FÍSOS

Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn

Hamraborg 4, 200 Kópavogur. S: 5700440 www.gerdarsafn.is

+Safneignin

+Safneignin er rými fyrir rannsóknir þar sem gestum er gefinn kostur á að líta á bak við tjöldin og kynnast því sem að öllu jöfnu tilheyrir innra starfi safns. Leitað er aftur í grunninn og rýnt í safneignina með þeim hætti að listaverkageymslan teygir sig fram í sýningarrýmið. Hverju sinni eru dregin fram verk úr safneigninni til að sýningar um leið og unnið er fyrir opnum tjöldum að skráningu verkanna, ástandsskoðun, rannsóknum og fræðslu. Plúsinn stendur fyrir bæði fyrir viðbót og vísar í það sem koma skal.

Erindaröð um umhverfismál: Landsskipulagsstefna

Náttúrufræðistofa Kópavogs og Bókasafn Kópavogs

Náttúrufræðistofa Kópavogs og Bókasafn Kópavogs standa fyrir erindaröð um umhverfis- og skipulagsmál. Annað erindið verður þann 19. maí kl. 17:15 á fyrstu hæð safnahússins, þá mun Einar Jónsson, sviðstjóri stefnumótunar og þróunar hjá Skipulagsstofnun flytja sitt erindi, Landsskipulagsstefna, nýtt ferli sem setur umgjörð um skipulagsmál á landsvísu.

Hjóladagur fjölskyldunnar: Menningarhúsin í Kópavogi

Hjóladagur fjölskyldunnar verður haldinn laugardaginn 21. maí frá 13-17. Á útivistarsvæðinu við Menningarhúsin í Kópavogi verður boðin ástandsskoðun á hjólum og kynning á rafhjólum og öðrum búnaði svo og kynning á verkefninu „Hjólað óháð aldri“. Þá mun Garðskálinn bjóða upp á grillað góðgæti og selja á vægu verði. Í Bókasafninu verða settar fram bækur sem tengjast hjólreiðum en einnig verður sýning á ljósmyndum úr fórum Héraðsskjalasafns Kópavogs. Þá verður reiðhjólatúr og ratleikur með fjársjóðskistum um Kársnesið og settur verður upp umferðargarður á bílaplani Molans.
Dagskrá:

13:00 – 17:00

Dr. Bæk ástandsskoðar hjól á útivistarsvæði við Menningarhúsin Kynning á rafhjólum og reiðhjólabúnaði á útivistarsvæði við Menningarhúsin Umferðargarður á bílaplani Molans þar sem hægt verður að æfa hjólafærni Bókasafnið opið og hægt að skoða bækur tengdar hjólreiðum Sýning á ljósmyndum af reiðhjólum úr fórum Héraðsskjalasafns Kópavogs á 2. hæð Bókasafnsins Garðskálinn býður upp á grillað góðgæti á hagstæðu verði

14:00

Reiðhjólatúr og ratleikur með sérfræðingum Náttúrufræðistofu og Héraðsskjalasafns. Fræðst verður um mannlíf og náttúru á Kársnesinu og í fjársjóðskistum leynast glaðningar af ýmsu tagi (hjálmaskylda)

15:15

Kynning á verkefninu “Hjólað óháð aldri” á útivistarsvæði við Menningarhúsin

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Grasagarður Reykjavíkur

Grasagarður Reykjavíkur kemur sérstaklega vel undan vetri og skarta vorblómin sínu allra fegursta þessa dagana. Í tilefni Alþjóðlega  safnadagsins, miðvikudaginn 18. maí, ætlar Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður garðsins að leiða göngu um vorblómin í Grasagarðinum. Gangan hefst kl. 17:30 við aðalinngang Grasagarðsins við Laugatungu.

Continue reading

Borgarsögusafn Reykjavíkur

Borgarsögusafn lógo

Á Alþjóðlega safnadaginn á Íslandi verður haldið upp á 10 ára afmæli Landnámssýningarinnar og býðst gestum frítt inn á safnið í tilefni dagsins. Einnig verður boðið upp á leiðsögn í hádeginu, kl. 12:10, og leiðsögn kl. 17:00. Á Árbæjarsafni verður boðið upp á létt spjall kl. 16.00 í einni af opnu geymslum safnsins, er nefnist Koffortið.

Continue reading

Listasafn Einars Jónssonar

Á Listasafni Einars Jónssonar verður haldið uppá alþjóðlega safnadaginn með útiveru í höggmyndagarðinum. Í hádeginu sér hornaflokkurinn Kanselíbrass um ljúfa tóna og flytur íslensk og erlend lög sem henta vel fyrir lautarferð í garðinum.  Gestir eru hvattir til að koma með teppi og nestiskörfur en einnig verða léttar veitingar í boði, svo sem kaffi og kleinur. Um kl. 12:30 mun safnstjóri, Sigríður Melrós segja frá garðinum, vinnu Einars og konu hans Önnu við uppbyggingu hans og styttunum sem settar voru upp eftir þeirra dag.

Continue reading

Listasafn Árnesinga

listasafn Árnesinga

Í tengslum við alþjóðadag safna efnir Listasafn Árnesinga til dagskrár sunnudaginn 22. maí kl. 15:00 með listamannaspjalli Péturs Thomsen og Rúríar um verk þeirra á sýningunum Tíð / Hvörf og Tíma – Tal sem nýlega voru opnaðar í safninu. Viðfangsefni þeirra tengjast vel þema alþjóðlega safnadagsins sem í ár er: söfn og menningarlandslag.

Continue reading

Byggðasafn Dalamanna

Á safninu er fjölbreytni í hávegum höfð og til sýnis eru allt frá saumnál til baðstofu. Flestir sýningar safnsins tengjast daglegu lífi Dalamanna frá tímum gamla sveitasamfélagsins, en einnig má finna yngri muni. Áhersla er lögð á handverk og hugvit hverskonar og þá þætti sem hafa einkennt mannlíf og lifnaðarhætti í héraðinu.

Continue reading

Listasafn Íslands

listasafn islands

Á alþjóðlega safnadaginn, 18. maí 2016, býður Listasafn Íslands gestum sínum að koma með í tímaflakk um landslag íslenskrar myndlistar. Leiðsögn í Safni Ásgríms Jónssonar, Bergstaðastræti 74 kl. 14 og kl. 15 og í kjölfarið gönguferð í Listasafn Íslands á Fríkirkjuvegi. Svo er fjölskylduganga um Laugarnes kl. 17, gengið frá Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.

Continue reading

Fyrirlestur FÍSOS: Framleiddur sannleikur. Greining á safnastarfi á Íslandi eftir áróðursmódeli Herman og Chomsky

Þann  27. apríl var Ólöf Vignisdóttir safnafræðingur með skemmtilegt og áhugavert erindi úr efni MA ritgerðar sinnar í safnafræði við Háskóla Íslands.

Framleiddur sannleikur. Greining á safnastarfi á Íslandi eftir áróðursmódeli Herman og Chomsky

Safnastarf á Íslandi er greint eftir áróðursmódeli Herman og Chomsky fyrir fjölmiðla. Litið er svo á að söfn séu fjölmiðill og þess vegna sé hægt að heimfæra þetta módel á safnastarf. Áróðursmódel þeirra Herman og Chomsky er tekið fyrir og jafnframt kenningar um það vald sem söfn taka sér yfir sögunni og „sannleikanum“ eru skoðaðar. Að lokum eru áróðursmódelin fimm síur yfirfærðar á safnastarf á Íslandi í samhengi við þær kenningar um þetta vald sem söfn taka sér í safnafræði. Þegar sjálfstæði safna er skoðað er það ekki jafnt í orði og á borði.

 

 

FÓTUM KIPPT UNDAN FAGLEGU SAFNASTARFI

Stjórn Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fyrirhugaðrar sameiningar Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Líkt og kemur fram í frumvarpsdrögum þarf að setja skorður á rannsóknarstarf Þjóðminjasafns Íslands til þess að hægt sé að gæta sjónarmiða samkeppnislaga vegna sameiningar. Félagið telur að með sameiningu hverfi Þjóðminjasafnið frá rannsóknahlutverki sínu þar sem slíkt samræmist ekki hlutverki fyrirhugaðrar Þjóðminjastofnunar, sem við breytinguna verður stjórnsýslustofnun. Félagið telur að breytingin muni rýra gildi Þjóðminjasafns Íslands sem og trúverðugleika þess, en almennt er talið innan safnafræði að rannsóknarhlutverk safna renni stoðum undir þá framþróun og nýsköpun sem nauðsynleg sé í safnastarfi.

Stjórn FÍSOS telur það litlu skipta þótt Þjóðminjasafn Íslands verði undirstofnun fyrirhugaðrar Þjóðminjastofnunar þar sem ekki verði um raunverulegan aðskilnað framkvæmda- og stjórnsýsluvalds að ræða. Sú stefna var upphaflega mörkuð með vinnu að lögum um menningjarminjar, þar sem nauðsynleg aðgreining stjórnsýslu og framkvæmdar var fest í sessi. Þá vill félagið minna á að Þjóðminjasafn Íslands er eitt af þremur höfuðsöfnum, auk Listasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands. Skerðingin sem óhjákvæmilega verði á starfsemi Þjóðminjasafns Íslands við fyrirhugaða breytingu muni draga úr vægi þess sem eitt af þremur skilgreindum höfuðsöfnum samkvæmt safnalögum nr. 141/2011

FÍSOS gagnrýnir að fyrir liggur illa undirbúið frumvarp sem virðist að engu leyti bera hag starfsemi stofnananna tveggja í fyrirrúmi. Með frumvarpinu er verið að ráðast í miklar breytingar á skömmum tíma og ekki var haft samráð við hagsmunaaðila. Þá telur félagið ámælisvert að forsendur frumvarpsins og þær ástæður sem liggi að baki fyrirhugaðrar sameiningar séu óljósar, en slíkt geti aðeins leitt til ómarkvissra athugasemda af hálfu hagsmunaaðila.

Í ljósi þessa skorar stjórn FÍSOS á forsætisráðuneytið að falla frá fyrirhuguðu frumvarpi til laga og fyrirhugaðri sameiningu Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Efna þess í stað til víðtæks samráðs við fagfólk og fræðafólk á sviði safna, rannsókna og minjavörslu á Íslandi.

Fyrirlestur FÍSOS: SÍM kynnir drög að launasamningi listamanna.

Þann 28. janúar 2016 var fyrsti fyrirlestur ársins. Ásdís Spanó, verkefnastjóri og Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistamanna (SÍM) kynntu drög að samningi um þátttöku og framlag myndlistarmanna til sýningarhalds í opinberum listasöfnum, í kjölfar herferðinnar sem SÍM hefur staðið fyrir “VIРBORGUM LISTAMÖNNUM”.

Continue reading

Póstlistinn kominn í lag

Seinni partinn í gær komst póstlistinn loksins í lag. Safnmenn geta því tekið gleði sína á ný og hafist handa við að senda tölvupósta sín á milli sem aldrei fyrr.

Vegna bilunarinnar glötuðust allir póstar sem voru sendir fram að deginum í gær. Því viljum við hvetja alla þá sem hafa sent tölvupósta á milli 11. desember og 15. janúar með mikilvægum upplýsingum, að senda þá aftur ef upplýsingar eiga enn við.

Enn og aftur er beðist velvirðingar á þessum vandræðagangi með póstlistann og vonast er til að slíkt gerist ekki aftur.

Póstlisti safnmanna í ólagi

Póstlisti safnmanna hefur verið óvirkur núna síðan fyrir jól. Unnið er að því að koma listanum aftur í gang þannig að safnafólk getur haldið áfram sínum hefðbundnu póstsendingum.

Bilunin varð til þess að margar jólakveðjur sem áttu að berast til félagsmanna frá söfnum og öðrum kollegum bárust ekki. Beðist er velvirðingar á því sem og öðrum óþægindum sem hafa orðið vegna bilunarinnar.

Á meðan póstlistinn er óvirkur má benda á Facebook síðu félagsins, eins heldur Safnafræði við Háskóla Íslands uppi líflegum hópi á samfélagsmiðlinum.

Skrímslasetur-frá hugmynd til opnunar

Þann 9.desember var síðasti fyrirlestur ársins, á vegum Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS). Að venju var hann haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins. Valdimar Gunnarsson formaður Félags áhugamanna um skrímslasetur var með sérlega áhugaverðan fyrirlestur um einstaka sögu og uppbyggingu skrímslasetursins í Bíldudal og hverju samtakamátturinn getur áorkað.

Tónlistararfi þjóðarinnar fleygt á dyr?

Stjórn Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) gagnrýnir ákvörðun Kópavogsbæjar að skera niður framlag til reksturs Tónlistarsafns Íslands.

Félagið mótmælir einnig því að ákvörðunin sé tekin einhliða án sýnilegs samráðs. Tónlistararfur þjóðarinnar er í húfi og það á ekki að vera í höndum sveitastjórnar einnar og sér að tefla honum í tvísýnu. Með ákvörðuninni er Kópavogsbær að leggja í hættu vinnu við varðveislu og miðlun íslensks tónlistararfs. Vinnu sem hefur vakið verðskuldaða athygli víða og er tekin til fyrirmyndar innan lands sem utan.

Samkvæmt íslenskum safnalögum eru söfn varanlegar stofnanir. Rekstur safna krefst skuldbindingar sem á ekki að hlaupast undan í hálfkæringi eða með geðþóttaákvörðunum. FÍSOS hvetur bæjarráðsfulltrúa Kópavogsbæjar að endurskoða ákvörðun sína og standa undir þeim skuldbindingum sem bærinn hefur gengist undir.

FÍSOS leggur áherslu á að bærinn leggi allt í sölurnar til að leysa þann ágreining sem komið hefur upp við Mennta- og menningarmálaráðuneyti svo það sé hægt að halda uppi því mikilvæga starfi sem unnið hefur verið á Tónlistarsafni Íslands. Velvilji beggja aðila þarf til að viðunandi lausn finnist í málinu.

Virðingarfyllst,

Bergsveinn Þórsson, Formaður Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS)

Skýrsla farskólans 2014

Skýrsla farskólans 2014 hefur litið dagsins ljós. Þar er farið ítarlega í skipulagningu ferðalagsins til Berlínar, ferðina sjálfa og upplifun farskólanemenda.

Farskólastjórn ársins 2014 á mikið hrós skilið fyrir einstaka skipulagshæfileika og vel heppnaða ferð sem safnafólk landsins mun lengi njóta góðs af.

Skýrsluna má nálgast hér: Farskóli 2014 Berlín

 

Dagskrá Málþings um safnfræðslu

Þann 27. apríl næstkomandi mun Þjóðminjasafnið og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa fyrir málþingi um safnfræðslu. Málþingið verður haldið í Safnahúsinu við Hverfisgötu á milli 13:00 og 17:15. Allir velkomnir!

Dagskrá

13:00-13:20 – Bergsveinn Þórsson, verkefnastjóri safnfræðslu á Borgarsögusafni Reykjavíkur:
Safnfræðsla í sókn, safnfræðsluráð og norrænt samstarf

13:30 -13:50 – Bryndís Sverrisdóttir sviðsstjóri miðlunarsviðs á Þjóðminjasafni Íslands:
Saga íslenskrar safnfræðslu og staðan í dag

14:00-14:20 – Sigurjón Baldur Hafsteinsson, dósent í safnafræði við Háskóla Íslands:
Viðbótardiplóma í safnfræðslu

14:20-15:00 – Kaffi

15:00–15:20 – AlmaDís Kristinsdóttir, doktorsnemi í safnafræði:
Fagleg nálgun í fræðslumálum safna: hindranir og möguleikar

15:30 -15:50 – Hlín Gylfadóttir safnfræðslufulltrúi:
Safnfræðsla í sýningunni Sjónarhorn í Safnahúsinu

15:50-16:00 – Stutt hlé

16:00-17:15 – Markaðstorg hugmyndanna! Stuttar kynningar á fræðslustarfi safna: (7 mín. kynning og 3 mín fyrir spurningar)

 • Safnahúsið í Borgarnesi: Guðrún Jónsdóttir kynnir samstarf við tónlistarskóla
 • Menningarmiðstöð Þingeyinga, Húsavík: Sif Jóhannesdóttir  kynnir samstarfsverkefni leikskóla og listasafns.
 • Listasafn Íslands: Björg Erlingsdóttir og Kristín Scheving kynna verkefni Vasulka stofu.
 • Listasafn Reykjavíkur: Klara Þórhallsdóttir kynnir verkefni um útilistaverk í Breiðholti.
 • Borgarsögusafn Reykjavíkur: Alma Sigrún Sigurgeirsdóttir kynnir hlutverkaleik í Varðskipinu Óðni
 • Þjóðminjasafn Íslands: Helga Einarsdóttir kynnir minningavinnu fyrir aldraða.
 • The Learning Museum: Myndbandskynning á samstarfi safna og skóla í Danmörku.

Safnfræðsla í kenningarlegu samhengi. Fræðslustarf Hönnunarsafns Íslands greint út frá hugsmíðahyggju

Hádegisfyrirlestur FÍSOS verður þann 22. apríl 2015 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, að venju frá 12:00-13:00.

Þóra Sigurbjörnsdóttir safnafræðingur og sérfræðingur á Hönnunarsafni Íslands, er fyrirlesari að þessu sinni og mun fjalla um meistararitgerð sína: Safnfræðsla í kenningarlegu samhengi. Fræðslustarf Hönnunarsafns Íslands greint út frá hugsmíðahyggjunni.

Kenningar tengdar hugsmíðahyggjunni eru nýttar til að skoða fræðslustarf Hönnunarsafnsins og til að velta vöngum yfir safnfræðslu almennt. Staða safnfræðslu innan Hönnunarsafnsins er skoðuð út frá sögu hennar og möguleikum.

Græða söfn og starfsmenn þeirra á því að kynna sér kenningar varðandi fræðslu? Til hvers að setja sér markmið tengd fræðslustarfi? Geta eigendur safna haft áhrif á safnfræðslu? Eiga söfn að hjálpa gestum að spyrja?

Farið verður yfir meginefni ritgerðarinnar og spurningum velt upp er varða safnfræðslu í anda hugsmíðahyggju.

Fyrirlesturinn er tekinn upp í hljóði og mynd.

Allir velkomnir

Málþing um safnfræðslu

Þann 27. apríl næstkomandi mun Þjóðminjasafnið og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa fyrir málþingi um safnfræðslu. Málþingið verður haldið í Safnahúsinu á milli 13:00 og 17:00, að loknum vorfundi Þjóðminjasafnsins.

Á málþinginu verður m.a. fjallað um:

 • Stofnun sérstakrar safnfræðsludeildar innan FÍSOS
 • Samstarf við erlendar stofnanir og félagasamtök
 • Saga og staða safnfræðslu á Íslandi
 • Nýjar íslenskar rannsóknir í safnfræðslu
 • Námsbraut í safnfræðslu við HÍ

Í lok dags verður svo “markaðstorg hugmynda” þar sem kynntar verða nýjar og spennandi hugmyndir í safnfræðslu
og/eða verkefni eða aðferðir sem hafa virkað vel til þessa.

Við viljum kalla eftir tillögum fyrir markaðstorgið. Allir sem hafa áhuga eru hvattir til að hafa samband! Hér er um að ræða gott tækifæri fyrir fræðslufólk safna til að kynna eigin hugmyndir og verkefni. Hver og einn fær 7 mínútur til umráða (hámark 6-8 glærur) og gefinn er tími fyrir 1-2 spurningar á eftir hverju erindi. Vinsamlega sendið tillögur til okkar fyrir 13. apríl!

Bergsveinn Þórsson (bergsveinn.thorsson@reykjavik.is)
Bryndís Sverrisdóttir (bryndis@thjodminjasafn.is)

Dagsnámskeið í menningarstjórnun og upplýsingatækni, vefumsjón og notkun samfélagsmiðla.

20150130_134719Hefur þú áhuga á að sækja dagsnámskeið í menningarstjórnun og upplýsingatækni, vefumsjón og notkun samfélagsmiðla  ?

Um er að ræða námskeið á vegum háskólans á Bifröst. Námskeiðið er haldið hér í Reykjavík á Hverfisgötu 4-6, 101 Reykjavík

Námskeiðið verður haldið föstudaginn 15. maí 2015.

Lágmarks þátttaka er 20 manns. Hér fyrir neðan má sjá nánari upplýsingar um tilhögun námskeiðs og kennara. Verð 19.900 kr.

Félag íslenskra safna og safnmanna – dagsnámskeið

Vinsamlegast sendið línu um skráningu fyrir 6. apríl á elisabet@safnmenn.is