:30 – 16:00 – námskeið

Athugið! Þetta er dagsnámskeið og því mikilvægt að nemendur geta tekið þátt allan daginn – t.a.m. ekki bara fyrir eða eftir hádegi.

Leiðbeinandi: Námskeiðið er á vegum Hugsmiðjunnar og er kennari Margeir S. Ingólfsson.

Síðasti dagur skráningar – föstudagur 13. desember 2019

Hámarksfjöldi: 25 þátttakendur

Kostnaður: ENGINN fyrir FÍSOS félaga ( alla jafna kostar námskeiði 49.900 kr.)

Skráning hér: https://forms.gle/bYMezSYkHbJgCJc2A

Frekari upplýsingar um námskeiðið:

 • Hvernig nota á samfélagsmiðla rétt
  Komast þarf upp úr þeim hjólförum að nota samfélagsmiðlana eins og aukaafurð við hefðbundna kynningu og miðlun. Samfélagsmiðlarnir eru staðirnir – þar er fólkið, þar eru tækifærin.
 • Auglýsingakerfi Facebook
  Meðal þess fjölmarga sem tekið er fyrir er hið umdeilda en gríðar öfluga auglýsingakerfi Facebook og Instagram og sýnt er hvernig við getum nýtt það okkur í hag. Þá er farið ítarlega í tölfræðina en rétt beiting hennar er lykilatriði til að sjá hvað virkar og hvað virkar ekki.
 • Ávinningur þátttakenda
  Kynnast nýjum möguleikum í markaðssetningu í gegnum samfélagsmiðla.
  Kynnast eiginleikum og tækifærum helstu miðla.
  Farið yfir dæmi um notkun á samfélagsmiðlum sem eru til fyrirmyndar.
  Læra að setja upp herferðir og lesa úr árangri þeirra þannig að fjármunir nýtist sem best.
  Kynnast því hvernig betra efni er framleitt  fyrir samfélagsmiðla.
  Læra að nýta sérhæfða en gríðarlega öfluga möguleika samfélagsmiðla í öllu markaðsstarfi.
  Og margt fleira …

Greinagerðin:

FÍSOS – PRESENCE ONLINE

Söfn á Íslandi – Markaðsgreining og aðgerðaáætlun til að auka sýnileika á netinu.

 

Söfn á Íslandi – Markaðsgreining og aðgerðaráætlun til að auka sýnileika safna á netinu.

FÍSOS sótti í safnasjóð styrk til að greina þær kynningarleiðir sem söfnum standa til boða og meta virkni þeirra með það að markmiði að söfn geti með markvissari hætti nýtt það fé sem ætlað er til kynningarmála.

Umsókn var lögð inn í tilefni af umræðu á farskóla 2016 um sýnileika safna. Félagið fékk 500.000 kr. styrk 2017.

FÍSOS fór í samstarf við Íslandstofu um greiningu á efninu og vann Katarzyna Moi sem hefur starfað fyrir Íslandsstofu sem og Samtök um sögutengda ferðaþjónustu falið verkefnið.

Katarzyna vann eftirfarandi greinagerð. Hún er á ensku. Salka Guðmundsdóttir þýddi greinargerðina yfir á íslensku.

Stjórn FÍSOS vinnur nú áfram með verkefnið í samstarfi við Katarzyna og Íslandsstofu.

FÍSOS – PRESENCE ONLINE

Söfn á Íslandi – Markaðsgreining og aðgerðaáætlun til að auka sýnileika á netinu.

Málefni safna: Forsætisráðuneytið og græna hagkerfið

Þann 22. janúar, síðastliðinn, fjallaði stjórn félagsins á stjórnarfundi um málefni tengd forsætisráðuneytinu. Heyrst hafði af því að ráðuneytið væri að veita styrki til ýmissa verkefna sem tengjast verndun menningartengdra byggða og fornleifa m.a. Um er að ræða lið 01-305 á fjáraukalögum 2013 sem kallast “Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl”.

Mig langar að ræða þetta mál aðeins nánar í von um að umræður skapist á meðal okkar um það. Margir félagsmenn þekkja eflaust til þessa máls að því leyti að vera handhafi styrks frá ráðuneytinu. Athygli vakti þó að aðdragandi þessarar úthlutunar var nánast enginn og ræddi stjórn félagsins það sérstaklega þar sem þetta snertir starf safna hér á landi. Þrátt fyrir að auknu fjármagni til málaflokksins beri að fagna má setja spurningarmerki við úthlutunina.

Um er að ræða umtalsverðar fjárhæðir, eins og kemur í ljós á mynd sem birtist á facebook síðu Minjastofnunar Íslands. Þar eru styrkirnir sagðir veittir vegna ákvörðunar forsætisráðherra til atvinnuskapandi verkefna. Samtals eru þetta 205 milljónir, til samanburðar má benda á að framlag hins opinbera til safnasjóðs eru 120 milljónir fyrir árið 2014. Hafa þarf samt í huga að styrkir forsætisráðuneytis ná einnig til verkefna á sviði húsafriðunar og fornminja. Þrátt fyrir að féð sé ekki eingöngu eyrnamerkt safnastarfi, snertir þessi úthlutun söfn landsins, safnastarf og þar af leiðandi FÍSOS.

Hér má sjá lista yfir þau verkefni sem hljóta styrki samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra

Hér má sjá lista yfir þau verkefni sem hljóta styrki samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra

Í þeirri litlu fjölmiðlaumfjöllun sem hefur átt sér stað um málið hefur ekkert annað komið fram en að úthlutun af fjárliðnum Græna hagkerfið… sé ákveðin af forsætisráðherra sjálfum. Hér þarf ekki að draga í efa að ráðherra gangi gott eitt til, en hins vegar má gagnrýna vinnubrögðin. Hvaða rök liggja að baki ákvörðun um úthlutun? Var haft eitthvert samráð við fagaðila vegna úthlutunar? Var jafnræðis gætt við úthlutun? Hvers vegna var fagaðilum sem fara með málaflokkinn ekki gefinn kostur á að sækja um styrki eða hafa eitthvað með það að segja hvar fjármunum yrði best varið?

Málið hefur fengið örlitla umfjöllun á Alþingi, en Brynhildur Pétursdóttir, þingkona, hefur sent fyrirspurn til forsætisráðherra um menningarminjar og græna hagkerfið. Þar óskar hún skriflegra svara við þeim spurningum sem hún leggur fram. Spurningarnar ná vel utan um málið og það verður upplýsandi að sjá svörin þegar þau berast.

Þetta mál verður að setja í samhengi við tilfærslur ýmissa menningartengdra málaflokka á milli ráðuneyta. Þar ber helst að nefna flutning Þjóðminjasafns Íslands til forsætisráðuneytis, ásamt minjasöfnum! Stjórn FÍSOS sendi mennta- og menningarmálaráðuneyti og forsætisráðuneyti fyrirspurn vegna þessa flutnings skömmu eftir að fréttist af flutningum. Lítið hefur borið á svörum hvernig ráðuneytin ætla að takast á við þessar breytingar. Síðan þá hefur það hins vegar gerst að Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, var skipuð skrifstofustjóri  nýrrar skrifstofumenningararfs hjá forsætisráðuneytinu. Það verður því vonandi eitthvað að frétta þaðan á næstunni.

Ekki veit ég hvort að þessi fjárliður muni síðar fara í gegnum nýja skrifstofu menningararfs, stjórn FÍSOS bíður enn svara vegna þessara breytinga. Þær snerta safnastarf landsins og sérkennilegt verður að teljast að slíta málefni minjasafna frá mennta- og menningarmálaráðuneyti sem hefur enn með lista- og náttúruminjasöfn að gera. Skipulag safnamála hér á landi er hins vegar ekki þess eðlis að engu megi breyta og það má vel vera að þessar breytingar verði til góðs, ef vel verður að þeim staðið.

Hingað til hefur þó lítið borið á svörum og ákvörðun forsætisráðherra um útlhutun styrkja er enn önnur óvænt uppákoman. Þetta má ekki vera það sem koma skal og leggja verður áherslu á samráð við fagaðila þegar það kemur að fjárveitingum hins opinbera til safnatengdra málefna. Gagnsæi á líka við hér.

Segja má að hér sé verið að fara af þeirri braut sem mörkuð var með skýrslu Ríkisendurskoðunar “Íslensk muna- og minjasöfn. Meðferð og nýting á ríkisfé” frá árinu 2009. Brugðist var við mörgum af þeim ábendingum sem þar komu fram, meðal annars áréttingu um að auka forræði Mennta- og Menningarmálaráðuneytis með safnamálum.

Það er mjög mikilvægt að fjármál safna og  tengdrar starfsemi séu gagnsæ og uppi á borði. Annað hefur ekki eingöngu áhrif á jafnræði í úthlutun opinbers fés heldur hefur slæm fjársýsla einnig vond áhrif á orðspor safna meðal almennings. Í þessu máli skiptir ekki máli hver fær hvaða styrki, heldur fyrst og fremst að allir fái tækifæri til að sækja um styrk og að úthlutun þeirra fari fram með eins sanngjörnum hætti og mögulegt er.

Bergsveinn Þórsson, formaður FÍSOS