Söfn og sjálfbær þróun: Áratugur aðgerða!

Farskóli Félags íslenskra safna og safnmanna verður haldinn í Vestmannaeyjum þann 23. til 25. september 2020. Þema farskólans verður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Ljóst er að söfn og aðrar menningar- og náttúruminjastofnanir hafa mikið fram að færa þegar kemur að því að stuðla að því að ná settum markmiðum árið 2030. Framundan er áratugur aðgerða og þótti því vel við hæfi að tileinka farskóla ársins heimsmarkmiðunum og skapa vettvang til þess að ræða hugmyndir, deila reynslu og efla samvinnu fyrir veginn framundan.

Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru metnaðarfull markmið sem voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Markmiðin sem gilda til ársins 2030 eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum.

Nú árið 2020 hófst áratugur aðgerða þar sem tíu ár eru til stefnu að umbreyta heiminum og stuðla að sjálfbærri framtíð. Heimsmarkmiðin fela í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Markmiðin eru víðfeðm og taka jafnt til umhverfislegra sem og samfélags- og efnahagslegra þátta. Þrátt fyrir að vera deilt niður í sautján markmið og enn fleiri undirmarkmið, tengjast heimsmarkmiðin innbyrðis og mynda eina heild. Þar af leiðandi er lögð áhersla á að innleiðing þeirrra sé hugsuð á samþættan og heildstæðan hátt. 

Heimsmarkmiðin eru ekki eingöngu hugsuð fyrir stjórnvöld, heldur er samstarf ólíkra hagsmunaðila, fyrirtækja, stofnanna og samfélagshópa, ómissandi þáttur í framkvæmd þeirra.

Kall eftir tillögum að vinnustofum og málstofum

Lumar þú á reynslusögu af verkefni sem tengist sjálfbærri þróun? Langar þig að læra meira um heimsmarkmiðin og hvernig þau tengjast safnastarfi? Langar þig að ræða málin, skiptast á hugmyndum tengd ákveðnum þáttum safnastarfs og sjálfbærni?

Farskólanefnd  kallar eftir tillögum og hugmyndum að vinnustofum og málstofum fyrir farskólann 2020. Óskað er eftir tillögum sem tengjast sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á einn eða annan hátt. Vonast er til að hægt verði að bjóða upp á fjölbreytt úrval vinnu- og málstofa sem endurspegla þá margvíslegu möguleika söfn hafa fram að færa til að styðja við heimsmarkmiðin í verki. 

Finna má upplýsingar um heimsmarkmiðin á heimasíðunni http://heimsmarkmidin.is Einnig er vert að benda sá samantekt Henry McGhie um tengsl heimsmarkmiðanna og safnastarfs Museums and the Sustainable Development Goals sem finna má á heimasíðunni http://curatingtomorrow.co.uk 

Vinnu- og málstofur geta verið allt að 60 mínútur að lengd. Fyrirhugað er að halda ólíkar vinnustofur samtímis sem þátttakendur farskólans geta skráð sig á og valið eftir sérsviði eða áhuga. Áhersla verður lögð á þátttöku og umræður, þar sem félagsmenn deila reynslu sinni, læra hvor af öðrum og ræða málin.

Tekið er á móti öllum tillögum frá fyrirfram mótuðum málstofum, til hugmynda að mögulegum aðgerðum fyrir söfn. Tillögur mega einnig vera í formi ábendinga um það sem þið teljið mikilvægt að leggja áherslu á. Sendið línu á farskólastjórn farskoli2020@gmail.com.