All posts by admin

Heiðursfélagar FÍSOS 2021

Stjórn FÍSOS ákvað að gera fjóra félaga að heiðursfélögum á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Stykkishólmi 13. október sl., Heiðursfélagar í FÍSOS eru nú tuttugu talsins, þegar þau Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Inga Lára Baldvinsdóttir, Jón Sigurpálsson og Lilja Árnadóttir hafa bæst í hópinn.

Frá vinstri: Heiðursfélagarnir Lilja Árnadóttir, Jón Sigurpálsson, Inga Lára Baldvinsdóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir ásamt Anitu Elefsen og Sigríði Þorgeirsdóttur stjórnarmönnum FÍSOS.

Öll hafa þau sinnt safnamálum af miklum metnaði í gegn um tíðina og tekið virkan þátt í samfélagi safnmanna. Félag íslenskra safna og safnmanna var stofnað árið 1981 og kom hópur safnafólks að stofnun þess. Inga Lára Baldvinsdóttir, Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Lilja Árnadóttir eru meðal stofnfélaga – og hafa allar starfað af miklum heilindum í þágu félagsins og safnastarfs almennt. Tilgangur félagsins hefur frá upphafi verið að efla samstarf og menntun þeirra sem starfa á söfnum á Íslandi og er árlegur farskóli bein afurð þess markmiðs.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir er eins og fram hefur komið meðal stofnenda FÍSOS og var þar að auki í hlutverki farskólastjóra, ásamt Ragnhildi Vigfúsdóttur, á fyrsta farskólanum sem haldinn var á Skógum árið 1989. Guðný Gerður hóf starfsferilinn á Ábæjarsafni, stýrði Minjasafninu á Akureyri í tæpan áratug, starfaði því næst á Þjóðminjasafni Íslands og var skipuð Borgarminjavörður árið 2000. Guðný Gerður starfði síðast hjá Minjastofnun Íslands og hefur sannarlega látið til sín taka á sviði safnastarfs og minjavörslu.

Inga Lára Baldvinsdóttir er meðal stofnfélaga FÍSOS og hefur verið mikill hvatamaður farskólans frá upphafi og var síðast í farskólastjórn þegar skólinn var haldinn í Berlín árið 2015. Hún hefur jafnframt komið mikið að útgáfu safnablaðsins Kvists, sem hóf útgáfu árið 2014.
Inga Lára hóf störf á Þjóðminjasafninu árið 1977 en gerðist svo hreppstjóri Eyrarbakka og var jafnframt umsjónarmaður og stjórnarformaður Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka um skeið. Árið 1990 sneri hún aftur á Þjóðminjasafnið og starfaði í ljósmyndadeild safnsins, á Ljósmyndasafni Íslands í þrjá áratugi.
Inga Lára hefur látið húsverndarmál sig miklu varða – bæði í störfum sínum innan minjavörslunnar sem og persónulega.

Jón Sigurpálsson stýrði Byggðasafni Vestfjarða á Ísafirði í þrjá áratugi. Jón er menntaður myndlistarmaður og hafa fallegar og listrænar uppsetningar á sýningum safnsins í Neðstakaupstað borið þess merki. Jón hefur unnið mikið í þágu varðveislu skipa og báta og var hann meðal stofnenda Sambands íslenskra sjóminjasafna og lengi formaður félagsins. Jón hefur gefið sig að safnamálum og menningarmálum af heilum hug, fágætum áhuga og innlifun, og er sannarlega í hópi þeirra safnmanna sem sett hafa mark sitt á fagið undanfarna áratugi.

Lilja Árnadóttir hóf störf á Þjóðminjasafni Íslands árið 1977 og starfaði þar allan sinn starfsferil. Lilja var lengst af sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins. Hún var meðal stofnenda FÍSOS og spannaði starfsferill hennar hjá Þjóðminjasafninu rúmlega fjörtíu ár. Lilja hafði þar áhrif á alla þætti starfseminnar, þá sérstaklega gagnvart munasafninu sem og húsasafninu.
Lilja lét nýlega af störfum en er þó hvergi nærri hætt að starfa á vettvangi safnanna – var til að mynda við störf á Seyðisfirði í síðustu viku, stýrir málstofu hér á Farskólanum á morgun og svona mætti áfram telja. Lilja hefur verið ötul í störfum sínum í þágu minjavörslunnar og hefur krafta hennar sannarlega notið við víðar en innan veggja Þjóðminjasafnsins.

Aðalfundur FÍSOS 2021

Stjórn FÍSOS – Félags íslenskra safna og safnmanna boðar hér með til aðalfundar félagsins miðvikudaginn 13. október 2021 kl. 13.30.

Fundurinn fer að þessu sinni fram á Fosshóteli, Stykkishólmi.

Dagskrá aðalfundar:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Skýrsla formanns um störf félagsins.
 3. Ársreikningur félagsins.
 4. Umræður um ársskýrslu og ársreikning og afgreiðsla reikninga.
 5. Lagabreytingar.
 6. Kosning í stjórn og aðrar trúnaðarstöður. Kosning skal vera leynileg.
  • Kosning fimm manna stjórnar til tveggja ára í senn, formaður og
   meðstjórnandi annað árið en varaformaður, gjaldkeri og ritari hitt árið.
  • Kosning tveggja varamanna til tveggja ára, eins varamanns annað árið
   en annars hitt árið.
  • Kosning skoðunarmanns reikninga til tveggja ára, eins skoðunarmanns
   annað árið og annars skoðunarmanns hitt árið.
  • Kosning farskólastjóra til eins árs.
 7. Ákvörðun ársgjalds félagsmanna og stofnana.
 8. Önnur mál.

Óskað er eftir framboðum til stjórnar í stöðu varaformanns, gjaldkera og ritara. Þá er einnig lýst eftir framboði til varamanns í stjórn sem og eins skoðunarmanns reikninga.

Áhugasamir geta lýst yfir framboði með því að senda tölvupóst á stjorn@safnmenn.is. Kjörgengi hafa þeir félagsmenn sem greitt hafa árgjald félagsins fyrir aðalfund eða eru heiðursfélagar.


Vægi atkvæða á fundum félagsins er einn félagsmaður, eitt atkvæði og ein stofnun, eitt atkvæði. Fer forsvarsmaður stofnunar með atkvæði hennar á
fundum félagsins eða fulltrúi í umboði hans.

Bestu kveðjur frá stjórn FÍSOS,

Í stjórn félagsins 2020-2021 sitja:

Formaður: Anita Elefsen, Síldarminjasafn Íslands.
Varaformaður: Gunnþóra Halldórsdóttir, Kvikmyndasafn Íslands.
Gjaldkeri: Jón Allansson, Byggðasafnið á Görðum.
Ritari: Ingibjörg Áskelsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Meðstjórnandi: Þóra Sigurbjörnsdóttir, Hönnunarsafn Íslands.
Varamenn: Hjörtur Þorbjörnsson, Grasagarður Reykjavíkur og Sigríður
Þorgeirsdóttir, Þjóðminjasafn Íslands.

Skógasafn eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010

Framtíð safna á Íslandi: Eru söfn á stefnuskrá flokka?

Umræðufundur á Sjóminjasafninu í Reykjavík fimmtudaginn 19. ágúst kl. 16:00

Stjórn Félags íslenskra safna- og safnmanna (FÍSOS) hvetur framboð til alþingiskosninga um land allt til að huga að söfnum landsins og setja þau á dagskrá. Söfn gegna mikilvægu hlutverki í varðveislu menningararfsins, fræðslu til skóla og sívaxandi hlutverki í ferðaþjónustu um land allt. Söfn eru bæði uppspretta þekkingar og sköpunar en einnig mikilvægur starfsvettvangur, ekki síst fyrir háskólamenntað fólk með sérfræðiþekkingu s.s. safnafræðinga, sagnfræðinga, forverði, þjóðfræðinga og listfræðinga og annarra sem sérhæfa sig í varðveislu menningararfsins fyrir komandi kynslóðir. Söfn á landsvísu miðla menningararfinum og varðveita hann til framtíðar.

Á síðustu árum hefur ferðaþjónusta eflst til muna. Söfn hafa stuðlað að uppbyggingu í ferðaþjónustu um land allt. Þau geta verið drifkraftur í uppbyggingu atvinnulífs og varðveislu menningararfsins eins og hefur sýnt sig á Siglufirði með uppbyggingu Síldarminjasafnsins sem laðar að sér gesti og eru stolt bæjarbúa. Aukin áhersla á ferðamál má ekki koma niður á faglegu safnastarfi og auknar tekjur ekki verða til þess að stuðningur eigenda við söfnin sín minnki.


Krafa um hagræðingu í rekstri veldur því oft að söfn eru undirmönnuð og skerðir það getu þeirra til að sinna lögboðinu hlutverki. Með tilkomu safnasjóðs og eflingu hans á undanförnum árum hefur staða safna batnað. Hlutverk og tilgangur safnasjóðs er að efla starfsemi safna með styrkjum. Viðurkennd söfn, önnur en söfn í eigu ríkisins, geta sótt um rekstrarstyrki til að efla starfsemi sína og öll viðurkennd söfn geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna. Önnur söfn, safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn. Mennta- og menningarmálaráðherra úthlutar styrkjum úr safnasjóði að fengnum tillögum safnaráðs.


Félagsmenn FÍSOS brenna fyrir safnastarfi og er framtíðarskipulag safnanna þeim efst í huga. Í flestum kjördæmum landsins má finna að minnsta kosti  eina stofnun sem fellur undir safnalög. Ábyrgð þingmanna er því rík bæði er varðar rekstur safna og framtíðarsýn í málaflokknum.

FÍSOS óskar eftir stefnu og afstöðu framboðsins/flokksins til meðal annars eftirfarandi spurninga sem varða safnamál:

 • Hver er stefna þíns flokks/framboðs í safnamálum og hverjar eru helstu áherslur til næstu fjögurra ára? Hvar má nálgast stefnuna? Hefur þinn flokkur/framboð kynnt sér nýja stefnumörkun stjórnvalda um safnastarf og menningararf?
 • Hvaða hlutverki gegna höfuðsöfnin að þínu mati?
 • Hvernig sér þinn flokkur/framboð fyrir sér eflingu safnasjóðs til framtíðar?
 • Hver er afstaða þíns flokks/framboðs til varðveislumála höfuðsafnanna, e.o. hjá Listasafni Íslands líkt og kom fram í þætti Kveiks frá 8. október 2020.
 • Í ljósi náttúruhamfara (eldgoss, jarðskjálfta og skriðufalla) hvernig sér þinn flokkur/framboð fyrir sér hvernig best er að tryggja örugga varðveislu menningararfsins samkvæmt viðurkenndum stöðlum?

FÍSOS býður fulltrúum flokkanna/framboðanna á höfuðborgarsvæðinu á umræðufund kl. 16.00 þann 19. ágúst í Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8, þar sem málefni safna verða til umfjöllunar. Óskað er eftir viðbrögðum við fundarboði, ályktuninni og þeim spurningum sem þar eru settar fram: stjorn@safnmenn.is

F.h. FÍSOS:
Anita Elefsen, formaður FÍSOS

Þóra Sigurbjörnsdóttir, meðstjórnandi í FÍSOS

Sigurður Trausti Traustason, félagi í FÍSOS

Helga Maureen Gylfadóttir, félagi í FÍSOS

FÍSOS – Aðalfundur 9. desember 2020 kl. 11 – FJARFUNDUR

Fréttir | FÍSOS

Stjórn FÍSOS – Félags íslenskra safna og safnmanna boðar hér með til aðalfundar félagsins miðvikudaginn 9. desember 2020 kl. 11.00 í fjarfundarbúnaði. Fundurinn mun taka eina klukkustund.

Vegna tilmæla almannavarna þá verður fundurinn eingöngu í stafrænum heimi. Slóð á fundinn verður send á póstlista félagins í sömu viku og fundurinn verður. Einnig uppfært hér á heimasíðu og sent á samfélagsmiðla. Þá verða fundargögn einnig send í tölvupósti.

LINKUR á aðalfund 2020 í Zoom – https://eu01web.zoom.us/meeting/register/u5Mtcu2vqD0vGNAZR7Trs2x-SpFJJg_NS9yU

Dagskrá aðalfundar:

A. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

B. Skýrsla formanns um störf félagsins.

C. Ársreikningur félagsins.

D. Umræður um ársskýrslu og ársreikning og afgreiðsla reikninga.

E. Lagabreytingar.

F. Kosning í stjórn og aðrar trúnaðarstöður. Kosning skal vera leynileg.

1. Kosning fimm manna stjórnar til tveggja ára í senn, formaður og meðstjórnandi annað árið en varaformaður, gjaldkeri og ritari hitt árið.

2.Kosning tveggja varamanna til tveggja ára, eins varamanns annað árið en annars hitt árið.

3.Kosning skoðunarmanns reikninga til tveggja ára, eins skoðunarmanns annað árið og annars skoðunarmanns hitt árið.

4.Kosning farskólastjóra til eins árs.

G. Ákvörðun ársgjalds félagsmanna og stofnana.

H. Önnur mál.

Vægi atkvæða á fundum félagsins er einn félagsmaður, eitt atkvæði og ein stofnun, eitt atkvæði. Fer forsvarsmaður stofnunar með atkvæði hennar á fundum félagsins eða fulltrúi í umboði hans.

bestu kveðjur, stjórn FÍSOS,

Í stjórn félagsins 2019-2020 sitja:

Formaður: Helga Maureen Gylfadóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Varaformaður: Gunnþóra Halldórsdóttir, Kvikmyndasafn Ísland.

Gjaldkeri: Jón Allansson, Byggðasafnið á Görðum.

Ritari: Ingibjörg Áskelsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Meðstjórnandi: Ásdís Þórhallsdóttir, Listasafn Reykjavíkur.

Varamenn: Hjörtur Þorbjörnsson, Grasagarður Reykjavíkur og Sigríður Þorgeirsdóttir, Þjóðminjasafn Íslands.

Kvistur 7tbl. komið í hús

Kvistur 7 tbl. – Safnfræðsla sem fag og hreyfiafl

Nýjasta tölublað Kvists er komið út. Þeir félagar sem greitt hafa félagsgjöld fá eintak af blaðinu. Blaðið var sent með bréfpósti til félagsmanna nú í lok október 2020 en eintök af blaðinu eru einnig til sölu í Bóksölu stúdenda á Háskólatorgi.

Eitthvað hefur verið um að heimilisföng félgasmanna voru röng í félagatali og hafa þau blöð sem félaginu hafa verið endursend verið send á ný til félagsmanna með réttum heimilisföngum.

Efst á baugi í sjöunda tölublaðinu er safnfræðsla safna á Íslandi:
◾ Fjallað um eftirtektarverð fræðsluverkefni sem eru í gangi, þróunarstarf sem komið er vel á veg og rannsóknir á safnfræðslu.
◾ Fjallað er um áhrif Covid 19 á safnastarf.
◾ Umfjöllun er um nýju safnaskilgreiningu alþjóðaráðs safna, ICOM, og viðtal við Jetta Sandahl.
◾ Íslensku safnaverðlaunin 2020.
◾ Sýningarrýni.
◾ Fréttir úr safnaheiminum.

Stjórn FÍSOS færir ritstjórn Kvists, Þóru Sigurbjörnsdóttir, ritstjóra, Sigrúnu Kristjánsdóttur, Ágústu Kristófersdóttur, Sigurjóni Baldri Hafsteinssyni, Ingunni Jónsdóttur og Gunnþóru Halldórsdóttur bestu þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag við að setja saman fróðlegt, faglegt og skemmtilegt blað sem dregur fram það mikla starf og ábyrgð sem safnastarfið er.

Ef einhver dráttur verður á að blaðið berist félagsmönnum í hendum er þeim bent á að hafa samband við stjórn félagsins, stjorn@safnmenn.is

FÍSOS – Aðalfundi 2020 frestað

Stjórn FÍSOS tilkynnir hér með að aðalfundi félagsins sem átti að halda fimmtudaginn 8. október 2020 er hér með frestað vegna hertra samkomutakmarkana.

Blásið verður til aðalfundar um leið og aðstæður leyfa og verður boðað til hans eins og lög félagsins gera ráð fyrir, þ.e.a.s. með tveggja vikna fyrirvara, í tölvupósti til félagsmanna og á heimasíðu félagsins.

Kær kveðja, stjórn FÍSOS.

FÍSOS – Framboð til stjórnar 2020-2021

Kæru félagar,

Nú á aðalfundi félagsins fimmtudaginn 8. október nk. í Sjóminjasafninu í Reykjavík verða eftirfarandi embætti laus: formaður, meðstjórnandi, varamaður og skoðunarmaður reikninga og og óskaði stjórn eftir framboðum í þau embætti eins og lög félagsins gera ráð fyrir.

Eftirfarandi framboð hafa borist:

Framboð til formanns – Anita Elefsen, safnstjóri, Síldarminjasafn Íslands –

Framboð til meðstjórnanda – Þóra Sigurbjörnsdóttir, sérfræðingur, Hönnunarsafn Íslands

Framboð til varamanns – Sigríður Þorgeirsdóttir, sérfræðingur, Þjóðminjasafn Íslands

Kær kveðja, stjórn FÍSOS

Í stjórn félagsins 2019-2020 sitja:

Formaður: Helga Maureen Gylfadóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Varaformaður: Gunnþóra Halldórsdóttir, Kvikmyndasafn Ísland.

Gjaldkeri: Jón Allansson, Byggðasafnið á Görðum.

Ritari: Ingibjörg Áskelsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Meðstjórnandi: Ásdís Þórhallsdóttir, Listasafn Reykjavíkur.

Varamenn: Hjörtur Þorbjörnsson, Grasagarður Reykjavíkur og Sigríður Þorgeirsdóttir, Þjóðminjasafn Íslands.

FÍSOS – Aðalfundur 08.10.2020 í Sjóminjasafninu í Reykjavík

Stjórn FÍSOS – Félags íslenskra safna og safnmanna boðar hér með til aðalfundar félagsins fimmtudaginn 8. október 2020 kl. 17.00 í Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8, 101 Reykjavík. Til fundarins var boðað með tölvupósti til félagsmanna 19. ágúst 2020.

Vegna tilmæla almannavarna þá verður fundinum streymt en rúm er fyrir 30 fundargesti í salnum og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Einnig verður boðið upp á þátttöku í gegnum fjarfundarbúnað.

Farið verður eftir öllum reglum hvað sóttvarnir varðar í fundarrýminu.

Dagskrá aðalfundar:

A. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

B. Skýrsla formanns um störf félagsins.

C. Ársreikningur félagsins.

D. Umræður um ársskýrslu og ársreikning og afgreiðsla reikninga.

E. Lagabreytingar.

F. Kosning í stjórn og aðrar trúnaðarstöður. Kosning skal vera leynileg.

1. Kosning fimm manna stjórnar til tveggja ára í senn, formaður og meðstjórnandi annað árið en varaformaður, gjaldkeri og ritari hitt árið.

2.Kosning tveggja varamanna til tveggja ára, eins varamanns annað árið en annars hitt árið.

3.Kosning skoðunarmanns reikninga til tveggja ára, eins skoðunarmanns annað árið og annars skoðunarmanns hitt árið.

4.Kosning farskólastjóra til eins árs.

G. Ákvörðun ársgjalds félagsmanna og stofnana.

H. Önnur mál.

Vægi atkvæða á fundum félagsins er einn félagsmaður, eitt atkvæði og ein stofnun, eitt atkvæði. Fer forsvarsmaður stofnunar með atkvæði hennar á fundum félagsins eða fulltrúi í umboði hans.

bestu kveðjur, stjórn FÍSOS,

Í stjórn félagsins 2019-2020 sitja:

Formaður: Helga Maureen Gylfadóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Varaformaður: Gunnþóra Halldórsdóttir, Kvikmyndasafn Ísland.

Gjaldkeri: Jón Allansson, Byggðasafnið á Görðum.

Ritari: Ingibjörg Áskelsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Meðstjórnandi: Ásdís Þórhallsdóttir, Listasafn Reykjavíkur.

Varamenn: Hjörtur Þorbjörnsson, Grasagarður Reykjavíkur og Sigríður Þorgeirsdóttir, Þjóðminjasafn Íslands.

Skýrsla – Áhrif Covid19 á safnastarf í landinu.

FÍSOS, Íslandsdeild ICOM og safnaráð stóðu fyrir könnun á meðal safnstjóra viðurkenndra safna og ríkissafna í maí og júní 2020. Könnunin var um áhrif heimsfaraldurs COVID-19 á safnastarf á Íslandi og var hún jafnframt unnin í samstarfi við höfuðsöfnin þrjú.
Markmiðið var að kalla eftir upplýsingum um þær áskoranir sem söfn stóðu skyndilega frammi fyrir og kanna líðan starfsfólks. Þá vildi safnaráð afla upplýsinga um rekstur safnanna, afla gagna fyrir ráðið og samstarfsaðila svo unnt væri að finna lausnir og auka stuðning við söfn. Auk þess var markmið að veita upplýsingum til viðeigandi hagsmunaaðila, ríkisstofnana og annarra stofnana.

48 söfn svöruðu könnuninni, 43 að öllu leyti og 5 að einhverju leyti, en svör allra þátttakenda voru nýtt. Niðurstöður könnunarinnar voru tekin saman í skýrslu sem nú er komin út, „Áhrif COVID-19 á safnastarf á Íslandi. Höfundar skýrslunnar eru Guðný Dóra Gestsdóttir, formaður ICOM á Íslandi, Helga Maureen Gylfadóttir, formaður FÍSOS og Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs.

Ljóst er að áhrifanna gætir víða, tekjur af erlendum ferðamönnum, sem að jafnaði halda uppi sértekjum mjög margra safna á Íslandi, dróst nær algerlega saman, en erlendir ferðamenn eru um 62% af gestum safnanna. Auk samdráttar í tekjum, þurftu söfn að glíma við lokanir, breytingar á áætlunum og starfshögum og jafnvel fækkun starfsfólks.

Enn sér ekki fyrir endann á áhrifum COVID-19, nú í september 2020, en áætlað er að fylgja eftir þessari könnun veturinn 2020/2021, þar sem skoðuð verður raunstaða ársins 2020 og hvernig næstu misseri leggjast í safnafólk.

Farskóli 2020 – AFLÝST

ÁRÍÐANDI tilkynning – Farskóli 2020 í Vestmannaeyjum – AFLÝST

Kæru félagsmenn,

Nú þann 13. ágúst sl. fundaði stjórn FÍSOS ásamt stjórn farskólans 2020. Í ljósi hertra aðgerða Almannavarna undanfarnar vikur var það samhljóða niðurstaða fundarmanna að aflýsa fyrirhuguðum farskóla félagsins sem átti að halda í Vestmannaeyjum 23.-25. september nk. Stjórn FÍSOS þakkar Herði Baldvinssyni, forstöðumanni Sagnheima, fyrir góðan undirbúning fyrir farskólann en félagið fær að eiga hans góða heimboð inni.

Það er okkar skylda, líkt og allra landsmanna, að virða samfélagssáttmálann og sýna samfélagslega ábyrgð í verki og í því ljósi er farskólanum aflýst árið 2020. Við erum öll almannavarnir áfram.

En ekki örvænta, kæru félagsmenn! Gripið hefur verið til mótvægisaðgerða og er nú í burðaliðnum undirbúningur FJARskóla með notkun hins víðfræga alheimsnets.

FJARskólastjórn 2020 mun nú setja saman nokkrar rafrænar vinnustofur sem félagið mun standa fyrir ásamt safnaráði og Safnafræði Háskóla Íslands. Hinar rafrænur vinnustofurnar munu fara fram í lok september en nánari dagskrá og fyrirkomulag verður auglýst síðar.

Við munum því hittast við hið stafræna borð nú í haust og fræðast og ræða saman með hjálp fjarfundabúnaðar.

Aðalfundur félagsins verður svo haldinn 8. október nk. en frekari upplýsingar um fyrirkomulag hans mun berast á næstu dögum. Honum verður streymt en ef aðstæður leyfa þá verður einnig boðið í sal í Reykjavík.

Ekki gleyma að síðan eiga félagsmenn von á glóðvolgu eintaki beint úr prentsmiðjunni af Safnablaðinu Kvisti inn um lúguna hjá sér um mánaðarmótin september/október en blaðið er stútfullt af fræðandi og skemmtilegum greinum sem göfga andann og létta lund.

Blásið verður á ný til farskóla félagsins á haustmánuðum 2021 og verður þá nú aldeilis gaman, enda sannast hið fornkveðna að maður er manns gaman!

Bestu kveðjur og njótið vel það sem eftir lifir sumars. Spennandi haust framundan og vonandi veirulaus vetur.

Stjórn FÍSOS og Farskólastjórn 2020.

Þjóðminjasafn Íslands hlýtur íslensku safnaverðlaunin 2020

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Þjóðminjasafni Íslands Íslensku safnaverðlaunin 2020 við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu mánudaginn 18. maí kl. 16.00. Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi

Fulltrúar tilnefndra safna ásamt forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðherra og borgarstjóra Reykjavíkur. Ljósmyndari Hildur Inga Björnsdóttir.

Þjóðminjasafn Íslands hlaut verðlaunin fyrir varðveislu- og rannsóknarsetur í Hafnarfirði og Kópavogi ásamt Handbók um varðveislu safnskosts. Var það mat valnefndar að þessi verkefni séu mikilvægt framlag til minjaverndar á landsvísu. Samstarf og miðlun þekkingar er þýðingarmikið og sú sérhæfða aðstaða sem sköpuð hefur verið fyrir varðveislu ómetanlegra minja er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, tekur við verðlaununum fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands. Ljósmyndari Hildur Inga Björnsdóttir.

Athöfnina sóttu ásamt forseta Íslands Lilja Alfreðsdóttir, mennta- menningarmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ásamt fulltrúum stjórna ICOM og FÍSOS og fulltrúum tilnefndra safna. Þar sem í gildi voru samkomutakmarkanir vegna Covid 19 sóttu einungis 50 manns athöfnina en henni var streymt í rauntíma á samfélagsmiðlum.

Árið 2020 voru fimm verkefni tilnefnd en þau voru Borgarsögusafn Reykjavíkur, Listasafn Reykjavíkur, Náttúruminjasafn íslands og sameiginlega Minjasafns Austurlands, Tækniminjasafn Austurlands, Sjóminjasafn Austurlands og Gunnarsstofnun.

Tilkynnnt var um tilnefningar til verðlaunnan 4. maí sl. Valnefnd íslensku safnaverðlaunanna 2020 skipuðu: Inga Jónsdóttir, formaður og fyrrverandi forstöðumaður Listasafn Árnesinga, Jón Jónsson, þjóðfræðingur, Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa, Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður Grasagarðs Reykjavíkur, Sigrún Ásta Jónsdóttir, sérfræðingur Gljúfrasteini og Hanna Rósa Sveinsdóttir, sérfræðingur Minjasafninu á Akureyri. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir þeirra framlag til verðlaunanna.

FÍSOS óskar Þjóðminjasafni Íslands innilega til hamingju með verðlaunin og öllum tilnefndum söfnum til hamingju með tilnefninguna. Þá þakkar FÍSOS Íslandsdeild alþjóðaráði safna, ICOM, kærlega fyrir ánægjulegt samstarf.

Afhending Íslensku Safnaverðlunana 2020

Afhending Íslensku Safnaverðlunana 2020

Posted by Alþjóðlegi safnadagurinn á Íslandi/International Museum Day Iceland on Mánudagur, 18. maí 2020

Tilnefningar til Íslensku safnaverðlaunanna 2020

Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Hér með tilkynnist hvaða fimm söfn/verkefni eru tilnefnd til safnaverðlaunanna 2020 samkvæmt niðurstöðu valnefndar verðlaunanna.

ICOM og FÍSOS óska hinum tilnefndu söfnum og starfsfólki þeirra innilega til hamingju með tilnefninguna en þau eru öll vel að þeim heiðri komin. Þá þökkum við einnig valnefnd safnaverðlaunanna kærlega fyrir vel unnin störf en valnefndina skipa: Inga Jónsdóttir, formaður og fyrrverandi forstöðumaður Listasafn Árnesinga, Jón Jónsson, þjóðfræðingur, Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa, Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður Grasagarðs Reykjavíkur, Sigrún Ásta Jónsdóttir, sérfræðingur Gljúfrasteini og Hanna Rósa Sveinsdóttir, sérfræðingur Minjasafninu á Akureyri.

Forseti Íslands,  Guðni Th. Jóhannesson,  afhendir safnaverðlaunin 2020 við hátíðlega athöfn þann 18. maí næstkomandi. Athöfnin verður streymt á samfélagsmiðlum í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu.

TILNEFNINGAR DÓMNEFNDAR Í STAFRÓFSRÖÐ:

Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi

Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum, Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði og Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði ásamt Gunnarsstofnun, menningar- og fræðasetri á Skriðuklaustri í Fljótsdal.

Þessi þrjú söfn ásamt Gunnarsstofnun leiddu þetta samstarfsverkefni í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands, en alls tóku níu mennta-, menningar- og rannsóknarstofnanir á Austurlandi þátt í verkefninu. Þar var frumlegum aðferðum beitt til að skoða og skapa umræðu um hugtökin fullveldi og sjálfbærni út frá aðstæðum barna þá og nú. Kjarninn var fjórskipt sýning, sem sett var upp á þessum söfnum og Gunnarsstofnun. Á hverjum stað voru tvö börn í forgrunni, annars vegar barn frá árinu 1918 og hins vegar barn af sama kyni og á sama aldri árið 2018. Aðstæðum þessara barna var lýst í fyrstu persónu frásögnum þar sem komið var inn á mismunandi málefni sem tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, s.s. fátækt, hungur, heilsu, menntun, jafnrétti, aðgang að vatni, sjálfbæra orku, atvinnumöguleika og nýsköpun. Sögurnar voru frumsamdar en byggðar á heimildum um aðstæður barna þá og nú. Frásagnirnar voru myndskreyttar með ljósmyndum, annars vegar af barni í nútímanum og hins vegar af þessu sama barni í „fortíðinni“. Til að ná fram einkennum gamalla ljósmynda var myndin af barninu í fortíðinni tekin með gömlum ljósmyndatækjum frá Eyjólfi Jónssyni ljósmyndara frá Seyðisfirði, sem varðveitt eru í Tækniminjasafni Austurlands. Einnig voru til sýnis gripir úr safnkosti hvers safns og gripir úr nútímanum sem tengdust umfjöllunarefnunum og voru gestir hvattir til að líta í eigin barm og spegla eigin aðstæður við aðstæður barnanna og heimsmarkmiðin. Einfaldleiki og sjálfbærni voru höfð að leiðarljósi við hönnun sýningarinnar og á vef verkefnisins má nálgast ýmis fræðsluverkefni sem tengdust sýningunni.

Auk fyrrgreindra safna komu eftirtaldar stofnanir að verkefninu: Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Skólaskrifstofa Austurlands, Landgræðsla ríkisins og Menntaskólinn á Egilsstöðum en verkefnið var leitt af Austurbrú og verkefnisstjóri var Elva Hlín Pétursdóttir fyrrum safnstjóri Minjasafns Austurlands.

Mat valnefndar er að samstarf austfirsku safnanna í verkefninu Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi, sé til fordæmisgefandi um hvernig söfn af hvaða stærðargráðu sem er geta gert sig gildandi í samfélagsumræðunni og verið leiðandi í samstarfi við fleiri stofnanir. Sýningin tók á knýjandi málefnum samtímans, tengdi safnkost við samfélagið þá, nú og í náinni framtíð með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Fiskur & fólk – sjósókn í 150 ár – ný grunnsýning Sjóminjasafns Bogarsögusafns Reykjavíkur og aðkoma tveggja hollvinasamtaka, Óðins og Magna.

Ný grunnsýning Sjóminjasafnsins í Reykjavík er eitt af stærstu verkefnum Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem varð til árið 2014 með sameiningu sögusafna borgarinnar undir einn hatt. Unnið var að gerð sýningarinnar allt frá þeim tíma uns hún var opnuð 8. júní 2018. Gildi fisksins fyrir afkomu Íslendinga verður seint ofmetið, en hann hefur verið mikilvægur hluti af íslensku mataræði um aldir og ein verðmætasta útflutningsvara þjóðarinnar. Í hugmyndavinnu fyrir sýninguna var leitað til fjölmargra sérfræðinga á ýmsum sviðum s.s. fiskifræðinga, umhverfisfræðinga og rithöfunda, auk sérfræðinga safnsins. Í undirbúningsvinnunni var lögð áhersla á að greina markhópa og þeirri nýjung beitt að fá þá til að svara spurningum um hvað þeir vildu sjá. Hönnun sýningarinnar var í höndum Kossmann.dejong sem er hollenskt fyrirtæki sem starfar á alþjóðavettvangi. Sýningin er byggð í kringum fiskinn sjálfan þar sem honum er fylgt eftir úr hafinu í netið, um borð í bátinn, að landi, í gegnum vinnslu og loks á diskinn. Sýningin spannar sögu fiskveiða á Íslandi, frá því að árabátarnir viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Hún sýnir breidd atvinnuvegarins, hve margir koma að honum með einu eða öðru móti, sjómenn, fiskverkafólk í landi, makar, börn, söluaðilar og neytendur, vísindafólk og stjórnmálamenn. Allir leggja sitt af mörkum og einnig þeir sem vinna að því að finna leiðir til að nýta veiðina sem best, svo sem roð, bein og annað sem nýta má. Þetta er umfangsmikil sýning, sett fram á lifandi og gagnvirkan hátt með gripum, textum, myndum og leikjum. Sagan er sögð frá sjónarhóli útgerðarbæjarins Reykjavíkur og umgjörð sýningarinnar í Sjóminjasafninu við Grandagarð er viðeigandi, því safnhúsið sjálft hýsti áður blómlega fiskvinnslu.

Samstarf Sjóminjasafnsins við Hollvinasamtök varðskipsins Óðins og dráttarbátsins Magna er ein birtingarmynd af mörgum hvernig safnið er í góðum gagnkvæmum tengslum við það samfélag sem það starfar í og þjónar.

Mat valnefndar er að sýningin Fiskur & fólk í Sjóminjasafni Borgarsögusafns Reykjavíkur höfði til fjölbreytts hóps gesta, jafnt þeirra sem vel þekkja til og þeirra sem lítið þekkja til sjósóknar. Sýningin miðlar sögunni á fræðandi, lifandi, gagnvirkan og skemmtilegan hátt. Aðferðafræðinvið gerð sýningarinnar og hið umfangsmikla tengslanet sem virkjað var, er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

2019 – ár listar í almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur

Með verkefninu 2019 – ár listar í almannarými beindi Listasafn Reykjavíkur sjónum að gildi listar fyrir mannlíf og ásýnd umhverfisins og þar með starfsemi safnsins utan veggja þess, en alls hefur safnið umsjón með 182 útilistaverkum. Verkefnið snýr að mörgum sviðum safnastarfs svo sem forvörslu og viðhaldi, sýningum og viðburðum, tækniframförum og orðræðu um list í almannarými. Ásmundarsafn, eitt þriggja húsa Listasafns Reykjavíkur er sterklega tengt útilistaverkum þar sem Ásmundur Sveinsson er höfundur höggmynda sem standa á yfir 20 áberandi stöðum í borgarlandslaginu og víða á landsbyggðinni.

Verkefnið hófst með sýningu á Kjarvalsstöðum á innsendum tillögum að útilistaverki í Vogabyggð þar sem vinningstillagan, Pálmatré eftir listamanninn Karen Sanders var kynnt. Vikulega var útilistaverk valið til kynningar á samfélagsmiðlum safnsins. Snemma árs var nýtt smáforrit (app) tekið í notkun sem miðlar upplýsingum um útilistaverk í umsjá Listasafns Reykjavíkur. Hægt er að hlaða því niður í síma og sækja hljóðleiðsagnir, gönguleiðir sem hægt er að njóta hvort heldur gangandi eða hjólandi og einnig er boðið upp á leiki. Efnt var til sýningaraðar í Ásmundarsafni þar sem fimm listamönnum, sem eiga það sameiginlegt að eiga listaverk í almenningsrými, var boðið að sýna samhliða sýningu á listaverkum Ásmundar. Um vorið var efnt til þriggja málþinga; Hvað er almannarými?, Deilur um list í almannarými og Þróun og framtíð listar í almannarými. Í byrjun sumars var verkið Tákn eftir Steinunni Þórarinsdóttur afhjúpað á þaki Arnarhvols þar sem það mun standa tímabundið. Í september var sýningin Haustlaukar opnuð þar sem verk fimm myndlistarmanna birtust á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík. Í stað efnislegra skúlptúra, minnisvarða eða varanlegra umhverfisverka var sjónum beint að verkum sem eru unnin í óáþreifanlegt efni og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Viðfangsefnin tengdust málefnum líðandi stundar svo sem sítengingu, núvitund, umhverfismálum, valdi, eignarhaldi og mörkum einka- og almannarýmis. Í nóvember var síðan efnt til ráðstefnu í samvinnu við Hafnarborg og Rannsóknarsetur í safnafræðum undir yfirskriftinni List í almannarými: þýðing og uppspretta. Yfir árið voru mörg útilistaverk yfirfarin, forvarin og lagfærð. Þar má nefna Fyssu eftir Rúrí sem var endurvígð eftir langt hlé, Friðarsúlu Yoko Ono, Íslandsvita Parmiggani og Hvítu fiðrildin eftir Ásmund Sveinsson.

Mat valnefndar er að 2019 – Ár listar i almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur hafi verið fjölbreytt og það vakti athygli á listinni í daglegu umhverfi utan veggja safnsins. Verkefnið náði til áþreifanlegra sem og óáþreifanlegra verka. Miðlunin var bæði hefðbundin og nýstárleg þar sem samfélagsmiðlar voru nýttir og tækninýjungar virkjaðar. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Vatnið í náttúru Íslands – ný grunnsýning Náttúruminjasafns Íslands

Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Þann 1. desember 2018 urðu þau tímamót að opnuð var fyrsta grunnsýning þess, VATNIÐ í náttúru Íslands, 11 árum eftir stofnun þessa höfuðsafns Þar er fjallað um vatn frá ýmsum hliðum, um efna- og eðlisþætti þess, gerð og eðli vatnsauðlindarinnar, hlutverk vatns við mótun lands og uppbyggingu og fjölbreytileika vatnalífríkis, frá jurtum, örverum og dýrum til heilla vistkerfa. Sýningunni er ætlað að vekja áhuga og virðingu fyrir vatni, kynna leyndardóma vatnsins og mikilvægi þess fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu. Á sýningunni eru lifandi dýr og plöntur. Áhersla er lögð á gagnvirka miðlun og virka þátttöku gesta. Þar er miðlað hvernig vatn er undirstaða lífsins og hve fjölbreytt ásýnd vatns á Íslandi er, kalt grunnvatn og heitir hverir, stöðuvötn og straumvötn, mýrlendi margs konar og urmull fossa og flúða. Í boði er að skoða hulinn lífheim vatnsins, smásæ dýr og plöntur og læra um þróun þeirra og hlutverk í vistkerfinu.

Einnig er hægt að uppgötva fjölbreytt vistkerfi ferskvatns, vatnadýr og vatnaplöntur, fengsælar laxveiðiár og heimsfræg fuglavötn. Fyrir þrjár margmiðlunarstöðvar á sýningunni hlaut margmiðlunarfyrirtækið Gagarín ein virtustu verðlaun á sviði hönnunar og nýsköpunar, The Red Dot, Best of the best, í flokknum viðmótshönnun og notendaupplifun. Verðlaunuðu margmiðlunarstöðvarnar eru ólíkar en veita upplifun og sýn inn í þessa mikilvægu auðlind sem vatnið er, en þær eru: Fossar, myndrænn hljóðskúlptúr þar sem 773 fossanöfn á Íslandi steypast niður í háum fossi, Rennslismælar, gagnvirk stöð sem sýnir rauntímarennsli í 18 mismunandi ám á Íslandi sem Veðurstofa Íslands vaktar og Vistrýnir, gagnvirk stöð þar sem gestir geta kannað lífríki í níu gerðum votlendis á Íslandi.

Mat valnefndar er að sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands höfði til fjölbreytts hóps gesta á ólíkum aldri þar sem mikilvægri þekkingu á sviði safnsins er miðlað til þeirra á forvitnilegan, faglegan og gagnvirkan hátt. Það er mikilvægt að höfuðsafn á sviði náttúruminja sé sýnilegt almenningi. Grunnsýningin er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Varðveislu- og rannsóknamiðstöðvar Þjóðminjasafns Íslands ásamt Handbók um varðveislu safnkosts

Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði menningarminja og leiðandi á sínu sviði. Þar er varðveittur ómetanlegur minjaauður þjóðarinnar, sem er í senn kveikja þekkingar og nýsköpunar. Rannsókna- og varðveislusvið safnsins hefur aukið þekkingu safnmanna á fyrirbyggjandi þáttum forvörslu og mikilvægi réttrar meðhöndlunar safngripa. Einn liður í því er útgáfa Handbókar um varðveislu safnkosts, í tveimur bindum, sem gefin er út af Þjóðminjasafninu í samvinnu höfuðsafnanna þriggja ásamt Þjóðskjalasafni Íslands og Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Handbókin er afrakstur sérfræðinga þessara stofnana á sviði varðveislu undir ritstjórn Nathalie Jacqueminet, forvarðar. Markmiðið með útgáfunni er að gera grunnþekkingu á varðveislu safngripa aðgengilega, útskýra í stuttu máli orsakir þess að þeir geti skemmst og orðið fyrir niðurbroti og veita ráðgjöf um hvernig hægt er að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir frekari skemmdum. Síðara bindið var gefið út 15. mars 2018 og er aðgengilegt á vefsíðu Þjóðminjasafnsins líkt og fyrra bindið.

Þann 9. desember 2019 var ný varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafns Íslands vígð í Hafnarfirði. Með tilkomu hennar og flutning munasafnsins frá Kópavogi var jafnframt hægt að bæta aðbúnað og varðveisluskilyrði Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni sem var áfram til húsa í Kópavogi. Við flutninginn voru tækniminjar grisjaðar á faglegum forsendum og var m.a. mörgum tækjum komið í umsjá byggðasafna, einkasafna og til einstaklinga. Nýja miðastöðin íHafnarfirði er innréttuð sérstaklega til þess að tryggja kjöraðstæður fyrir þær minjar sem Þjóðminjasafni Íslands er falið að varðveita. Efni í safngripum eru mjög fjölbreytt, ýmist lífræn eða ólífræn og yfirleitt eru gripir samsettir úr fleiri en einu efni. Efni hafa mismunandi efnafræðileg einkenni og svörun gagnvart umhverfi sínu. Þau eldast mishratt og á mismunandi hátt, sem gerir það að verkum að erfitt getur verið að skapa fullkomið umhverfi til að tryggja stöðugleika gripa en fagleg meðferð og forvarsla stuðlar að vandaðri varðveislu oft viðkvæmra muna. Í miðstöðinni er mjög góð aðstaða fyrir móttöku gripa, skráningu, verkstæði til forvörslu og sérhæfðar varðveisludeildir þar sem markvissri stýringu hita, raka og birtu er beitt. Rými til rannsókna er stórbætt þar sem fræðimenn, nemendur, aðrir einstaklingar og hópar geta fengið aðstöðu til að nýta safnkostinn í verkefnum sínum. Þjóðminjasafn Íslands hefur tekið framfaraskref til framtíðar í varðveislumálum sem eru öðrum söfnum til fyrirmyndar, en góð varðveisla er forsenda þess að framtíðin þekki auð fortíðar og geti nýtt sér hann.

Mat valnefndar er að varðveislu- og rannsóknarsetur Þjóðminjasafns Íslands í Hafnarfirði og Kópavogi ásamt Handbók um varðveislu safnkosts sé mikilvægt framlag til minjaverndar á landsvísu. Samstarf og miðlun þekkingar er þýðingarmikið og sú sérhæfða aðstaða sem sköpuð hefur verið fyrir varðveislu ómetanlegra minja er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Safnaverðlaunin 2020 – Fjöldi ábendinga

FÍSOS og ICOM á Íslandi óskaði eftir ábendingum frá almenningi, stofnunum og félagasamtökum um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar og var skilafrestur 15. mars síðastliðinn.

Það er skemmst frá því að segja að valnefndinni bárust 47 tilnefningar til 34 verkefna þar sem a.m.k. 21 safn kemur við sögu ásamt fleiri stofnunum og samstarfsaðilum.

Valnefndin tilnefnir þrjú söfn eða verkefni úr innsendum ábendingum og verður tilkynnt 4. maí 2020 hver þau eru.

Ráðgert er að tilkynna svo hvaða safn eða verkefni hlýtur hin eftirsóttu verðlaun á alþjóðlega safnadeginum þann 18. maí 2020 ef aðstæður í þjóðfélaginu leyfa vegna Covid19. Við hlýðum Víði.

FÍSOS og ICOM á Íslandi þakkar öllum þeim sem sendu inn ábendingu og gleðst yfir þeim fjölda ábendinga sem barst sem sýnir fram á hið gróskumikla og öfluga starf sem fer fram á söfnum um land allt.

Takk fyrir!

Aðalúthlutun safnasjóðs 2020

Þann 21. mars 2020 var tilkynnt um aðalúthlutun safnasjóðs 2020.

Samkvæmt frétt á heimasíðu safnaráðs þá úthlutaði mennta- og menningarmálaráðherra að fenginni umsögn safnaráðs alls 177.243.000 kr., þar af voru veittir 111 styrkir til eins árs að heildarupphæð 139.543.000 kr. Þá voru veittir í fyrsta sinn Öndvegisstyrkir þrettán að tölu sem skiptast svo: fyrir árið 2020 kr. 37.700.000, fyrir árið 2021 kr. 40.700.000 og fyrir árið 2021 kr. 32.000.000. Heildarupphæðin fyrir styrktímann er 110.400.000 kr.

FÍSOS fékk fjóra verkefnastyrki:

 • Námskeið fyrir safnafólk á Norðurlandi: Varðveislu safngripa á sýningum með áherslu á uppsetningu þeirra fyrir safnafólk – 500.000 kr.
 • Farskóli FÍSOS 2020 – Vestmannaeyjar – 1.800.000 kr.
 • Alþjóðlegi safnadagurinn 18. maí 2020 – 1.000.000 kr.
 • Safnablaðið Kvistur – 700.000 kr.

FÍSOS þakkar kærlega fyrir styrkina og viðurkenninguna sem í þeim felst.

FÍSOS – Aðsend grein

BIRTAN Í SAFNASTARFI Á TÍMUM KÓRÓNAVEIRUNNAR

eftir Sigurjón Baldur Hafsteinsson

Í siðareglum ICOM er ein grunnhugsun reglnanna orðuð með þessum hætti: „Hvert tækifæri skal nýtt til að upplýsa og mennta almenning um markmið, tilgang og metnað starfsstéttarinnar til að stuðla að auknum skilningi almennings á framlagi safna til samfélagsins.“ Þessi hugsun á vel við núna þegar Covid-19 veiran, eða kórónaveiran, hefur haft lamandi áhrif á heimsbyggðina og þar með safnastarf. Mörgum söfnum úti í heimi hefur verið lokað, á Spáni, Írlandi, Danmörku, Bandaríkjunum, og einnig hér á landi. Lokun safna hefur orðið til þess að þau standa frammi fyrir nýju verkefni, sem er að rækja hlutverk sín á sama tíma og dyrum þeirra hefur verið lokað og samstarfsmönnum meinað að eiga í eðlilegum samskiptum á vinnustað. 

Fyrirséð er að samkomubann og lokun safna getur og muni hafa áhrif á starfsemi safna. Sem dæmi hafa samskipti á vinnustaðnum minnkað, bæði við samstarfsmenn og aðra utan safnsins. Ástandið tekur einnig sinn toll af líðan starfsmann og blandast við ótta, röskun á fjölskylduhögum og óvissu um framtíðina. Vinna við safnkost safna mun sjálfsagt dragast á langinn og þar með raska áætlunum í þeim efnum. Allur undirbúningur fyrir sumaropnanir mun riðlast s.s. eins og sýningargerð. Erfiðleikar eru og verða mögulega á næstu vikum og mánuðum með alla aðdrætti fyrir söfnin og áætlanir t.d. í tengslum við gerð sýninga. Fræðslustarf hefur tímabundið dottið niður á söfnunum sjálfum og spurning hvort að það muni hafa áhrif til langframa. Sjálfsagt er einnig að gestafjöldi þetta sumarið muni vera töluvert lægri vegna hruns í millilandaflugi og þar með heimsóknum erlendra ferðamanna á söfn.

Ein spurning sem vaknar í þessu ástandi er hversu tilbúin söfn eru til þess að sinna hlutverkum sínum við þessar aðstæður. Óhjákvæmilega hafa söfn, eins og margir aðrir vinnustaðir, tekið á það ráð að nota stafræna tækni til að sinna bæði vinnu og því hlutverki að þjónusta notendur sína. Óhætt er að segja að aðstaða safna hér á landi sé hins vegar mjög mismunandi þegar kemur að því að einbeita sér að stafrænu þjónustuhlutverki safna. Í mörgum tilfellum eru söfnin fáliðuð og vinna við að gera safnkost þeirra aðgengilegan s.s. með skráningum í Sarp, hefur gengið hægt á undanförnum árum. Önnur söfn standa sterkar að vígi, hafa stóran hluta safnkosts síns fullskráðan í Sarp, með myndum af gripum og öðrum upplýsingum. Aðstaða safna er einnig mismunandi hvað varðar notkun þeirra á samfélagsmiðlum. Á meðan sum söfn hafa lagt sig eftir á undanförnum árum að miðla starfi sínum á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Instagram og öðrum sambærilegum leiðum, þá hafa önnur setið eftir og eru ekki eins tilbúin til að grípa til þeirra leiða í að miðla sínu starfi og þar með að sinna hlutverki sitt sem almannastofnun. Ástæðurnar fyrir ólíkri stöðu geta verið margar og mismunandi; sum eru fáliðuð og hafa ekki haft tækifæri til að undirbúa efni til að miðla á samfélagsmiðlum, tækniþekking er af skornum skammti meðal starfsmanna og litla sem enga aðstoð er að fá til að kippa því í liðinn, og stefnumótun hefur ekki verið gerð innan safnsins með tilliti til hlutverks þess að stafræn miðlun (umfram skráningar í Sarp) sé einn af hornsteinum starfseminnar.

Við þessar aðstæður reynir á hlutverk höfuðsafnanna í að styðja við söfn sem starfa á þeirra sviðum, að mínu mati. Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands hafa yfir að ráða reynslu og þekkingu sem mikill akkur væri fyrir önnur söfn að fá tækifæri til að nýta sér. Náttúruminjasafn Íslands er því miður ekki enn komið á þann stað sem hin höfuðsöfnin eru á í þessum efnum og sýnir enn og aftur hversu mikill dragbítur það er að svo sé ekki. En þegar kemur að miðlun safna sem starfa á þeim grunni, hefði verið gagnlegt að geta leitað til höfuðsafnsins. Það er hins vegar ekki eingöngu höfuðsöfnin sem þurfa að bera ábyrgð og sína forystuhlutverk. Söfn sem standa vel að vígi eins og Borgarsögusafn, Listasafn Reykjavíkur og önnur stöndug söfn sem sinna nærsamfélaginu, þurfa að mínu mati, að líta í eigin barm og spyrja sig hvort að þau geti með einhverju móti stutt við starfsemi annarra safna. Vert er að minnast þess að söfn undirgangast siðareglur ICOM en þar segir meðal annars að: „Starfsfólk safna skal viðurkenna og halda á lofti nauðsyn þess að eiga samstarf og samráð milli stofnana sem hafa sameiginleg svið og söfnunarstefnu.“

Spurning er hvort að þetta ástand geti og mögulega hafi varanleg áhrif á starfsemi safna. Engum blöðum er um það að flétta í mínum huga að þetta muni hafa áhrif – og til góðs – á íslenskt safnastarf. En hér er komið „kærkomið“ tækifæri til að einblína á einn þátt safnastarfs, stafrænan undirbúning safna og möguleika þeirra til að virkja til fjölbreytilegrar miðlunar með stafrænum hætti, hvort sem það er í gegnum vefsíður þeirra eða samfélagsmiðlum. Mögulega getur þetta ástand einnig orðið til þess að ímynd fólks af söfnum muni breytast og fært þeim jákvæðari ímynd en ella. Veltur það hins vegar á þeim viðbrögðum sem söfnin sýna á þessum tíma. Taki söfn stafrænar lausnir sér til handagagns og leiti allra leiða til að miðla starfseminni, er viðbúið að gestir þeirra sýni þeim meiri áhuga og einnig að miðlunin nái til breiðari hóps fólks sem annars vissi ekki af eða hafði litla þekkingu á því sem söfn hafa upp á að bjóða. Ástandið getur þar með verið leið fyrir söfn að stækka markhóp sinn.

Söfn eru að fara fjölmargar leiðir til að takast á við lokun þeirra. Listasafnið á Akureyri hefur tekið upp stutt myndbönd og deilt t.d. á Facebook. Sem dæmi stóð Hlynur Hallsson safnstjóri í sýningarsal safnsins og sagði á einni mínútu frá listaverki sem nú er til sýnis og var mögulega hvatinn á sínum tíma að því að safnið var stofnað. Menningarhúsin í Kópavogi efndu til samræðu milli starfsmanns Gerðarsafns og Einars Fals Ingólfssonar um ljósmyndasýningu sem nú er í gangi. Efninu var streymt og vakin athygli á því meðal annars á síðum dagblaðsins Stundin. Streymið var liður í reglubundum viðburðum sem menningarhúsin ætla að standa fyrir með sama hætti. Minjasafn Austurlands tók saman leiðir fyrir fólk að njóta menningar með stafrænum hætti á meðan á samgöngubanninu og lokun safnsins stendur. Duus safnahús í Reykjanesbæ sendi út stutta mynd m.a. Facebook með yfirliti frá sýningu um herstöðina á Miðnesheiði sem nú stendur uppi og Listasafn Reykjanesbæjar hefur boðið fólki á sýningu safnsins, með því að skoða rafrænt. Hönnunarsafn Íslands hefur verið með beinar útsendingar á Facebook frá störfum vefara á safninu og kallar útsendinguna „slow weaving“ eða „hæga vefun“! Þessum dæmum hefur svo verið deilt víða s.s. inn á samfélagsmiðlahópa sem þjóna nærsamfélaginu eða sérstökum markhópum.

En hvað aðrar leiðir eru færar fyrir söfn í þessu ástandi að fara? Hér eru nokkrar tillögur, en segja má að líta beri á þetta ástand sem ákveðið tækifæri fyrir söfn til að vekja athygli á starfsemi sinni og þar með um leið sinna hlutverkum sínum.

 1. Nota tækifærið og vera í góðum samskiptum við aðila sem standa að safninu s.s. eins og stjórnir, hollvini og aðra velunnarra safnsins. Deila með þeim því sem gert er á safninu á þessum tímum og benda þeim einnig á efni sem búið er til af öðrum söfnum.
 2. Vera ófeimin að styðjast við og nota aðgengilegt efni í miðlun sinni s.s. eins og myndbönd, vefsíður með forvitnilegu efni eða lesefni úr gagnabönkum s.s. eins og bækurnar Byggðasöfn á Íslandi og Saga listasafn á Íslandi, en þær eru báðar í opnum aðgangi í heild sinni á Opinn vísindi.
 3. Gefa sér tíma til að endurskoða stefnu safnsins og rýna í það hvort megi skerpa þar á þeim áherslum sem lúta að framleiðslu og notkun stafræns efnis.
 4. Safnið ætti einnig að huga að því og gefa sér tíma til að hugsa um hvort það sé að ná til allra hópa í samfélaginu með stafrænum hætti. Söfnin þurf að spyrja sig að því hvort að það sé að ná til eldra fólks, ungs fólks, fólks af erlendum uppruna, og ekki síst stofnana sem vinna með fólk í viðkvæmri stöðu.
 5. Söfn ættu einnig að íhuga hvort að þetta sé ekki tækifæri til að virkja fólk til að búa efni til um eitthvað sem snertir á áherslum safnsins og sé tilbúið til að deila því.
 6. Safnið ætti að rýna í heimasíðuna og velta því fyrir sér hvort möguleiki sé á því að koma upp virkari síðu en nú er. Gera aðgengilegt, til dæmis, það efni sem búið hefur verið til fyrir samfélagsmiðla, skrifa uppfærða texta um stöðuna á safninu og samfélaginu, skrifa um það sem gert er eða að hverju er verið að vinna. Slíkum upplýsingum ætti síðan að deila á samfélagsmiðlum.
 7. Halda óformlega fundi með starfsfólki og samstarfmönnum rafrænt. Sumir hafa farið þá leið að bjóða upp á „Happy hour“ í gegnum fjarfundabúnað!
 8. Svo má ekki gleyma því að þetta er tækifæri til að tala við kollega annarra safna. Nú, eða nota tækifærið og kynnast nýjum með því að setja sig í samband við þá og leita ráða eða bera undir þá hugmyndir. Grunnhugsunin í siðareglum ICOM undirstrikar þetta hlutverk sem hornstein að faglegum metnaði safnmanna – og ekki síst á tímum eins og þeim sem við eru að glíma við núna.

Þetta er á engan hátt tæmandi listi. Óskandi væri að þú, lesandi góður, legðir þínar hugmyndir fram og deildir þeim með öðrum sem starfa á sviði safna. Þeim er hægt að koma á framfæri t.d. á samfélagsmiðlum (s.s. eins og Facebook-grúppu FÍSOS) eða á póstlista safnmanna.

04.03.2020 – Fundur – Hvað er safn? Nýja safnaskilgreining

Fréttatilkynning

Íslandsdeild ICOM, FÍSOS og safnaráð boða til almenns fundar miðvikudaginn 4. mars kl. 9.30, í Sjóminjasafninu í Reykjavík, þar sem til umfjöllunnar verður hin nýja safnaskilgreining ICOM.

Hin nýja safnaskilgreining var kynnt á aðalfundi Alþjóðráðs safna sem haldinn var í Kyoto í september 2019. Niðurstaða fundarins var að fresta kosningu um skilgreininguna og kalla eftir frekari ábendingum frá félagsmönnum um innhald skilgreiningarinnar.

Jette Sandahl, formaður nefndar um hina nýja safnaskilgreiningu, hefur þegið boð Íslandsdeildar ICOM, FÍSOS og safnaráðs að flytja erindi á fundinum og skýra út þá vinnu sem þegar hefur átt sér stað og hvert er markmið núverandi vinnuhóps um efnið.

Það er mikill fengur fyrir félagsmenn ICOM og FÍSOS að fá Jette til landsins og ræða um hvort og hvaða áhrif hin nýja skilgreining hefur á safnastarf á Íslandi. Einnig að koma með ábendingar og tillögur að úrbótum.

Undirbúningsnefnd fundarins hvetur alla félagsmenn og þá sem hafa áhuga á starfi safna á Íslandi til að fjölmenna á fundinn.

Fundardagskrá
kl. 9.30 – Guðný Dóra Gestsdóttir, formaður Íslandsdeildar ICOM býður fundargesti  velkomna.

kl. 9.35 – Fundarstjóri – Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur.

kl. 9.40Erindi – Jette Sandahl, formaður nefndar um hina nýju safnaskilgreiningu

kl. 10.10 – Pallborðsumræður – hver fulltrúi í pallborði leggur fram sína sýn á hina nýju safnaskilgreiningu.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, doktorsnemi í safnafræði
Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri
Margrét Hallgrímsson, þjóðminjavörður
Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor, safnafræði H.Í.

kl. 11.00 – Kaffi

kl. 11.15 – Umræður

kl. 12.00 – Fundi slitið

Fundurinn verður tekin upp. Fundurinn mun fara fram á ensku.

Með kærri kveðju,

Guðný Dóra Gestsdóttir, formaður Íslandsdeildar ICOM
Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri safnaráðs
Helga Maureen Gylfadóttir, formaður FÍSOS

In Memoriam – Hafdís Halldórsdóttir

In Memoriam – Hafdís Halldórsdóttir (21.06.1951-20.01.2020)

Þann 20. janúar sl. lést Hafdís Halldórsdóttir, fyrrum skrifstofustjóri Árbæjarsafns. Hafdís (f. 21.06.1951) hóf störf á Árbæjarsafni árið 1979 og starfaði þar í 37 ár eða til ársins 2016, er hún varð að láta af störfum vegna veikinda.
Árbæjarsafn var hennar aðal starfsvettvangur og þar var hún lengst af skrifstofustjóri og hélt utan um rekstur og fjármál safnsins sem og safnbúðum Árbæjarsafns. Hún var félagi í FÍSOS og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið og sat meðal annars í stjórn þess.

Samstarfsfélagar Hafdísar á Árbæjarsafni í gegnum árin minnast hennar með hlýhug og væntumþykju. Hafdís var einstaklega traust, skipulögð og glögg og hún var öllum hnútum á safninu kunn. Hún var alltaf fús til að miðla af reynslu sinni og þekkingu, enda bóngóð, hjálpsöm og einkar lausnamiðuð. Hún sinnti stöfum sínum af alúð og natni. Hún tók einnig virkan þátt í og setti mark sitt á starf og þróun Árbæjarsafns og alltaf bar hún hag safnsins fyrir brjósti.  Hafdís tók einnig virkan þátt í félagsstarfi safnmanna á landsvísu og lagði sitt lóð á vogarskálarnar við að efla íslenskt safnastarf, stuðla að vexti þess og aukinni fagmennsku.

Útför Hafdísar mun fara fram frá Grafarvogskirkju fimmtudaginn 30. janúar og hefst athöfnin kl. 13.

Námskeið FÍSOS – 18.12.2019 – Samfélagsmiðlar sem virka!

EKKI LÁTA ÞETTA TÆKIFÆRI FRAMHJÁ ÞÉR FARA!

FÍSOS sótti í safnasjóð styrk til að greina þær kynningarleiðir sem söfnum standa til boða og meta virkni þeirra með það að markmiði að söfn geti með markvissari hætti nýtt það fé sem ætlað er til kynningarmála. FÍSOS fór í samstarf við Íslandstofu um greiningu á efninu og vann Katarzyna Moi verkefnið. Félagsmenn fengu þessa greinagerð senda í pósti (okt. 2018) en hún er einnig aðgengileg á heimasíðu félagsins.

Næst er að læra að beita þeim aðferðum sem koma fram í greinagerðinni og efnir því FÍSOS til þessa dagsnámskeiðs í samstarfi við Hugsmiðjuna:

Samfélagsmiðlun sem virkar
Náðu forskoti með mikilli útbreiðslu og lægri kostnaði en með hefðbundinni markaðssetningu. Samfélagsmiðlarnir eru staðirnir – þar er fólkið, þar eru tækifærin!

Markhópur: Félagsmenn FÍSOS

Staðsetning: Hugsmiðjan – Snorrabraut 56, 101 Reykjavík

Tími og dagsetning: Miðvikudaginn 18. desember 2019 kl.9:30-16:00

 • 9:30 – 12:00 – námskeið
 • 12:00 – 13:30 – hádegismatur á eigin vegum
 • 13:30 – 16:00 – námskeið

Athugið! Þetta er dagsnámskeið og því mikilvægt að nemendur geta tekið þátt allan daginn – t.a.m. ekki bara fyrir eða eftir hádegi.

Leiðbeinandi: Námskeiðið er á vegum Hugsmiðjunnar og er kennari Margeir S. Ingólfsson.

Síðasti dagur skráningar – föstudagur 13. desember 2019

Hámarksfjöldi: 25 þátttakendur

Kostnaður: ENGINN fyrir FÍSOS félaga ( alla jafna kostar námskeiði 49.900 kr.)

Skráning hér: https://forms.gle/bYMezSYkHbJgCJc2A

Frekari upplýsingar um námskeiðið:

 • Hvernig nota á samfélagsmiðla rétt
  Komast þarf upp úr þeim hjólförum að nota samfélagsmiðlana eins og aukaafurð við hefðbundna kynningu og miðlun. Samfélagsmiðlarnir eru staðirnir – þar er fólkið, þar eru tækifærin.
 • Auglýsingakerfi Facebook
  Meðal þess fjölmarga sem tekið er fyrir er hið umdeilda en gríðar öfluga auglýsingakerfi Facebook og Instagram og sýnt er hvernig við getum nýtt það okkur í hag. Þá er farið ítarlega í tölfræðina en rétt beiting hennar er lykilatriði til að sjá hvað virkar og hvað virkar ekki.
 • Ávinningur þátttakenda
  Kynnast nýjum möguleikum í markaðssetningu í gegnum samfélagsmiðla.
  Kynnast eiginleikum og tækifærum helstu miðla.
  Farið yfir dæmi um notkun á samfélagsmiðlum sem eru til fyrirmyndar.
  Læra að setja upp herferðir og lesa úr árangri þeirra þannig að fjármunir nýtist sem best.
  Kynnast því hvernig betra efni er framleitt  fyrir samfélagsmiðla.
  Læra að nýta sérhæfða en gríðarlega öfluga möguleika samfélagsmiðla í öllu markaðsstarfi.
  Og margt fleira …

Greinagerðin:

FÍSOS – PRESENCE ONLINE

Söfn á Íslandi – Markaðsgreining og aðgerðaáætlun til að auka sýnileika á netinu.

 

Námskeið FÍSOS – Uppsetning gripa á sýningu – Takk fyrir þátttökuna!

Nathalie úrskýrir efnisval fyrir áhugasömum þátttakendum.

Föstudaginn 15. nóvember sl. hélt FÍSOS námskeiðið Uppsetningu (mounting) safngripa á sýningum í samstarfi við Borgarsögusafn Reykjavíkur. Leiðbeinendur voru Nathalie Jacqueminet og Ingibjörg Áskelsdóttir sem báðar eru forverðir og safnafræðingar.

Ólöf Bjarnadóttir fá Hafnarborg lærir á pappa.

Farið var yfir efnisval, tækni og tól þegar kemur að uppsetningu safngripa á sýningum, með verklegri kennslu seinni hluta dagsins.  Þáttakendur voru 13 og voru þeir sammála um það að námskeiðið hafi verið bæði fróðlegt og gagnlegt.

Þátttakendur spreyta sig á að búa til uppsetningu úr vír.

Námskeiðið var styrkt af safnsjóði, Borgarsögusafni Reykjavíkur og FÍSOS.

FÍSOS þakkar öllum þeim sem tóku þátt sem og Nathlie og Ingibjörgu fyrir utanumhald og námskeiðshald. Þá þakkar FÍSOS safnasjóði og Borgarsögusafni Reykjavíkur fyrir stuðninginn.

Farskóli FÍSOS – Hvar og hvenær – 2020 til 2023

Á aðalfundi félagsins þann 2. október sl. kölluðu fundarmenn eftir að tímasetningar fyrir farskóla næstu ára yrðu fljótlega settar fram.

Stjórn FÍSOS hefur nú leitað eftir fulltrúum til að taka að sér utanumhald tilvonandi skóla og hafa viðtökur verið hreint út sagt frábærar.

Farskóli FÍSOS – Árin 2020 – 2023

 • Farskóli FÍSOS 23. -25. september 2020 – Vestmannaeyjar
  • Farskólastjóri Hörður Baldvinsson
 • Farskóli FÍSOS 15.-17. september 2021 – Stykkishólmur
  • Farskólastjóri Hjördís Pálsdóttir
 • Farskóli FÍSOS 14.-16. september 2022 – Egilsstaðir/Fjarðabyggð
  • Farskólastjórn Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Pétur Sörensson
 • Farskóli FÍSOS september 2023 – ÚTLÖND
  • Býður þú þig fram?

Stjórn FÍSOS þakkar kærlega fyrir góðar undirtektir og viðbrögð á meðal félagsmanna. Farskólar eru frábært tækifæri til að efla tengslin og göfga andann og verður gaman að hittast á ný hvort sem er í Eyjum, í Hólminum, á Austurlandi eða á erlendri grundu.

Aðalfundur FÍSOS 2019 – fréttir af fundi

Aðalfundur FÍSOS var haldinn 2. október sl. í Skjaldborgarbíó á Patreksfirði. Fundinn sóttu um 70 félagar sem voru komnir til Patreksfjarðar til að taka þátt í farskóla félagsins.

Kosið var til stjórnar félagsins og voru endurkjörin Gunnþóra Halldórsdóttir, Ingibjörg Áskelsdóttir, Jón Allansson og Hjörtur Þorbjörnsson. Þá voru Anna Lísa Guðmundsdóttir og Lýður Pálsson kosin skoðunarmenn reikninga.

Heiðurfélagi FÍSOS 2019 var útnefndur Ólafur Axlesson en frekar má lesa um þann heiðursmann hér.

Frekari upplýsingar um fundinn er að finna í eftirfarandi fundargerð  – FÍSOS Aðalfundur 2019 Skjaldborgarbíó Patreksfjörður

Þá er að finna hér ársskýrslu formanns – FÍSOS Árskýrsla 2018-2019

Stjórn FÍSOS þakkar fundarmönnum fyrir góðan og gagnlegan fund. Þá eru Hönnu Rósu Sveinsdóttur  og Ágústu Rós Árnadóttur veittar þakkir fyrir fundarstjórn og fundarritun.

Farskóli 2020 – Takið dagana frá!

Kæru félagar – velkomin til Eyja!

Dagana 23. -25. september 2020 mun Farskóli FÍSOS fara fram í Vestmannaeyjum.

Takið dagana frá!

Farskólastjóri er Hörður Baldvinsson, safnstjóri Sagnheima en hann tók við safninu þann 15. maí sl.

Stjórn FÍSOS þakkar Herði fyrir að taka að sér umsjón með skólanum. Nú leitar stjórn að félagsmönnum til að skipa farskólastjórn með Herði og mega þeir því eiga von á símtali fljótlega!

Heiðursfélagi FÍSOS 2019 – Ólafur Axelsson

Ólafur á flugi. Ljósm. Hörður Geirsson.

Nú, á síðasta aðalfundi FÍSOS, sem haldinn var 2. október 2019 í Skjaldborgarbíó á Patreksfirði, var Ólafur Axelsson útnefndur heiðursfélagi FÍSOS.

Í umsögn stjórnar segir: ” Heiðursfélagi FÍSOS árið 2019 er Ólafur Axelssson. Ólafur hefur verið öflugur félagi í FÍSOS til fjölda ára. Hann ber hag félagsins fyrir brjósti og er vakinn og sofinn fyrir framgangi þess, þá sérstaklega reikningum félagsins sem hann fylgist með haukfránum augum. Ólafur efur verið dyggur talsmaður farskóla félagsins og er eftirtektarvert hve hann hefur lagt sig fram við að kynnast félagsmönnum.  Hans heimspeki er sú að hann lítur á skólann líkt og ættarmót og auðvita situr maður ekki hjá sínum nánustu ættingum heldur gerir sér far um að kynnast sem flestum. Ólafur er af Árbæjarsafnsfjölskyldunni (ef við höldum áfram með ættarmótalíkinguna) en hann fór á eftirlaun árið 2014 eftir að hafa starfað við safnið í um 30 ár. Ólafur var vel liðinn af samstarfsfólki, enda skemmtilegur, fljótur til verka og með ljúfa lund.”

Brugðið á leik á farskóla. Ljósm. Hörður Geirsson.

Ólafur hafði ekki tök á að sækja aðalfundinn en fyrir hans hönd tók Hanna Rósa Sveinsdóttir við heiðurskjalinu og flutti fundarmönnum kveðjur og þakklæti frá Ólafi.

Fimmtudaginn 17. október færðu fulltrúar stjórnar FÍSOS Ólafi heiðurskjalið og blómvönd með kærum þökkum fyrir þátttöku hans í starfi félagsins.

Ólafur Axelsson heiðursfélagi FÍSOS 2019. Ljósm. Anna Lísa Guðmundsdóttir

Kvistur – Nýjasta tölublað komið í hús!

Nýjasta tölublað Kvists er komið út! Þeir félagar sem greitt hafa félagsgjöld fá eintak af blaðinu. Blaðinu var dreift á Farskóla FÍSOS 2019 á Patreksfirði og nú mánudaginn 14. október sl. var blaðið sent með bréfpósti til annarra félagsmanna og annarra áskrifanda. Þá verða eintök af blaðinu til sölu í Bóksölu stúdenda á Háskólatorgi.

Efst á baugi í sjötta tölublaðinu eru söfn og umhverfi:

 • Fjallað er um aðgerðir og áskoranir safna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
 • Blaðið inniheldur einnig umfjöllun um nýja safnaskilgreiningu alþjóðaráðs safna, ICOM.
 • Fjórir safnamenn líta um öxl á 30 ára afmæli Farskóla safnamanna.
 • Rýnt er í nýútkomnar bækur, Sögu listasafna á Íslandi og 130 verk úr safneign Listasafns Íslands og sýningarnar Vatnið í Náttúru Íslands og Sölva Helgason og William Morris.

Stjórn FÍSOS  færir ritstjórn Kvists, Ingu Láru Baldvinsdóttur, ritstjóra, Sigrúnu Kristjánsdóttur, Ágústu Kristófersdóttur, Sigurjóni Baldri Hafsteinssyni,og Ingunni Jónsdóttur, bestu þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag við að setja saman fróðlegt, faglegt og skemmtilegt blað sem dregur fram það mikla starf og ábyrgð sem safnastarfið er.

Ef einhver dráttur verður á að blaðið berist félagsmönnum í hendum er þeim bent á að hafa samband við stjórn félagsins, stjorn hjá safnmenn.is

Námskeið FÍSOS – Uppsetning gripa á sýningum. Hvað skal hafa í huga og hvernig skal framkvæma það?

Uppsetning gripa á sýningum getur verið vandasamt verk.  Bæði þarf að huga að fagurfræðilegri uppsetningu gripsins sem og hvað er honum fyrir bestu þegar kemur að varðveislu.

Á námskeiðinu, sem er bæði bóklegt og verklegt, verður farið yfir þau atriði sem hafa áhrif á varðveislu safngripa á sýningum, svo sem val sýningarskápa, efni í uppsetningu, raka-og hitastig, umhverfi, birtuskilyrði, hvaða gripir eiga saman o.s.frv. Kennt verður að búa til einfaldar uppsetningar (montering) fyrir ólíka safngripi úr mismunandi efnum.

Markhópur: Starfsmenn safna og aðrir félagsmenn FÍSOS sem setja upp sýningar með safngripum.

Staðsetning: Kornhúsið, Árbæjarsafni, Kistuhyl 4, 110 Reykjavík.

Tími og dagsetning: föstudaginn 15. nóvember 2019, kl. 9:00 – 16:00.

Leiðbeinendur: Nathalie Jacqueminet, forvörður og safnafræðingur ásamt Ingibjörgu Áskelsdóttur forverði og safnafræðingi.

 


Dagskrá

Kl.09:00-10:00

Fagurfræðileg uppsetning safngripa og varðveisluskilyrði: vinnuferlar og samtöl.

kl.10:00-10:15 Kaffi og umræður.

kl.10:15-11:15 Umgjörð sýninga: val á skápum, efni, lýsing, umhverfiskilyrði og öryggi gripa.

kl.11:15-12:15 Rýnt í uppsetningu gripa á sýningunni Hjúkrun í 100 ár á Árbæjarsafni.

kl.12:15-13:00 Hádegisverður.

kl.13:00-16:00 Gerð uppsetninga. Þáttakendur læra að búa til nokkrar mismunandi tegundir af uppsetningum fyrir ólíka gripi. Sýnikennsla og æfing.

Hámarksfjöldi þátttakenda: 12 manns

Verð: kr.9.500

Innifalið: efni, verkfæri, hádegisverður og kaffi

Skráning hér: https://forms.gle/iv2eJPg5M9adPTwb8

Skráningarfrestur er til 5. nóvember 2019


Greiðsluseðill verður sendur að skráningu lokinni og námskeiðið greiðist fyrirfram.

Spurningar sendist á Ingibjorg.Askelsdottir@reykjavik.is eða nathalieforvordur@gmail.com

Námskeiðið er styrkt af safnasjóði og Borgarsögusafni Reykjavíkur.

FÍSOS – framboð til stjórnar 2019-2020

Nú á aðalfundi félagsins miðvikudaginn 2. október 2019 á Patreksfirði verða eftirfarandi embætti laus til umsóknar: varaformaður, gjaldkeri, ritari, meðstjórnandi og skoðunarmaður reikninga.

Stjórn óskaði eftir framboðum í þessi embætti þann 29. ágúst 2019 eins og lög félagsins gera ráð fyrir .

Eftirfarandi framboð hafa borist:

o             Gunnþóra Halldórsdóttir, verkefnastjóri, Kvikmyndasafn Íslands –

framboð til varaformaður

o             Jón Allansson, deildarstjóri Byggðsafnið að Görðum – framboð til

gjaldkera

o             Ingibjörg Áskelsdóttir, verkefnastjóri Borgarsögusafni Reykjavíkur –

framboð til ritara

o             Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður, Grasagarður Reykjavíkur – framboð

til varamanns.

 

Kær kveðja, stjórn FÍSOS

 

Í stjórn félagsins 2018-2019 sitja:

Formaður: Helga Maureen, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Varaformaður: Gunnþóra Halldórsdóttir, Kvikmyndasafn Ísland.

Gjaldkeri: Jón Allansson, Byggðasafnið á Görðum.

Ritari: Ingibjörg Áskelsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Meðstjórnandi: Ásdís Þórhallsdóttir, Listasafn Reykjavíkur.

Varamenn:Hjörtur Þorbjörnsson, Grasagarður Reykjavíkur og Sigríður Þorgeirsdóttir, Þjóðminjasafn Íslands.

Námskeið með Ninu Simon – FRESTAÐ

Námskeiði Ninu Simon, sem halda átti 12. október, hefur verið frestað.

Ný dagsetning verður ákveðin og tilkynnt síðar.

FÍS – félag íslenskra safnafræðinga, FÍSOS – Félag íslenskra safna og safnmanna og Námsbraut í safnafræði við Háskóla Íslands.

FÍSOS – Aðalfundur 02.10.2019 á Patreksfirði

Stjórn FÍSOS – Félags íslenskra safna og safnmanna boðar hér með til aðalfundar félagsins miðvikudaginn 2. október 2019 kl. 17.00 í Skjaldborgarbíó, Aðalstræti 27, 450 Patreksfjörður

Dagskrá aðalfundar:

A. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

B. Skýrsla formanns um störf félagsins.

C. Ársreikningur félagsins.

D. Umræður um ársskýrslu og ársreikning og afgreiðsla reikninga.

E. Lagabreytingar.

F. Kosning í stjórn og aðrar trúnaðarstöður. Kosning skal vera leynileg.

 1. Kosning fimm manna stjórnar til tveggja ára í senn, formaður og meðstjórnandi annað árið en varaformaður, gjaldkeri og ritari hitt árið.
 2. Kosning tveggja varamanna til tveggja ára, eins varamanns annað árið en annars hitt árið.
 3. Kosning skoðunarmanns reikninga til tveggja ára, eins skoðunarmanns annað árið og annars skoðunarmanns hitt árið.
 4. Kosning farskólastjóra til eins árs.

G. Ákvörðun ársgjalds félagsmanna og stofnana.

H. Önnur mál.

Óskað er eftir framboðum til stjórnar í stöðu varaformanns, gjaldker og ritara. Þá er einnig lýst eftir framboði til varamanns í stjórn sem og eins skoðunarmanns reikninga.

Áhugasamir geta lýst yfir framboði með því að senda tölvupóst á stjorn@safnmenn.is eða lýst yfir framboði á aðalfundi. Kjörgengi hafa þeir félagsmenn sem greitt hafa árgjald félagsins fyrir aðalfund eða eru heiðursfélagar.

Vægi atkvæða á fundum félagsins er einn félagsmaður, eitt atkvæði og ein stofnun, eitt atkvæði. Fer forsvarsmaður stofnunar með atkvæði hennar á fundum félagsins eða fulltrúi í umboði hans.

Með kveðju, stjórn FÍSOS

Í stjórn félagsins 2018-2019 sitja:

Formaður: Helga Maureen Gylfadóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Varaformaður: Gunnþóra Halldórsdóttir, Kvikmyndasafn Ísland.

Gjaldkeri: Jón Allansson, Byggðasafnið á Görðum.

Ritari: Ingibjörg Áskelsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Meðstjórnandi: Ásdís Þórhallsdóttir, Listasafn Reykjavíkur.

Varamenn:Hjörtur Þorbjörnsson, Grasagarður Reykjavíkur og Sigríður Þorgeirsdóttir, Þjóðminjasafn Íslands.